Sviptum erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Nýr dómsmálaráðherra greindi frá því á dögunum að hún hygðist beita sér fyrir því að hægt yrði að afturkalla alþjóðlega vernd þeirra sem brjóta alvarlega af sér hérlendis. Fyrirrennari hennar í starfi, Guðrún Hafsteinsdóttir, hafði raunar sett af stað vinnu við að kanna möguleikann á lagabreytingu í þessa veru. Raunar virðist mér ekki sérstök þörf á nýrri lagasetningu, þar eð lög heimila brottvísun brotlegs útlendings sem hefur dvalarleyfi. Ég tek undir orð ráðherrans um nauðsyn þess að þessi vinna klárist ef þörf er talin á lagabreytingu, en vindi sér annars í löglegar brottvísanir.

Á liðnu kjörtímabili lagði ég fram frumvarp í meðflutningi fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins um sviptingu ríkisfangs einstaklinga sem hafa öðlast ríkisborgararétt samkvæmt lögum þegar þeir hafa gerst sekir um alvarleg afbrot. Sömuleiðis ef umsækjandi um ríkisfang veitir rangar eða villandi upplýsingar um mikilvæg málsatvik við umsókn. Sambærileg ákvæði má finna í löggjöf hinna Norðurlandaþjóðanna.

Ríkisborgararétti fylgja enda víðtæk réttindi og skyldur. Að sækja um og fá íslenskan ríkisborgararétt þarf að fela í sér skuldbindingu um að farið sé eftir meginreglum og gildum íslensks samfélags. Þá útlendinga sem villa um fyrir stjórnvöldum og fá ríkisfang á þeim grundvelli, og þá sem hingað koma og ógna mikilvægum hagsmunum íslenska ríkisins eða fremja önnur alvarleg afbrot, tel ég hafa fyrirgert þeim réttindum sem íslensk stjórnvöld hafa áður veitt.

Ísland hefur jafnan verið í fararbroddi í samanburði við önnur lönd, m.a. að vera eitt öruggasta land í heimi og með mesta kynjajafnréttið. Enda er Ísland gríðarlega eftirsóttur staður til að búa á. Útlendingar sem ógna þeirri stöðu sem við höfum náð eiga litla samleið með íslensku samfélagi. Þar sem grunnskylda stjórnvalda er að tryggja frið og öryggi borgara í landinu mun ég taka það upp við nýjan ráðherra hvort henni hugnist að við stígum þessi mikilvægu skref líkt og nágrannaþjóðir okkar þegar kemur að sviptingu ríkisfangs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. janúar 2025