Sjálfstæðismenn verði betri talsmenn þeirra sem minna mega sín

11. febrúar 2025

'}}

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Sjálf­stæðis­menn geta verið stolt­ir af sögu flokks­ins og fram­lagi hans til mót­un­ar ís­lensks sam­fé­lags. Enda hef­ur sjálf­stæðis­stefn­an skipt sköp­um við að skapa eitt mesta vel­meg­un­ar­sam­fé­lag heims­ins. Enn er þó og alltaf verk að vinna. Þótt lífs­gæði okk­ar séu sann­ar­lega meiri en und­an­geng­inna kyn­slóða er bar­átt­an fyr­ir lífs­gæðum kom­andi kyn­slóða ei­líf.

Það sama má segja um bar­átt­una fyr­ir betra lífi okk­ar minnstu bræðra. Í þjóðhátíðarræðu þann 17. júní 1962 sagði Ólaf­ur Thors, for­sæt­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, að þótt al­menn vel­meg­un ríkti á Íslandi mætti ekki linna sókn­inni fyrr en búið væri að út­rýma allri fá­tækt. Þessi lífs­sýn Ólafs end­ur­speglaðist mjög í verk­um hans. Hann beitti sér m.a. fyr­ir lög­fest­ingu á framúrsk­ar­andi og víðfeðmu al­manna­trygg­inga­kerfi og stór­aukn­um aðgangi að ís­lensku mennta­kerfi.

Heil­um átta­tíu árum síðar fór Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn fyr­ir rík­is­stjórn sem lög­festi stór­tæk­ar breyt­ing­ar á ör­orku­líf­eyri­s­kerfi al­manna­trygg­inga. Mark­miðið var að bæta lífs­kjör og auka lífs­gæði ein­stak­linga með ör­orku. Lög­in koma til fram­kvæmda á þessu ári.

Sjálf­stæðis­menn fóru sömu­leiðis fyr­ir rót­tækri end­ur­skipu­lagn­ingu á fé­lags­legri þjón­ustu með stofn­un fé­lags­málaráðs og Fé­lags­mála­stofn­un­ar Reykja­vík­ur. Með því hófst nýr kafli í sögu vel­ferðar­mála hér­lend­is.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur ætíð lagt áherslu á að standa vörð um al­manna­trygg­inga­kerfi og fé­lagsþjón­ustu sem sjálf­stæðis­menn áttu mest­an þátt í að koma á fót. Að láta sig varða lít­il­magn­ann, að vera annt um hann, á sér auðvitað djúp­ar ræt­ur í krist­inni arf­leifð okk­ar. Við finn­um því til ríkr­ar ábyrgðar á að líta ekki fram­hjá neyð ná­ung­ans held­ur koma hon­um til bjarg­ar. Á síðari árum hafa þess­ar áhersl­ur okk­ar þó ekki end­ur­spegl­ast nægj­an­lega í mál­flutn­ingi okk­ar. Við hefðum sann­ar­lega mátt gefa mál­efn­um fólks með skerta starfs­orku og þeirra sem þurfa sann­ar­lega að reiða sig á op­in­bera fram­færslu meira vægi. Niður­stöður síðustu alþing­is­kosn­inga gefa sterk­lega til kynna að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafi glatað stöðu sinni sem mál­svari þessa hóps. Það er virki­lega miður, enda sýn­ir sag­an okk­ur hverj­ar áhersl­ur sjálf­stæðismanna hafa verið í þess­um efn­um.

Við sjálf­stæðis­menn get­um horft stolt­ir til frum­kvöðla úr okk­ar röðum á borð við pró­fess­or­ana Björn Björns­son og Þóri Kr. Þórðar­son, sem fóru fyr­ir um­bót­um í þjón­ustu við þá sem minna mega sín. En ekki síst Guðrúnu Lár­us­dótt­ur, fyrstu kon­una sem kos­in var á þing fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn og Ólaf­ur Thors fékk til liðs við okk­ur.

Það er verk­efni okk­ar sem höf­um val­ist til starfa fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn að end­ur­heimta fyrri stöðu og trú­verðug­leika sem mál­svar­ar þeirra sem minna mega sín. Þeir þurfa enda mest á tals­mönn­um að halda. Og eins og Ólaf­ur Thors sagði er þörf­in brýn á meðan ekki er búið að út­rýma hér fá­tækt. Ég tek þessa stöðu og áskor­un al­var­lega og mun leggja mitt af mörk­um til þessa.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2025.