Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Fréttir úr borginni undanliðnar vikur hafa verið stöðug uppspretta válegra tíðinda. Sjaldan hafa hrannast upp jafnmargar birtingarmyndir þess að skipta þarf um meirihluta í borgarstjórn.
Vöruhúsið við Álfabakka
Fólk rak vitanlega upp stór augu þegar á ógnarhraða reis vöruhús við Álfabakka, sem skyggði á bæði útsýni og birtu íbúa í Árskógum. Þegar borgarráð veitti heimildir fyrir uppbyggingunni kom glöggt fram að um þjónustu- og verslunarlóð væri að ræða. Án fyrirvara reis hins vegar á lóðinni vöruhús sem hugsanlega ætti betur heima á athafnasvæði. Ekki síst í ljósi þess að starfseminni munu fylgja hávaðasamir vöruflutningar, að líkindum á öllum tímum sólarhrings, með tilheyrandi ama fyrir íbúa í Árskógum.
Framgangur uppbyggingarinnar í kjölfar lóðaúthlutunar var á engu stigi máls kynntur skipulagsráði eða borgarráði. Málið var unnið áfram á skrifstofu borgarstjóra í samstarfi við byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa. Ekki verður hins vegar séð að byggingaraðili hafi farið út fyrir heimildir við uppbygginguna, heldur hafi borgaryfirvöld veitt alltof rúmar skipulagsheimildir. Ábyrgð málsins liggur augljóslega hjá borginni og mun lausn þess óhjákvæmilega hafa verulegan kostnað í för með sér fyrir borgarsjóð. Málið allt er falleinkunn fyrir bæði stjórnsýslu borgarinnar og borgarstjóra.
Skólamálin í Laugardal
Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag var til afgreiðslu tillaga meirihlutans um skóla- og frístundastarf í Laugardal. Í upphafi kjörtímabils hafði borgarstjórn samþykkt í þverpólitískri sátt, í kjölfar umfangsmikils samráðs við íbúa, að fara þá leið sem samfélagið í Laugardal kallaði eftir – að byggja við fyrri skólabyggingar hverfisins og viðhalda þannig rótgrónum skólagerðum og skólahverfum. Marga rak því í rogastans þegar meirihlutinn ákvað skyndilega að fara þveröfuga leið og ráðast í uppbyggingu safnskóla á unglingastigi, á lóð sem samkvæmt samkomulagi tilheyrir íþróttafélaginu Þrótti. Vinnubrögðin í málinu hafa verið með ólíkindum og lagðist Sjálfstæðisflokkur vitanlega gegn tillögunni á fundi borgarstjórnar í vikunni.
Níu mánaða uppgjör
Rekstrarniðurstaða borgarsjóðs reyndist á fyrstu níu mánuðum ársins 6,6 milljörðum króna lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það rímar illa við fullyrðingar borgarstjóra um sögulegar hagræðingar í rekstri Reykjavíkur. Enn síður samræmist það fullyrðingum meirihlutans um fyrirhugaða jákvæða rekstrarniðurstöðu við árslok. Sú lausn sem meirihlutinn grípur til á síðustu þremur mánuðum ársins svo fegra megi hallareksturinn verður eignasala og sala byggingarréttar. Það er deginum ljósara að betur má ef duga skal – ráðast þarf í umfangsmikinn uppskurð á borgarkerfinu svo ná megi raunverulegum árangri í rekstri borgarinnar.
Bréf umboðsmanns Alþingis
Á dögunum bárust jafnframt fregnir af því að umboðsmaður Alþingis hefði það til skoðunar að hefja frumkvæðisathugun á aðgengi almennings að starfsmönnum og þjónustu borgarinnar. Forsögu málsins má rekja til kvörtunar einstaklings sem beið í tvö ár eftir aðgangi að umbeðnum gögnum og upplýsingum úr borgarkerfinu. Vakti athygli umboðsmanns hve illa honum sjálfum gekk að fá svör við eigin spurningum til borgarinnar, ekki síst vegna þess hve borgarkerfið er óaðgengilegt símleiðis. Við sem störfum á vettvangi borgarinnar þekkjum þennan vanda enda hefur kerfið unnið markvisst að því undanliðin ár að fjarlægja sig fólkinu í borginni.
Enginn árangur
Nú er kjörtímabilið ríflega hálfnað og lítið hefur meirihlutanum orðið ágengt. Svo virðist sem enginn sé á vaktinni – enginn sé heima.
Húsnæðisuppbygging er langt undir væntingum, samgönguvandinn vex árlega, grunnskólarnir standa illa í alþjóðlegum samanburði og einu framfarirnar í leikskóla- og daggæslumálum eiga sér stað á vettvangi einkaframtaksins. Það eina sem telja má meirihlutanum til tekna eru fallegar jólaskreytingar – en þær líða hjá.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. desember 2024.