Vilhjálmur Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður:
Tæpur mánuður er liðinn frá því að ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins tók við völdum. Stjórnarsáttmálinn sem þá var kynntur er meira í líkingu við óskilvirka markmiðasetningu sem unnin er án aðstoðar markþjálfa. Hvernig, hvenær og hvað þarf til svo markmiðum verði náð er látið ósagt. Planið margumtalaða er enn í felum. Spurningum eins og hvernig eigi að viðhalda einum bestu lífskjörum heims og hvernig áfram megi bæta okkar góða samfélag er enn ósvarað. Vona má að planið góða sé í smíðum en á meðan bíður þjóðin eftir því að fá að sjá á spilin.
Undirritaður viðurkennir fúslega að það sem þó hefur heyrst frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar hljómar um margt ákjósanlegt og má leyfa sér að hlakka til að vinna að framgangi þeirra mála á Alþingi. Má þar fyrst nefna áherslu ríkisstjórnarinnar á hagræðingu og hallalaus fjárlög. Getur ríkisstjórnin vænst fulls stuðnings Sjálfstæðisflokksins svo lengi sem markmiðinu verður ekki náð með auknum álögum á vinnandi fólk og fyrirtæki.
Uppbygging samgönguinnviða með áherslu á Sundabraut og jarðgöng er annað stórt mál sem mikilvægt er að koma af stað. Áherslur í þessa áttina er þegar að finna í samgönguáætlun frá árinu 2019 en því miður hafa þær ekki fengið nægilegan framgang.
Nýr tónn Samfylkingar í orkumálum er ekki síður fagnaðarefni. Það er nefnilega svo að rekja má virkjanastoppið til síðustu ríkisstjórnar Samfylkingar, árin 2009-2013. Sannast hið fornkveðna, batnandi mönnum er best að lifa. Téð kyrrstaða var svo rofin í tíð síðustu ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn styðja við vinnu ríkisstjórnar sem ætlar að halda áfram á þeirri vegferð sem mörkuð hefur verið.
Vona má að góðu málin verði enn fleiri. Sérstakt tilhlökkunarefni er að heyra lausnir Flokks fólksins í húsnæðismálum. Fyrir kosningar var flokkurinn sannfærður um að ein mikilvægasta lausn húsnæðisvandans væri aukið og fjölbreyttara lóðaframboð á höfuðborgarsvæðinu og lækkað lóðaverð. Undirritaður tekur heilshugar undir þau sjónarmið og vonar að þau verði á borði eins og í orði. Enn hefur þó ekkert heyrst frá nýjum húsnæðis- og félagsmálaráðherra.
Þá verður spennandi sjá tillögur ríkisstjórnarinnar í menntamálum. Flokkur fólksins hefur oftar en ekki talað í takt við áherslur Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum. Vonandi hefur Flokkur fólksins ekki þurft að semja þau kosningaloforð frá sér eins og önnur.
Óhætt er að segja að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hlakki til að hefja störf á Alþingi, styðja við ríkisstjórnina í mikilvægum málum og veita málefnalegt aðhald þar sem það á við.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. janúar 2025.