Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Grafarholt og Úlfarsárdalur eru eftirsótt og ört vaxandi hverfi. Nýlega urðu þau tímamót að íbúar hverfisins urðu fleiri en tólf þúsund og útlit er að þeim fjölgi enn frekar á næstu árum. Hverfið er því ekki lengur lítið heldur er það komið í hóp hinna stóru og fjölmennu.
Grafarholt og Úlfarsárdalur búa yfir mörgum kostum og er því vel skiljanlegt að hverfið njóti mikilla vinsælda. Þar er greiður aðgangur að miklum náttúruperlum, gott skólastarf og íþróttastarfið mjög öflugt.
Að sumu leyti hafa íbúar hverfisins þó fengið að finna fyrir því að þeir séu afskiptir og jafnvel afgangsstærð þegar kemur að þjónustu Reykjavíkurborgar. Lengi vel gekk illa að fá borgina til að standa við gefin fyrirheit um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal. Enn hefur ekki risið knatthús í Úlfarsárdal, sem átti að vera tilbúið árið 2020 samkvæmt samningi Fram og Reykjavíkurborgar. Er nú fyrirhugað að húsið verði ekki tilbúið fyrr en árið 2029 eða um áratug síðar en samið var um.
Margvíslegum frágangi vegna verklegra framkvæmda er enn ábótavant í Úlfarsárdal og ganga seint, t.d. lagningu og frágangi göngustíga. Úrbætur á umferðarmannvirkjum eru sömuleiðis aðkallandi í hverfinu en þar virðist áhuginn einnig vera lítill hjá meirihluta borgarstjórnar.
Stórt hverfi án stórverslunar
Eitt helsta hagsmunamál íbúa í Grafarholti og Úlfarsárdal er að sköpuð verði betri skilyrði til að bæta verslun og aðra þjónustu í hverfinu. Íbúar hafa lengi óskað eftir því að þar rísi stórverslun með lágu vöruverði og miklu vöruúrvali.
Sjálfsagt er að Grafhyltingar og Úlfdælingar fái notið nútíma verslunarhátta og hafi aðgang að slíkri stórverslun eins og íbúar annarra stórra hverfa borgarinnar.
Lengi hefur verið horft til svonefnds Bauhaus-reits í þessu skyni enda er hann ein stærsta atvinnulóð borgarinnar. Samkvæmt skipulagi er heimilt að byggja 3-4 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði á lóðinni til viðbótar því sem þegar hefur verið byggt þar.
Eigendur Bauhaus hafa hug á því að nýta lóðina undir stórverslun en ekki fengið heimild til þess vegna stífra skipulagsskilmála. Heimilt er að reisa hvers konar verslanir á lóðinni, en þó ekki matvöruverslun.
Tillaga Sjálfstæðisflokksins
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til í apríl sl. að ráðist verði í breytingu á aðalskipulagi, sem heimili rekstur matvöruverslunar á Bauhaus-reit (M9c), sem er á skilgreindu miðsvæði við Lambhagaveg-Vesturlandsveg.
Eftir að afgreiðslu tillögunnar hafði verið frestað í sex mánuði var hún afgreidd á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í október. Tillagan hlaut tvö atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins en var felld með atkvæðum Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna. Fulltrúi Viðreisnar sat hjá.
Undirritaður tók málið upp á fundi borgarstjórnar og flutti tillöguna þar í von um betri málalyktir en fengust í umhverfis og skipulagsráði. Eftir að meirihluti borgarstjórnar hafði í krafti atkvæða ítrekað frestað því að tillagan yrði tekin fyrir, hlaut hún loks afgreiðslu á fundi borgarstjórnar 17. desember 2024. Sem fyrr vildi vinstri meirihlutinn ekki samþykkja tillöguna en lagði hins vegar til að henni yrði vísað aftur til umhverfis- og skipulagsráðs til umfjöllunar og afgreiðslu.
Endurskoðun eða svæfing?
Nú kann það að hljóma sem hringavitleysa að borgarstjórn vísi skipulagstillögu aftur til fagráðs, sem hefur þegar fellt umrædda tillögu. Í umræðum um málið í borgarstjórn kom hins vegar fram hjá borgarfulltrúum Framsóknarflokksins og Viðreisnar að þeir væru reiðubúnir að stuðla að endurskoðun málsins í von um farsæla lausn. Féllumst við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á þá málsmeðferð í trausti þess að um raunverulega endurskoðun verði að ræða en ekki tilraun til að svæfa málið.
Auðvitað er óviðunandi að slík þjóðþrifamál hrakhraufist um borgarkerfið mánuðum og jafnvel árum saman án skýrrar niðurstöðu. Borgarstjórn á ekki að flækjast fyrir borgarbúum heldur stuðla að því að líf þeirra sé sem best og einfaldast. Til þess þarf m.a. að skapa sem best skilyrði fyrir öflugri verslun og þjónustu í öllum hverfum Reykjavíkur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu fylgja tillögu sinni fast eftir á nýju ári og knýja á um farsæla lausn málsins sem fyrst.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2024.