Gölluð kjörskrá?

20. janúar 2025

'}}

Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Það er kannski til að æra óstöðugan að gera at­huga­semd við um­sýslu kosn­inga hér á landi en allt bend­ir til þess að í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­un­um á næsta ári verði þúsund­ir ein­stak­linga rang­lega á kjör­skrá.

Snemma á síðasta ári leiðrétti Hag­stof­an töl­ur um hve marg­ir búa á Íslandi, sam­kvæmt frétt Hag­stof­unn­ar voru reikniaðferðir um mann­fjölda end­ur­bætt­ar og fækkaði við það íbú­um hér á landi um 15.245. En þessi leiðrétt­ing náði ekki til Þjóðskrár sem hélt áfram að telja vit­laust og tel­ur enn að þess­ir rúmu 15 þúsund manns, flest­ir er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar, búi hér á landi og lík­lega fleiri til, því vill­an áger­ist með hverj­um mánuði sem líður.

Það er baga­legt að stjórn­völd gefi tvær ólík­ar töl­ur um hve marg­ir búa á land­inu en það sem er verra er að Þjóðskrá, stofn­un­in sem tel­ur vit­laust, held­ur utan um hvernig er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar ávinna sér rétt­indi.

Of­metið fólk

Af þess­um ríf­lega 15 þúsund manns voru 4.125 Íslend­ing­ar í „of­mat­inu“, eins og Hag­stof­an kall­ar það, fólk sem hef­ur flutt af landi brott en ekki skráð sig brott­flutt, 11.143 voru er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar. Pól­verj­ar voru stærsti hóp­ur­inn, þá Rúm­en­ar, svo Litáar og Lett­ar. Það er áhuga­vert í skýr­ing­um Hag­stof­unn­ar að fjórðung­ur allra rúm­enskra rík­is­borg­ara sem eru skráðir með lög­heim­ili hér á landi býr ekki hér að mati Hag­stof­unn­ar. 36% allra Frakka sem eru skráðir hér búa hér ekki, að sama skapi eru 30% allra Þjóðverja og 27% Breta sem eru skráðir hér flog­in á bak og burt.

Það var líka um­hugs­un­ar­vert að 819 börn voru í hópi þeirra sem eru ekki bú­sett­ir hér en eru samt skráðir. Það að tæp­lega þúsund börn hafi verið skráð til heim­il­is á Íslandi en ekki mætt í skóla vek­ur furðu.

14 þúsund manns rang­lega á kjör­skrá?

En það voru 14.426 ein­stak­ling­ar 18 ára og eldri sem búa ekki á Íslandi að mati Hag­stof­unn­ar rang­lega skráðir sem íbú­ar á Íslandi. Þess­ir ein­stak­ling­ar eru inni í töl­um Þjóðskrár og verða því að öllu óbreyttu flest­ir á kjör­skrá á næsta ári.

Sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar voru of­metn­ir íbú­ar Reykja­vík­ur 18 ára og eldri 6.385. Það er að segja í fjölda, Hag­stof­an reyn­ir bless­un­ar­lega ekki að telja of­metið fólk, það er víðar en í Reykja­vík. En fjöldi þeirra sem búa ekki í Reykja­vík en voru mögu­lega á kjör­skrá árið 2022 er meiri en kusu Viðreisn, Flokk fólks­ins, Vinstri-græn og Sósí­al­ista hvert um sig í síðustu borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um. Lítið eitt færri en kusu Pírata, sem fengu þrjá borg­ar­full­trúa. Listi of­met­inna hefði fengið tvo til þrjá borg­ar­full­trúa.

Fram­lög úr Jöfn­un­ar­sjóði á röng­um for­send­um?

Hluti fram­laga úr Jöfn­un­ar­sjóði sveit­ar­fé­laga er á grund­velli íbúa­fjölda. Ein­ir þrett­án millj­arðar króna á þessu ári. Of­mat Þjóðskrár veld­ur mis­ræmi milli þess sem sveit­ar­fé­lag á að bera úr být­um og þess sem það fær. Þannig er íbúa­fjöldi Akra­ness of­met­inn um 1,8% en Fjarðabyggðar um 4,1%. Íbúa­fjöldi Reykja­nes­bæj­ar, sem fær ekki bein fram­lög vegna íbúa­fjölda, er of­met­inn um tæp 6% að mati Hag­stof­unn­ar. Hluti skýr­ing­ar á því að kosn­ingaþátt­taka í Reykja­nes­bæ í síðustu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um fór und­ir 50% hlýt­ur að liggja í því að tæp­lega 1.400 manns sem ekki búa í bæn­um búa þar að mati Þjóðskrár.

Leiðrétt­ing­ar er þörf

Við get­um ekki unað við það að þúsund­ir ein­stak­linga sem eiga ekki að hafa rétt á að kjósa í sveit­ar­fé­lagi hafi samt þann rétt. Þótt ekk­ert þeirra nýti kosn­inga­rétt­inn skekk­ir það töl­fræði um kosn­ing­arn­ar og það er ósann­gjarnt gagn­vart kjós­end­um sem sann­ar­lega hafa kosn­inga­rétt að fólk sem fyr­ir löngu er flutt úr sveit­ar­fé­lagi þeirra og af landi brott geti mögu­lega hlutast til um mál­efni sveit­ar­fé­lags­ins. Það get­ur ekki tal­ist lýðræðis­legt. Sam­kvæmt lög­um er það hlut­verk Þjóðskrár að ann­ast gerð ra­f­rænn­ar kjör­skrár og bera ábyrgð á ör­yggi henn­ar. Það hlýt­ur að vera for­gangs­mál að tryggja að rétt kjör­skrá verði gef­in út að rúmu ári og ör­yggi og rétt­mæti sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna verði tryggt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. janúar 2025.