Erindið þarf að vera skýrt
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður:

Öllum stjórn­mála­flokk­um er hollt að hugsa og meta hvaða er­indi þeir eiga við sam­fé­lagið – og um leið hvernig þeir miðla er­indi sínu. Þetta þýðir ekki að stefn­an sé ekki til staðar, að viðkom­andi flokk­ur hafi tæmt mál­efna­skrána eða farið af leið. Að hugsa og meta er­indi krefst þess hins veg­ar að flokks­fólk staldri öðru hvoru við og hug­leiði með gagn­rýn­um hætti hvað megi gera bet­ur. Mögu­lega kann niðurstaðan að vera sú að allt sé í góðum far­vegi og rétt sé að halda áfram á sömu braut en lif­andi stjórn­mála­flokk­ur hræðist ekki skyn­sam­leg­ar breyt­ing­ar held­ur hugs­ar hlut­ina upp á nýtt, tek­ur erfiðar ákv­arðanir og hef­ur kjark til að hrinda þeim í fram­kvæmd.

Þetta þurfa fyr­ir­tæki af öll­um stærðum og gerðum að gera reglu­lega og við sem ein­stak­ling­ar end­ur­skoðum margt í lífi okk­ar ekki síst um ára­mót. Það að staldra við og meta stöðuna fel­ur ekk­ert annað í sér en ein­mitt það, að meta hvað megi bet­ur fara. Slíkt er heil­brigt, eðli­legt og nauðsyn­legt fyr­ir okk­ur flest og hið sama á við um stjórn­mála­flokka.

Það er al­veg ljóst að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn stend­ur á tíma­mót­um, rétt eins og ég vék að í grein minni hér á þess­um stað í síðustu viku. Þegar sitj­andi formaður stjórn­mála­flokks ákveður að láta gott heita eft­ir öfl­uga og far­sæla for­ystu og sækj­ast ekki eft­ir end­ur­kjöri kem­ur óneit­an­lega upp sú staða að við þurf­um að meta á hvaða leið flokk­ur­inn er, hvort er­indi hans sé skýrt og hvernig við leggj­um grunn að nýrri sókn til lengri tíma.

Í aðdrag­anda lands­fund­ar sem hald­inn verður í lok fe­brú­ar fer von­andi fram mik­il og hrein­skil­in umræða um nýja sókn flokks­ins á grunni sjálf­stæðis­stefn­unn­ar. Þannig nýt­um við sam­eig­in­lega tæki­færi til að skerpa á hug­mynda­fræðinni, skýra bet­ur hvert er­indið er og gera flokk­inn að enn öfl­ugri boðbera sjálf­stæðis­stefn­unn­ar.

Það er ekk­ert laun­ung­ar­mál að það reynd­ist flokkn­um, og því sem hann stend­ur fyr­ir, erfitt að vera í síðasta rík­is­stjórn­ar­sam­starfi. Ungt fólk þarf að kynn­ast hug­mynd­um og stefnu sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur alltaf staðið fyr­ir og allt starf hans bygg­ist á. Þeir sem eldri eru þurfa að heyra aft­ur með skýr­um hætti það mik­il­væga er­indi sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn á við þjóðina.

Sjálf­stæðis­stefn­an er í grunn­inn stefna um frjáls markaðshag­kerfi, frelsi ein­stak­lings­ins og minna rík­is­vald. Stefna sem ger­ir fólki kleift að öðlast fjár­hags­legt sjálf­stæði og ger­ir fólki auðveld­ara að reka lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki, stefna sem bygg­ist á hug­mynd­um um jöfn tæki­færi og legg­ur grunn­inn að öfl­ugri vel­ferð, stefna sem stend­ur fyr­ir full­veldi en ýtir und­ir alþjóðaviðskipti og sam­starf, stefna sem trygg­ir innviði til að fólk og fyr­ir­tæki geti upp­lifað ör­yggi.

Er­indi Sjálf­stæðis­flokks­ins er að byggja upp öfl­ugt sam­fé­lag með trú á ein­stak­ling­inn og frelsið. Verk­efnið er að staldra við og meta hvernig við miðlum því er­indi til þjóðar­inn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. janúar 2025.