Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Nýsamþykkt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 sýnir að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar hefur ekki tök á fjármálum borgarinnar. Reksturinn er ósjálfbær og skuldavandinn mikill. Samt ætlar vinstri meirihlutinn að halda áfram að safna skuldum. Er áætlað að skuldir samstæðu borgarinnar muni hækka um 31 milljarð króna á næsta ári og að þær verði orðnar um 558 milljarðar í árslok 2025.
Ljóst er að grípa þarf til alvöru aðgerða í því skyni að stemma stigu við ósjálfbærum rekstri Reykjavíkurborgar og stöðva skuldasöfnun. Til þess þarf að endurskoða allan rekstur hennar og ráðast í víðtækan sparnað og hagræðingu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram sautján breytingartillögur við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025. Allar eru þær til þess fallnar að bæta fjárhagsstöðu borgarinnar með einum eða öðrum hætti. Ef þær næðu fram að ganga myndu þær skila mörgum milljörðum króna samanlagt, annað hvort með sparnaði eða tekjuauka. Skal nú tæpt á efni þessara tillagna.
Tillögur Sjálfstæðisflokksins
- Allsherjar stjórnkerfisúttekt verði gerð á borgarkerfinu og tækifæra leitað til að ná fram verulegri hagræðingu í rekstri.
- Ráðningarbann verði sett á í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar út árið 2025. Yfirbygging er of mikil hjá borginni.
- Hagrætt verði í stjórnkerfinu með því að færa mannréttindaskrifstofu undir velferðarsvið og sameina mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð velferðarráði.
- Hagrætt verði á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og í annarri stjórnsýslu borgarinnar þar sem þensla og fjölgun starfsmanna hefur verið mest undanfarin ár. M.a. verði hagrætt í fundahöldum, auglýsingamálum, markaðsmálum, skýrsluskrifum, viðburðahaldi og risnu. Upplýsingafulltrúum verði fækkað.
- Skorað verði á Alþingi að borgarstjórn fái að nýju sjálfdæmi um fjölda borgarfulltrúa svo hægt sé að fækka þeim. Fækkun borgarfulltrúa myndi stuðla að margvíslegum sparnaði í borgarkerfinu og auka skilvirkni þess.
- Spara má háar fjárhæðir í rekstri þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar. Lagt er til að fjárfesting í áhöldum, tækjum og hugbúnaði verði lækkuð úr 1.600 milljónum króna í 1.000 milljónir.
- Mikil áhersla er lögð á nýframkvæmdir í miðborginni á meðan viðhald er víða vanrækt, ekki síst í eystri hverfum borgarinnar. Hægt væri að spara 550 milljónir króna með því að fresta framkvæmdum við nýjar göngugötur í Kvosinni og við Hlemmsvæðið að hluta.
- Stóraukin áhersla verði lögð á úthlutun lóða fyrir fjölbreytilegar gerðir íbúðarhúsnæðis, sem myndi skila borgarsjóði auknum tekjum. Í fyrstu yrði einkum horft til Úlfarsárdals, Örfiriseyjar, Kjalarness og Staðahverfis í þessu sambandi.
- Atvinnulóðum fyrir fjölbreytilega atvinnustarfsemi verði fjölgað í því skyni að auka tekjur borgarsjóðs og stöðva flótta fyrirtækja úr Reykjavík.
- Ljósleiðari Orkuveitunnar verði seldur og söluandvirðið notað til að lækka skuldir borgarinnar, sem og til innviðafjárfestinga.
- Undirbúningur verði hafinn að sölu Malbikunarstöðvarinnar Höfða, sem er í samkeppnisrekstri.
- Bílastæðahús í eigu Reykjavíkurborgar verði seld en tryggt að þar verði áfram rekin bílastæðaþjónusta.
- Sorphirða í Reykjavík verði boðin út í áföngum eins og gefið hefur góða raun í öllum nágrannasveitarfélögunum.
Óráðsíða og skuldasöfnun
Fjárhagsáætlunin var samþykkt í borgarstjórn 3. desember sl. og voru þá ofannefndar tillögur lagðar fram. Skemmst er frá því að segja að meirihlutinn samþykkti enga af þessum tillögum: felldi fjórtán á staðnum en vísaði þremur til skoðunar og sennilega svæfingar í rangölum borgarkerfisins.
Ólíklegt er að vinstri meirihlutanum takist að koma fjármálum borgarinnar í lag á yfirstandandi kjörtímabili enda styttist það óðum. Ljóst er að mikið verk bíður næstu borgarstjórnar við að koma fjárhagnum á réttan kjöl eftir langt tímabil óráðsíu og skuldasöfnunar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. desember 2024.