Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:
Tilhlökkun sjálfstæðismanna um land allt er áþreifanleg. Enn liggur snjór yfir landinu öllu en samt finnst mér vera vor í lofti. Eftir nokkrar vikur komum við saman á tímabærum landsfundi Sjálfstæðisflokksins; stærstu stjórnmálasamkomu landsins. Áhugi landsmanna og fjölmiðla á fundinum er mikill, enda gegnir Sjálfstæðisflokkurinn lykilhlutverki í íslensku samfélagi. Stefna hans hefur skipt sköpum fyrir land og þjóð í næstum 100 ár. Á þessum tíma hafa orðið algjör umskipti hér á landi og við höfum farið frá því að vera eitt fátækasta ríki Evrópu í það ríki þar sem lífsgæði eru einna mest á byggðu bóli. Landsfundur er þannig stórkostlegt tækifæri fyrir okkur til þess að skerpa línurnar og móta áfram mikilvæga stefnu og sýn fyrir Ísland til framtíðar.
Það er ekkert launungarmál að Sjálfstæðisflokkurinn á undir högg að sækja um þessar mundir. Niðurstaða alþingiskosninganna var okkur mikil vonbrigði og skilaboð kjósenda skýr: við sjálfstæðismenn höfum ekki staðið nægilega vel vörð um þau grunngildi, viðhorf og heimssýn sem sjálfstæðisstefnan byggist á. Við þurfum að hafa kjark til að spyrja okkur sjálf krefjandi spurninga um það af hverju við leyfðum því að gerast. Leiðin fram á við byrjar inn á við! Forystuafl eins og Sjálfstæðisflokkurinn barmar sér ekki, heldur spýtir í lófa og lætur hendur standa fram úr ermum.
Fyrir yfirstaðnar kosningar átti ég góð og gagnleg samtöl við hundruð kjósenda. Skilaboð velunnara Sjálfstæðisflokksins til okkar eru að við þurfum að leita í ræturnar, í sjálfstæðisstefnuna sem á jafnvel við nú og áður. Þeir hvetja okkur til að berjast gegn sívaxandi forræðishyggju og stjórnlyndi í þjóðfélaginu og tölum skýrar fyrir einstaklingsábyrgð og -frelsi. Ég skynjaði mikla eftirspurn eftir sjálfstæðismönnum sem þora að vera það sem þeir eru, þora að segja það sem þeim finnst og standa við eigin sannfæringu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf staðið vörð um íslenska menningu og tungu. Sjálfstæðisflokkurinn stendur líka vörð um þann grundvöll vestrænnar menningar sem kristin kirkja er. Sú varðstaða beinist ekki gegn neinum öðrum trúarbrögðum. Þvert á móti eiga allar trúar- og lífsskoðanir sér skjól í frjálslyndum þjóðfélögum Vesturlanda.
Það eru mikil sóknarfæri á Íslandi fyrir eina íslenska, frjálslynda hægriflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn. Það er von mín að landsfundur verði kröftugur upptaktur að því að nýta þessi færi. Tökumst á, skerpum línurnar og göngum svo út samstilltur hópur sem er tilbúinn að vinna íslensku samfélagi áfram það gagn sem hann má.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. janúar 2025.