Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Gatnagerðargjöld í Reykjavík munu hækka um allt að 90% samkvæmt samþykkt meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar á fundi borgarstjórnar 4. febrúar 2025. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Flokks fólksins og Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn hækkuninni en fulltrúar Sósíalistaflokksins sátu hjá.
Þessi hækkun er olía á verðbólgubálið, viðbótarskattur á húsbyggjendur og atlaga að kaupendum nýrra íbúða í Reykjavík.
Gatnagerðargjöld hækka um 85% á íbúðir í fjölbýlishúsi, 33% á raðhús og 38% á atvinnuhúsnæði. Í raun er um meiri hækkun að ræða því með breytingunni verður einnig tekin upp gjaldtaka á bíla- og hjólageymslur ofanjarðar. Að því gjaldi viðbættu má reikna með að hækkunin nemi u.þ.b. 90% fyrir íbúðir í fjölbýlishúsum.
Gatnagerðargjald á einbýlishús verður óbreytt enda voru þau há fyrir.
Mikil hækkun gatnagerðargjalda bætist við önnur gjöld og kvaðir, sem húsbyggjendur í Reykjavík inna nú þegar af hendi. Borgin innheimtir nú þegar afar há byggingarréttargjöld (innviðagjöld), sem geta numið tugum þúsunda króna á nettófermetra í fjölbýlishúsi. Eftir breytinguna geta byggingarréttargjöld og gatnagerðargjöld numið allt að tíu milljónum króna samanlagt fyrir 100 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi.
Ofurskattar og kvaðir
Þar að auki bætast við ýmsar aðrar kvaðir og kostnaður, sem húsbyggjendum er gert að inna af hendi. Kvöð er um að félagslegar íbúðir skuli vera ákveðið hlutfall af íbúðum í fjölbýlishúsum, sem húsbyggjandi þarf að selja á undirverði til borgarinnar. Þá þarf hlutfall leiguíbúða að vera a.mk. 15%. Slíkar kvaðir auka álögur á húsbyggjendur og hækka þannig enn frekar verð á almennum íbúðum.
Ekkert sveitarfélag á landinu leggur eins há gjöld á nýjar íbúðir og Reykjavíkurborg. Borgin er því í algerum sérflokki varðandi skattlagningu á íbúðarhúsnæði.
Undanfarinn áratug hafa íbúðir hækkað svo í verði í borginni að það er varla á færi venjulegs launafólks að festa kaup á íbúð, hvað þá láglaunafólks. Vegna þessarar þróunar, sem rekja má til lóðaskortstefnu Reykjavíkurborgar undanfarinn áratug, hafa tugþúsundir Reykvíkinga hrakist út á afar dýran leigumarkað.
Aukin gjöld hækka húsnæðisverð
Gatnagerðargjöld eru stórhækkuð í Reykjavík samtímis og mikið er rætt hvernig unnt sé að draga úr byggingarkostnaði til að auðvelda uppbyggingu á íbúðarhúsnæði.
Á sama tíma og ráðherrar Samfylkingar og Viðreisnar boða bráðaaðgerðir í húsnæðismálum í því skyni að auðvelda íbúðakaup ungs fólks, standa borgarfulltrúar sömu flokka að því að hækka gatnagerðargjöld í Reykjavík um allt að 90%. Augljóst er að svo mikil hækkun gatnagerðargjalda hækkar íbúðaverð og hefur þannig neikvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn og möguleika almennings til að komast í eigið húsnæði. Getur verið að þessi mikla hækkun gatnagerðargjalda í stærsta sveitarfélagi landsins sé hluti af bráðaaðgerðum Samfylkingar og Viðreisnar í húsnæðismálum?
Olía á verðbólgubálið
Miklar verðhækkanir á húsnæðismarkaði í Reykjavík undanfarin ár, sem rekja má til lóðaskortstefnu borgarinnar, hafa átt stóran þátt í hinni miklu verðbólgu sem hér hefur geisað.
Ný ríkisstjórn hefur sagst ætla að leggja mikla áherslu á áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar Borgarfulltrúar ríkisstjórnarflokkanna Samfylkingar og Viðreisnar standa nú að stórhækkun gatnagerðargjalds, í borginni sem eykur verðbólgu og vinnur beinlínis gegn yfirlýstri stefnu ríkisstjórnar sömu flokka.
Dæmi um hækkun gjalda
- Gatnagerðargjald 60 fermetra íbúðar (72 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi nemur 1.176.349 krónum fyrir hækkun en 2.243.425 kr. eftir hækkun. Hækkunin nemur 1.067.075 fyrir umrædda íbúð eða 91%.
- Gatnagerðargjald 100 fermetra íbúðar í fjölbýlishúsi (120 fm. brúttó) nemur 1.960.582 krónum fyrir hækkun en 3.695.708 kr. eftir hækkun. Hækkunin nemur því 1.735.126 kr. eða 88,5%.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. febrúar 2025.