Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Eðlilegt er að margir velti fyrir sér stöðu og framtíð Sjálfstæðisflokksins eftir kosningarnar um liðna helgi. Flokkurinn missti rúmlega fimmtung fylgis síns miðað við síðustu alþingiskosningar og hlaut minnsta fylgi í sögu sinni eða 19,4%.
Það væri sjálfsblekking að láta eins og um kosningasigur væri að ræða. Hitt er svo annað mál að úrslitin eru mun skárri en skoðanakannanir gáfu til kynna stærstan hluta baráttunnar. Lengi mældist Sjálfstæðisflokkurinn með afar lítið fylgi og leit út fyrir að hann myndi bíða afhroð í kosningunum. Á tímabili stóð til að kjósa viku fyrr en raunin varð eða 23. nóvember. Þann dag birtust þrjár skoðanakannanir, sem sýndu að flokkurinn hefði 14% fylgi að meðaltali.
Á lokasprettinum tókst Sjálfstæðisflokknum hins vegar að snúa vörn í sókn og auka fylgi sitt svo um munaði. Þann árangur má þakka hundruðum sjálfboðaliða, sem brugðust við á ögurstundu og lögðust á eitt við að afla flokknum atkvæða með því að hafa beint samband við þúsundir kjósenda um allt land. Gaman var að fylgjast með dugnaði og vinnugleði þessara sjálfboðaliða og verður framlag þeirra seint fullþakkað.
Þrálátt fylgistap
Þetta eru þriðju alþingiskosningarnar í röð þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi. Slíkt fylgistap kosningar eftir kosningar er óviðunandi og hlýtur að kalla á allsherjar naflaskoðun innan flokksins. Leita þarf allra leiða til að snúa þessari óheillaþróun við og auka fylgið á ný.
Rétt er að leiðir til úrbóta séu ræddar af hreinskilni og hispursleysi. Endurskoða þarf innra starf flokksins og meta hvort nægilega vel sé staðið að kosningabaráttu hans sem og starfinu á milli kosninga. Stórefla þarf kynningarstarfið. Þá er ljóst að auka þarf samstarf og samvirkni milli skipulagsheilda innan flokksins, t.d. þingflokks, sveitarstjórnarmanna, sjálfstæðisfélaganna og starfsliðs Valhallar. Allar þessar einingar eru mikilvægar og með nánara samstarfi þeirra á milli væri vafalaust hægt að ná meiri árangri.
Sjálfstæðisstefnan nýtur stuðnings sem fyrr
Í fjölmörgum samtölum við kjósendur kom fram að þeir hefðu alls ekki horfið frá stuðningi við grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefði hins vegar ekki fylgt henni nægilega vel og því þyrfti að veita honum ráðningu. Nokkur mál voru oftar nefnd en önnur í því samhengi, t.d. skattamál, stuðningur við hugmyndir um borgarlínuskatt og forystumál flokksins.
Niðurstöður kosninganna fela ekki í sér ákall kjósenda um skattahækkanir og aukin ríkisafskipti. Kjósendur höfnuðu þremur flokkum, lengst á vinstri kanti stjórnmálanna en Miðflokkur og Viðreisn, sem haldið hafa borgaralegum stefnumálum á lofti, juku fylgi sitt.
Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að flokkum á þingi hafi fækkað úr átta í sex. Kraðak smáflokka stuðlar ekki að stöðugleika í stjórnmálum eins og reynsla margra þjóða sýnir. Við slíkar aðstæður er erfiðara en ella að mynda trausta ríkisstjórn, sem hefur styrk til að takast á við erfið viðfangsefni og tryggja um leið stöðugleika í stjórnmálum og efnahagsmálum.
Mikilvæg verkefni framundan
Mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að stuðla að áframhaldandi lækkun verðbólgunnar. Góður árangur hefur náðst í baráttunni við verðbólgudrauginn að undanförnu og vonandi heldur ný ríkisstjórn áfram á þeirri braut. Verðbólgan mældist 8% fyrir ári, 6,4% í júlí sl. og 4,8% í nóvember. Greiningardeild Landsbankans spáir 4,6% ársverðbólgu í desember og að hún verði komin í 4% í febrúar.
Nú er unnið að myndun þriggja flokka vinstri stjórnar og miklar líkur eru á því að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu næstu árin. Hver svo sem niðurstaðan verður þarf Sjálfstæðisflokkurinn að stórefla starf sitt og skipulag svo hann öðlist möguleika á að verða að nýju sá fjöldaflokkur, sem hann var á síðustu öld. Ljóst er að stefnumál flokksins eiga fullt erindi við þjóðina sem fyrr.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. desember 2024.