Öflugur flokkur fyrir öfluga þjóð

11. febrúar 2025

'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður:

Nú í vor verða liðin 96 ár frá stofn­un Sjálf­stæðis­flokks­ins og það stytt­ist óðum í að flokk­ur­inn hafi starfað í heila öld. Það er vissu­lega mikið af­rek, en eðli máls­ins sam­kvæmt hef­ur flokk­ur­inn farið í gegn­um ým­is­legt á þeim tíma sem liðinn er. Það sem eft­ir stend­ur er þó að þegar Sjálf­stæðis­flokkn­um geng­ur vel geng­ur þjóðinni vel. Þjóðin hef­ur orðið þeirr­ar gæfu aðnjót­andi að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur setið í yfir 20 rík­is­stjórn­um af þeim rúm­lega 30 sem hafa verið myndaðar frá því að flokk­ur­inn var stofnaður. Við höf­um upp­lifað gíf­ur­leg­ar fram­far­ir á liðinni öld og með rétt­um ákvörðunum hef­ur okk­ur tek­ist að gera eina fá­tæk­ustu þjóð heims að einni þeirra rík­ustu.

Við sjá­um það strax á fyrstu dög­um þeirr­ar vinstri­stjórn­ar sem nú sit­ur við völd hvernig hlut­irn­ir geta hratt þró­ast til hins verra. Einu skila­boð rík­is­stjórn­ar­inn­ar til ferðaþjón­ust­unn­ar eru að það sé verið að vinna að leiðum til að auka gjald­töku – sem heit­ir réttu nafni skatt­heimta – inn­an grein­ar­inn­ar og aðilum í sjáv­ar­út­vegi er sagt, af odd­vit­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar, að þeir eigi að skjálfa á bein­un­um. Eins og ég rakti hér í síðasta pistli voru einu skila­boð vinstri­flokk­anna til smærri at­vinnu­rek­enda þau að þeir ættu að greiða hærri skatta. Svona verður þetta á meðan þessi rík­is­stjórn starfar, umræðan um at­vinnu­líf mun ekki snú­ast um verðmæta­sköp­un eins og hún ætti að gera held­ur miklu frek­ar um aukna skatta og frek­ari reglu­setn­ingu. Þá eru all­ar hug­mynd­ir um ný­sköp­un í heil­brigðismál­um til að bæta þjón­ustu fjar­stæðukennd­ar eins og sak­ir standa, svo að val­inn sé einn mála­flokk­ur af handa­hófi.

Þjóðin þarf því á því að halda að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sé og verði öfl­ug­ur, hvort sem flokk­ur­inn starfar í stjórn eða stjórn­ar­and­stöðu. Til þess þarf flokk­ur­inn ekki bara öfl­ug­an leiðtoga, held­ur þarf hann að virkja það öfl­uga fólk sem starfar inn­an flokks­ins í dag og þá sem eiga eft­ir að starfa inn­an flokks­ins. Sá leiðtogi þarf að sam­eina krafta at­vinnu­rek­enda og launþega og þarf að hafa burði til að virkja þá þekk­ingu og reynslu sem flokks­menn búa yfir og móta þannig stefnu sem ein­kenn­ist af fram­sækni og fel­ur í sér frek­ari upp­bygg­ingu og verðmæta­sköp­un. Formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins er ekki full­trúi eins kjör­dæm­is eða eins hags­muna­hóps, held­ur full­trúi allra hópa, allra kjör­dæma og allra at­vinnu­greina.

Inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins starfar nú þegar fólk í þjón­ustu­störf­um og versl­un­ar­störf­um, iðnaðar­menn, kenn­ar­ar, hag­fræðing­ar, verk­fræðing­ar, for­stjór­ar og þannig mætti áfram telja. Það er fyrst og fremst þetta fólk sem ger­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn öfl­ug­an og ýtir þannig und­ir frek­ari fram­far­ir sam­fé­lags­ins. Þannig byggj­um við framtíðina, á fólk­inu sem á hverj­um degi vinn­ur að því að gera sam­fé­lagið betra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. febrúar 2025.