Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Í október ritaði ungur læknir áhugaverða grein í Læknablaðið. Höfundur fjallaði um þrönga stöðu á Landspítala og sagði leikskólavandann leiða af sér mönnunarvanda á spítalanum. Ungir læknar sem í auknum mæli ljúka sérnámi hérlendis vakni nú upp við vondan draum.
„Martröðin er leikskólavandi höfuðborgarsvæðisins, og þá sérstaklega Reykjavíkurborgar. Sé tekið mið af meðalaldri barna við inngöngu á leikskóla í Reykjavík þurfa foreldrar að bíða í að minnsta kosti tíu mánuði eftir plássi í kjölfar fæðingarorlofs. Þann tíma velst annað foreldrið til þess að vera heima og gæta barns síns, án tekna og með tilheyrandi hléi á ferli sínum,“ sagði í greininni.
Höfundur sagðist horfa á kollega halda fyrr út í sérnám af þessum sökum, aðra minnka starfshlutfall eða jafnvel taka launalaust leyfi svo sinna megi börnum sem ekki hafi fengið leikskólapláss. Höfundur fann sig knúna til að flytja með tvö ung börn í Borgarnes, því þar fékk hún leikskólapláss fyrir börnin og gat áfram starfað sem læknir.
Leikskólavandinn á sér margar birtingarmyndir. Síðastliðinn áratug var reglubundnu viðhaldi skólahúsnæðis illa sinnt. Afleiðingin birtist í þeim 370 rýmum sem nú eru ónothæf í Reykjavík vegna viðhalds, myglu og raka.
Á degi hverjum er leikskóladeildum jafnframt lokað vegna mönnunarvanda. Ef skoðað er vikulangt tímabil í lok nóvember reyndust lokunardagar á leikskólum borgarinnar 27,5 samtals. Yfir þetta tímabil var 736 börnum gert að vera frá leikskóla einn dag í viku vegna mönnunarvanda. Til samanburðar hefur Kópavogsbær ekki gripið til neinna lokunardaga í haust.
Illa hefur gengið að fjölga leikskólarýmum á kjörtímabilinu en árið 2023 fjölgaði rýmum um aðeins 60 þegar áætlanir gerðu ráð fyrir 252. Árið 2024 fjölgaði rýmum um 50 þegar áætlanir gerðu ráð fyrir 650. Meirihlutanum hefur því aðeins tekist að ná 12% af markmiðum sínum í leikskólamálum borgarinnar.
Andvaraleysið í málaflokknum hefur leitt til þess að síðastliðinn áratug hefur leikskóla- og daggæslurýmum í Reykjavík fækkað um hátt í þúsund. Yfir sama tímabil hefur börnum á leikskólaaldri fækkað um tæp 10% í borginni. Fjölskyldur kjósa með fótunum og flytjast til sveitarfélaga þar sem þjónusta við fjölskyldur reynist betri.
Leikskólavandinn verður aðeins leystur með fjölbreyttum leiðum. Á dögunum bárust þau jákvæðu tíðindi að Arion banki hygðist opna daggæslu fyrir börn starfsmanna. Undirrituð hefur talað fyrir slíkum lausnum um árabil og bindur vonir við fleiri úrræði af sama toga. Skynsamlegt næsta skref væri leikskóli á vegum Landspítala – en það gerist ekki án stuðnings og sveigjanleika borgaryfirvalda. Lausnirnar eru allt um kring ef við aðeins höfum víðsýni til að leita þeirra.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. desember 2024.