Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður:
Öllum stjórnmálaflokkum er hollt að hugsa og meta hvaða erindi þeir eiga við samfélagið – og um leið hvernig þeir miðla erindi sínu. Þetta þýðir ekki að stefnan sé ekki til staðar, að viðkomandi flokkur hafi tæmt málefnaskrána eða farið af leið. Að hugsa og meta erindi krefst þess hins vegar að flokksfólk staldri öðru hvoru við og hugleiði með gagnrýnum hætti hvað megi gera betur. Mögulega kann niðurstaðan að vera sú að allt sé í góðum farvegi og rétt sé að halda áfram á sömu braut en lifandi stjórnmálaflokkur hræðist ekki skynsamlegar breytingar heldur hugsar hlutina upp á nýtt, tekur erfiðar ákvarðanir og hefur kjark til að hrinda þeim í framkvæmd.
Þetta þurfa fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum að gera reglulega og við sem einstaklingar endurskoðum margt í lífi okkar ekki síst um áramót. Það að staldra við og meta stöðuna felur ekkert annað í sér en einmitt það, að meta hvað megi betur fara. Slíkt er heilbrigt, eðlilegt og nauðsynlegt fyrir okkur flest og hið sama á við um stjórnmálaflokka.
Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn stendur á tímamótum, rétt eins og ég vék að í grein minni hér á þessum stað í síðustu viku. Þegar sitjandi formaður stjórnmálaflokks ákveður að láta gott heita eftir öfluga og farsæla forystu og sækjast ekki eftir endurkjöri kemur óneitanlega upp sú staða að við þurfum að meta á hvaða leið flokkurinn er, hvort erindi hans sé skýrt og hvernig við leggjum grunn að nýrri sókn til lengri tíma.
Í aðdraganda landsfundar sem haldinn verður í lok febrúar fer vonandi fram mikil og hreinskilin umræða um nýja sókn flokksins á grunni sjálfstæðisstefnunnar. Þannig nýtum við sameiginlega tækifæri til að skerpa á hugmyndafræðinni, skýra betur hvert erindið er og gera flokkinn að enn öflugri boðbera sjálfstæðisstefnunnar.
Það er ekkert launungarmál að það reyndist flokknum, og því sem hann stendur fyrir, erfitt að vera í síðasta ríkisstjórnarsamstarfi. Ungt fólk þarf að kynnast hugmyndum og stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf staðið fyrir og allt starf hans byggist á. Þeir sem eldri eru þurfa að heyra aftur með skýrum hætti það mikilvæga erindi sem Sjálfstæðisflokkurinn á við þjóðina.
Sjálfstæðisstefnan er í grunninn stefna um frjáls markaðshagkerfi, frelsi einstaklingsins og minna ríkisvald. Stefna sem gerir fólki kleift að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði og gerir fólki auðveldara að reka lítil og meðalstór fyrirtæki, stefna sem byggist á hugmyndum um jöfn tækifæri og leggur grunninn að öflugri velferð, stefna sem stendur fyrir fullveldi en ýtir undir alþjóðaviðskipti og samstarf, stefna sem tryggir innviði til að fólk og fyrirtæki geti upplifað öryggi.
Erindi Sjálfstæðisflokksins er að byggja upp öflugt samfélag með trú á einstaklinginn og frelsið. Verkefnið er að staldra við og meta hvernig við miðlum því erindi til þjóðarinnar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. janúar 2025.