Stolnar fjaðrir nýs orkumálaráðherra

15. janúar 2025

'}}

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður:

Nýr orku­málaráðherra fer mik­inn fyrstu dag­ana í embætt­inu. Það er í sjálfu sér vel ef hann fylg­ir því eft­ir með verk­um. Það er sér­stak­lega ánægju­legt að hann virðist hafa yf­ir­gefið stefnu og verk (eða verk­leysi) Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í orku­mál­um. Ráðherr­ann kvart­ar und­an því að ramm­a­áætl­un hafi loks verið samþykkt á síðasta kjör­tíma­bili eft­ir níu ár. Já, það var fyrst eft­ir að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tók við ábyrgð á ramm­a­áætl­un sem hún var samþykkt á Alþingi, ásamt ein­föld­un­ar­frum­varpi sem ger­ir það að verk­um að nú er hægt að stækka virkj­an­ir án þess að fara í gegn­um ramm­a­ferlið.

Skýr skila­boð Sam­fylk­ing­ar um kyrr­stöðu í orku­mál­um

Sá ár­ang­ur sem við náðum á síðasta kjör­tíma­bili hef­ur leitt til þess að nú er verið að byggja bæði Hvamms­virkj­un og Búr­fells­lund. Stóru orku­fyr­ir­tæk­in eru að stækka virkj­an­ir á grunni laga­breyt­ing­anna. Kyrrstaðan er svo sann­ar­lega rof­in og það var ekki Sam­fylk­ing­in sem rauf hana. Reynd­ar greiddu nú­ver­andi stjórn­ar­flokk­ar ekki at­kvæði með ramm­a­áætl­un, þannig að ef þeir hefðu náð sínu fram þá ríkti kyrrstaðan enn.

Á síðasta kjör­tíma­bili voru skila­boðin frá meiri­hlut­an­um í Reykja­vík, und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, að það væri ekki rétt­læt­an­legt að virkja meira. Síðasta rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar gekk raun­ar þannig fram að hún breytti allri vinnu verk­efn­is­stjórn­ar um ramm­a­áætl­un og tók út álit­lega virkj­un­ar­kosti og þá sér­stak­lega vatns­afls­kosti og setti fjölda kosta í vernd. Einn þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Kristján Möller, lýsti þess­um vinnu­brögðum þannig að verið væri að að eyðileggja ramm­a­áætl­un. Við sjálf­stæðis­menn vor­um sam­mála hon­um og börðumst gegn þess­um skemmd­ar­verk­um Sam­fylk­ing­ar­inn­ar en allt kom fyr­ir ekki.

Hraðamet slegið á síðasta kjör­tíma­bili

Nú­ver­andi rík­is­stjórn er í þeirri öf­undsverðu stöðu sem við sköpuðum að stofn­an­ir á mál­efna­sviði um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­mála hafa verið sam­einaðar og ein­föld­un­ar­frum­vörp eru til­bú­in til fram­lagn­ing­ar. Fleiri frum­vörp, svo sem varðandi orku­ör­yggi, voru kom­in langt á veg í tíð fyrri rík­is­stjórn­ar og nýj­um ráðherra því ekk­ert að van­búnaði að halda áfram þeirri góðu vinnu sem unn­in var á síðasta kjör­tíma­bili í orku­mál­um. Þá liggja tvær ramm­a­áætlan­ir fyr­ir klár­ar til fram­lagn­ing­ar á Alþingi og ein verður tibú­in á næstu mánuðum.

Það kem­ur til af því að aldrei hef­ur verið unnið jafn hratt að þess­um mál­um eins og á síðasta kjör­tíma­bili. Margt fleira mætti telja upp. Það er hins veg­ar áhyggju­efni að ráðherr­ann seg­ist ekki ætla að leggja til­búna ramma fyr­ir þingið, held­ur ein­ung­is einn á hverju þingi. Af hverju legg­ur hann ekki fram þá vinnu sem nú þegar er til­bú­in fyr­ir þingið?

Staðreynd­in er sú að á síðasta kjör­tíma­bili var ára­löng kyrrstaða rof­in í orku­mál­um. Gríðarlega um­fangs­mik­il vinna átti sér stað varðandi ein­föld­un stofn­ana­skipu­lags og reglu­verks og grunn­ur var lagður að bjartri grænni framtíð í mála­flokkn­um.

Það er ekki stór­mann­legt af ráðherr­an­um að reyna að blekkja fólk með því að staðan og búið sem hann tek­ur nú við séu hans verk. Hver verður að fá að fljúga eins og hann er fiðraður, en verst er ef fjaðrirn­ar eru stoln­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. janúar 2025.