12% árangur í leikskólamálum
'}}

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Í októ­ber ritaði ung­ur lækn­ir áhuga­verða grein í Lækna­blaðið. Höf­und­ur fjallaði um þrönga stöðu á Land­spít­ala og sagði leik­skóla­vand­ann leiða af sér mönn­un­ar­vanda á spít­al­an­um. Ung­ir lækn­ar sem í aukn­um mæli ljúka sér­námi hér­lend­is vakni nú upp við vond­an draum.

„Mar­tröðin er leik­skóla­vandi höfuðborg­ar­svæðis­ins, og þá sér­stak­lega Reykja­vík­ur­borg­ar. Sé tekið mið af meðal­aldri barna við inn­göngu á leik­skóla í Reykja­vík þurfa for­eldr­ar að bíða í að minnsta kosti tíu mánuði eft­ir plássi í kjöl­far fæðing­ar­or­lofs. Þann tíma velst annað for­eldrið til þess að vera heima og gæta barns síns, án tekna og með til­heyr­andi hléi á ferli sín­um,“ sagði í grein­inni.

Höf­und­ur sagðist horfa á koll­ega halda fyrr út í sér­nám af þess­um sök­um, aðra minnka starfs­hlut­fall eða jafn­vel taka launa­laust leyfi svo sinna megi börn­um sem ekki hafi fengið leik­skóla­pláss. Höf­und­ur fann sig knúna til að flytja með tvö ung börn í Borg­ar­nes, því þar fékk hún leik­skóla­pláss fyr­ir börn­in og gat áfram starfað sem lækn­ir.

Leik­skóla­vand­inn á sér marg­ar birt­ing­ar­mynd­ir. Síðastliðinn ára­tug var reglu­bundnu viðhaldi skóla­hús­næðis illa sinnt. Af­leiðing­in birt­ist í þeim 370 rým­um sem nú eru ónot­hæf í Reykja­vík vegna viðhalds, myglu og raka.

Á degi hverj­um er leik­skóla­deild­um jafn­framt lokað vegna mönn­un­ar­vanda. Ef skoðað er viku­langt tíma­bil í lok nóv­em­ber reynd­ust lok­un­ar­dag­ar á leik­skól­um borg­ar­inn­ar 27,5 sam­tals. Yfir þetta tíma­bil var 736 börn­um gert að vera frá leik­skóla einn dag í viku vegna mönn­un­ar­vanda. Til sam­an­b­urðar hef­ur Kópa­vogs­bær ekki gripið til neinna lok­un­ar­daga í haust.

Illa hef­ur gengið að fjölga leik­skóla­rým­um á kjör­tíma­bil­inu en árið 2023 fjölgaði rým­um um aðeins 60 þegar áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir 252. Árið 2024 fjölgaði rým­um um 50 þegar áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir 650. Meiri­hlut­an­um hef­ur því aðeins tek­ist að ná 12% af mark­miðum sín­um í leik­skóla­mál­um borg­ar­inn­ar.

And­vara­leysið í mála­flokkn­um hef­ur leitt til þess að síðastliðinn ára­tug hef­ur leik­skóla- og dag­gæslu­rým­um í Reykja­vík fækkað um hátt í þúsund. Yfir sama tíma­bil hef­ur börn­um á leik­skóla­aldri fækkað um tæp 10% í borg­inni. Fjöl­skyld­ur kjósa með fót­un­um og flytj­ast til sveit­ar­fé­laga þar sem þjón­usta við fjöl­skyld­ur reyn­ist betri.

Leik­skóla­vand­inn verður aðeins leyst­ur með fjöl­breytt­um leiðum. Á dög­un­um bár­ust þau já­kvæðu tíðindi að Ari­on banki hygðist opna dag­gæslu fyr­ir börn starfs­manna. Und­ir­rituð hef­ur talað fyr­ir slík­um lausn­um um ára­bil og bind­ur von­ir við fleiri úrræði af sama toga. Skyn­sam­legt næsta skref væri leik­skóli á veg­um Land­spít­ala – en það ger­ist ekki án stuðnings og sveigj­an­leika borg­ar­yf­ir­valda. Lausn­irn­ar eru allt um kring ef við aðeins höf­um víðsýni til að leita þeirra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. desember 2024.