Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður:
Nú í vor verða liðin 96 ár frá stofnun Sjálfstæðisflokksins og það styttist óðum í að flokkurinn hafi starfað í heila öld. Það er vissulega mikið afrek, en eðli málsins samkvæmt hefur flokkurinn farið í gegnum ýmislegt á þeim tíma sem liðinn er. Það sem eftir stendur er þó að þegar Sjálfstæðisflokknum gengur vel gengur þjóðinni vel. Þjóðin hefur orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í yfir 20 ríkisstjórnum af þeim rúmlega 30 sem hafa verið myndaðar frá því að flokkurinn var stofnaður. Við höfum upplifað gífurlegar framfarir á liðinni öld og með réttum ákvörðunum hefur okkur tekist að gera eina fátækustu þjóð heims að einni þeirra ríkustu.
Við sjáum það strax á fyrstu dögum þeirrar vinstristjórnar sem nú situr við völd hvernig hlutirnir geta hratt þróast til hins verra. Einu skilaboð ríkisstjórnarinnar til ferðaþjónustunnar eru að það sé verið að vinna að leiðum til að auka gjaldtöku – sem heitir réttu nafni skattheimta – innan greinarinnar og aðilum í sjávarútvegi er sagt, af oddvitum ríkisstjórnarinnar, að þeir eigi að skjálfa á beinunum. Eins og ég rakti hér í síðasta pistli voru einu skilaboð vinstriflokkanna til smærri atvinnurekenda þau að þeir ættu að greiða hærri skatta. Svona verður þetta á meðan þessi ríkisstjórn starfar, umræðan um atvinnulíf mun ekki snúast um verðmætasköpun eins og hún ætti að gera heldur miklu frekar um aukna skatta og frekari reglusetningu. Þá eru allar hugmyndir um nýsköpun í heilbrigðismálum til að bæta þjónustu fjarstæðukenndar eins og sakir standa, svo að valinn sé einn málaflokkur af handahófi.
Þjóðin þarf því á því að halda að Sjálfstæðisflokkurinn sé og verði öflugur, hvort sem flokkurinn starfar í stjórn eða stjórnarandstöðu. Til þess þarf flokkurinn ekki bara öflugan leiðtoga, heldur þarf hann að virkja það öfluga fólk sem starfar innan flokksins í dag og þá sem eiga eftir að starfa innan flokksins. Sá leiðtogi þarf að sameina krafta atvinnurekenda og launþega og þarf að hafa burði til að virkja þá þekkingu og reynslu sem flokksmenn búa yfir og móta þannig stefnu sem einkennist af framsækni og felur í sér frekari uppbyggingu og verðmætasköpun. Formaður Sjálfstæðisflokksins er ekki fulltrúi eins kjördæmis eða eins hagsmunahóps, heldur fulltrúi allra hópa, allra kjördæma og allra atvinnugreina.
Innan Sjálfstæðisflokksins starfar nú þegar fólk í þjónustustörfum og verslunarstörfum, iðnaðarmenn, kennarar, hagfræðingar, verkfræðingar, forstjórar og þannig mætti áfram telja. Það er fyrst og fremst þetta fólk sem gerir Sjálfstæðisflokkinn öflugan og ýtir þannig undir frekari framfarir samfélagsins. Þannig byggjum við framtíðina, á fólkinu sem á hverjum degi vinnur að því að gera samfélagið betra.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. febrúar 2025.