Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér á næsta landsfundi flokksins sem haldinn verður dagana 28. febrúar – 2. mars nk.
„Ég er stolt af því að hafa verið í forystu flokksins með Bjarna Benediktssyni undanfarin sjö ár og hafa átt þátt í þeim mikla árangri sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt þátt í að ná fyrir Ísland.
Á þeim tímamótum sem flokkurinn er á núna er eðlilegt að þær raddir sem kallað hafa hæst á endurnýjun fái tækifæri til þess að reyna sig og flokkurinn fái að velja nýja forystu. Ég sækist því ekki eftir formennsku eða öðru embætti á næsta landsfundi,“ segir hún í færslu á facebook.
„Ég tek þessa ákvörðun með hjartanu og á þessum tímamótum lít ég inn á við og spyr sjálfa mig hvernig ég geti best gert gagn. Þá er gott að vera umkringd væntumþykju og kærleika fjölskyldu og vina. Börnin mín og eiginmann sem jarðtengja mig, mömmu og pabba, bræður, mágkonur, tengdaforeldra, frænkur, frændur og vini.
Ég mun með stolti gera hvað ég get sem þingmaður í sterku liði undir nýrri forystu. Ég hlakka til að vera óbreyttur þingmaður á eigin forsendum - og hluti af liði. Í öflugum þingflokki með nýju og framúrskarandi fólki sem hlakkar til að spreyta sig og vaxa í nýju hlutverki. Ég hlakka til að vera frjálsari, fá meiri tíma til að lesa bækur og skrifa, rækta það að hafa skynbragð og skilning á því sem er að gerast í kringum okkur, og veldur mér raunverulegum áhyggjum,“ segir hún.