29. janúar 2025
Heil og sæl kæru félagar.
Gleðilegt ár!
Ég vona svo sannarlega að fólk komi vel undan hátíðum og undan janúarmánuði sem senn er á enda. Sumir eiga erfitt með janúarmánuð sem er oftast dimmur og snjóþungur. Sjálf er ég mjög hrifin af janúarmánuði, nýtt upphaf og afmælismánuðurinn minn í ofanálag. En þetta eru spennandi tímar hjá okkur sjálfstæðisfólki. Framundan er landsfundur með viðeigandi fjöri. Ágætur vinur minn, sem er ekki sjálfstæðismaður, spurði mig um daginn hvort ekki væri gaman að vera sjálfstæðismaður í dag? “ Það er svo mikið í gangi hjá ykkur, svo mikið stuð.” Ég sagði að það væri alltaf gaman að vera sjálfstæðimaður en sannarlega væri verið að halda fólki við efnið þessa dagana, fyrst með ríkisstjórnarslitum og svo með landsfundarfjörinu sem bíður okkar.
Aðalfundur Málfundafélagsins Óðins var haldinn á miðri aðventu núna í desember á Hótel Holti eða þann 11. desember. Það var sjálfkjörið í stjórn félagsins og kjörnir voru áfram undirrituð Birna Hafstein formaður, Auður Björk Guðmundsdóttir, Þorvaldur Birgisson, Hildur Hauksdóttir, Guðný Halldórsdóttir og ný í stjórn eru Ólöf Skaftadóttir, Sigurður Örn Hilmarsson, Egill Trausti Ómarsson og Tómas Þór Þórðarson. Þau sem gengu úr stjórn nú voru Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Viktor Ingi Lorange, Magnús Þór Gylfason og Bryndís Bjarnadóttir og þakka ég þeim samstarfið og vel unnin störf.
Framundan er spennandi verkefnaskrá hjá Málfundafélaginu Óðni. Við ætlum að halda áfram að halda opna fundi þar sem mál líðandi stundar eða þau mál sem brenna á samfélaginu eru rædd og við fáum til okkar góða gesti. Fyrsti fundur er í augsýn og verður auglýstur síðar. Þangað til munum við fá að senda á félagsmenn valgreiðslu inná heimabanka að upphæð kr. 1.900 sem er hóflegt félagsgjald og er fólki valfrjálst að greiða eða ekki.
Við hlökkum til að hitta ykkur sem fyrst kæru félagsmenn.
F.h. stjórnar Óðins,
hlýjar kveðjur,
Birna Hafstein formaður.