Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Deilan um umfang trjágrisjunar í Öskjuhlíð hefur meiri pólitíska þýðingu en ætla mætti við fyrstu sýn. Flestir sjá að aðalatriði málsins er að tryggja fullnægjandi flugöryggi við Reykjavíkurflugvöll. Slíkt mál ætti ekki að vera pólitískt heldur tæknilegt. Málið er þó rammpólitískt, þar sem eitt helsta keppikefli vinstri meirihlutans í borgarstjórn er að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík. Það skýrir hvers vegna illa hefur verið haldið á málinu af borgarstjóra og meirihlutanum.
Samkomulag er í gildi á milli Isavia og borgarinnar um að trjágróðri í Öskjuhlíð skuli haldið í skefjum í þágu flugöryggis og nauðsynlegur fjöldi trjáa felldur í því skyni. Flugbrautir þurfa að vera aðgengilegar og öruggar.
Í júlí 2023 taldi Isavia að hávaxinn trjágróður í hlíðinni væri orðinn raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi og brottflugi frá austur-vestur-braut flugvallarins. (13/31). Fór stofnunin fram á að felld yrðu 2.900 tré eða a.m.k. 1.200 tré.
Mismunandi skoðanir eru þó uppi um það hversu mörg tré þurfi í raun og veru að fella í Öskjuhlíð til að tryggja megi flugöryggi. Áðurnefndar tölur eru miðaðar við ýtrustu kröfur Isavia og er óvíst hvort fara þurfi í svo víðtæka grisjun. Þá er spurning hvort sneiða megi ofan af trjánum til að lækka þau.
Grisjun og gróðursetning
Að undanförnu hafa mörg tré þurft að víkja fyrir steinsteypu vegna þéttingar byggðar í borginni. Í þessu tilviki yrði ekki um slíkt að ræða. Í stað grenitrjáa, sem óhjákvæmilegt er að grisja í þágu flugöryggis, er hægt að gróðursetja ný og lægri tré og auka notagildi svæðisins í þágu almennrar útivistar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til á fundi borgarráðs 13. júlí 2023 að Reykjavíkurborg stæði við skuldbindingar sínar um trjágrisjun í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis og metið yrði hversu mörg há tré þyrfti að grisja í þessu skyni. Tillögunni var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs og þaðan til skrifstofu umhverfisgæða.
Rúmum mánuði síðar, 17. ágúst 2023, vísaði borgarráð erindi Isavia um sama mál einnig til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs, þaðan sem því var einnig vísað til skrifstofu umhverfisgæða.
Þrátt fyrir að átján mánuðir séu liðnir frá því að umrædd erindi Isavia og tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins voru lögð fram hefur engin umsögn um málið verið kynnt á vettvangi Reykjavíkurborgar. Þó hefur komið fram í fréttum að fulltrúar borgarinnar eiga í einhvers konar „samtölum“ um málið við Isavia og Samgöngustofu. Hafa þau ráð borgarinnar sem hafa málið með höndum ekki verið upplýst um þessi samskipti, sem er auðvitað óviðunandi stjórnsýsla.
Í júlí sl. kom fram í fréttum að borgin teldi einungis þurfa að fella nokkra tugi trjáa árlega til að fullnægja settum skilyrðum um flugöryggi. Isavia er ósammála því mati eins og áður segir. Í júlí sl. gaf Samgöngustofa frest til 2. september til að trjágróður í Öskjuhlíð yrði lækkaður niður fyrir hindranafleti í að- og brottflugsferlum.
Óviðunandi staða
Samgöngustofa hefur nú mælt fyrir um að annarri af tveimur flugbrautum Reykjavíkurflugvallar skuli lokað, þar sem borgin hafi ekki fellt þau tré í Öskjuhlíð, sem nauðsynlegt sé í þágu flugöryggis. Sú staða er óviðunandi, enda gegnir völlurinn mjög mikilvægu hlutverki í þágu innanlandsflugs, sjúkraflugs og björgunarflugs. Þá gegnir hann einnig mikilvægu hlutverki sem varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar.
Við blasir að afar illa hefur verið haldið á málinu af hálfu Reykjavíkurborgar. Hefur hún sýnt af sér mikið skeytingarleysi í málinu þrátt fyrir að hafa fengið margar viðvaranir og fresti á fresti ofan til að bregðast við erindum Isavia og Samgöngustofu.
Með þessu skeytingarleysi vinnur meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar enn og aftur gegn Reykjavíkurflugvelli. Það er pólitísk ákvörðun að bregðast ekki við versnandi aðflugsskilyrðum og þrengja þannig enn frekar að flugvellinum. Með slíkum vinnubrögðum aukast líkur á því að meirihlutanum takist það ætlunarverk sitt að loka Reykjavíkurflugvelli.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. janúar 2025.