Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Sjálfstæðismenn geta verið stoltir af sögu flokksins og framlagi hans til mótunar íslensks samfélags. Enda hefur sjálfstæðisstefnan skipt sköpum við að skapa eitt mesta velmegunarsamfélag heimsins. Enn er þó og alltaf verk að vinna. Þótt lífsgæði okkar séu sannarlega meiri en undangenginna kynslóða er baráttan fyrir lífsgæðum komandi kynslóða eilíf.
Það sama má segja um baráttuna fyrir betra lífi okkar minnstu bræðra. Í þjóðhátíðarræðu þann 17. júní 1962 sagði Ólafur Thors, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, að þótt almenn velmegun ríkti á Íslandi mætti ekki linna sókninni fyrr en búið væri að útrýma allri fátækt. Þessi lífssýn Ólafs endurspeglaðist mjög í verkum hans. Hann beitti sér m.a. fyrir lögfestingu á framúrskarandi og víðfeðmu almannatryggingakerfi og stórauknum aðgangi að íslensku menntakerfi.
Heilum áttatíu árum síðar fór Sjálfstæðisflokkurinn fyrir ríkisstjórn sem lögfesti stórtækar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. Markmiðið var að bæta lífskjör og auka lífsgæði einstaklinga með örorku. Lögin koma til framkvæmda á þessu ári.
Sjálfstæðismenn fóru sömuleiðis fyrir róttækri endurskipulagningu á félagslegri þjónustu með stofnun félagsmálaráðs og Félagsmálastofnunar Reykjavíkur. Með því hófst nýr kafli í sögu velferðarmála hérlendis.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætíð lagt áherslu á að standa vörð um almannatryggingakerfi og félagsþjónustu sem sjálfstæðismenn áttu mestan þátt í að koma á fót. Að láta sig varða lítilmagnann, að vera annt um hann, á sér auðvitað djúpar rætur í kristinni arfleifð okkar. Við finnum því til ríkrar ábyrgðar á að líta ekki framhjá neyð náungans heldur koma honum til bjargar. Á síðari árum hafa þessar áherslur okkar þó ekki endurspeglast nægjanlega í málflutningi okkar. Við hefðum sannarlega mátt gefa málefnum fólks með skerta starfsorku og þeirra sem þurfa sannarlega að reiða sig á opinbera framfærslu meira vægi. Niðurstöður síðustu alþingiskosninga gefa sterklega til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn hafi glatað stöðu sinni sem málsvari þessa hóps. Það er virkilega miður, enda sýnir sagan okkur hverjar áherslur sjálfstæðismanna hafa verið í þessum efnum.
Við sjálfstæðismenn getum horft stoltir til frumkvöðla úr okkar röðum á borð við prófessorana Björn Björnsson og Þóri Kr. Þórðarson, sem fóru fyrir umbótum í þjónustu við þá sem minna mega sín. En ekki síst Guðrúnu Lárusdóttur, fyrstu konuna sem kosin var á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Ólafur Thors fékk til liðs við okkur.
Það er verkefni okkar sem höfum valist til starfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn að endurheimta fyrri stöðu og trúverðugleika sem málsvarar þeirra sem minna mega sín. Þeir þurfa enda mest á talsmönnum að halda. Og eins og Ólafur Thors sagði er þörfin brýn á meðan ekki er búið að útrýma hér fátækt. Ég tek þessa stöðu og áskorun alvarlega og mun leggja mitt af mörkum til þessa.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2025.