Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra:
Í dag göngum við til kosninga sem eru þær mikilvægustu í langan tíma. Það eru tvær leiðir í boði, vinstri stjórn eða sterkur Sjálfstæðisflokkur. Hér eru fimm ástæður til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn:
1. Lægri vextir og skattar. Við ætlum að halda áfram á réttri leið. Verðbólga er í frjálsu falli, vextir eru að lækka og munu gera það áfram ef við stefnum árangrinum ekki í hættu. Á nýju kjörtímabili ætlum við áfram að lækka skatta og létta byrðar allra kynslóða.
2. Traust landamæri og öruggt Ísland. Við gerðum grundvallarbreytingar á útlendingalögum í vor sem hafa snúið stöðunni á landamærunum til hins betra. Halda þarf áfram að treysta landamærin og gera kerfið skilvirkara. Við ætlum að fjölga um 200 í lögreglunni og efla löggæslu um land allt. Um þetta verða engar málamiðlanir gerðar.
3. Eign fyrir alla. Langflestir vilja eignast eigið húsnæði, við eigum ekki að þrýsta fólki að óþörfu inn í ríkisvæddar leiguíbúðir. Lækkum þröskuldinn inn á íbúðamarkað með afnámi stimpilgjalda og framlengdri og rýmkaðri séreignarleið. Einföldum regluverk og gerum skýra kröfu um að höfuðborgin útdeili lóðum í sama mæli og hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa gert með sóma.
4. Frjálst og fullvalda Ísland. Regluverk og stofnanafargan Evrópusambandsins er ekki svarið við áskorunum Íslands. Hér er atvinna meiri, laun hærri og tækifærin fleiri. Leitum ekki langt yfir skammt, trúum á kraftinn í okkur sjálfum. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti inngöngu í ESB og mun ekki fela afstöðu sína bak við óræðar yfirlýsingar um skoðanakannanir og atkvæðagreiðslur.
5. Spennandi framtíð fyrir komandi kynslóðir. Sjálfstæðisflokkurinn trúir á öflugt atvinnulíf og frelsi fólks til að skapa sér framtíð á sínum forsendum. Fögnum því þegar fólk nær árangri í rekstri, frekar en að líta ávallt á það sem „vannýtta skattstofna“. Með öflugum stuðningi við rannsókna- og þróunarstarf undanfarin ár hefur grunnur atvinnustarfseminnar breikkað. Frumkvöðlastarfsemi blómstrar. Ný fyrirtæki spretta upp í hugverkadrifnum iðnaði og spennandi tækifærum fjölgar til muna. Höldum áfram á réttri leið, þá mun ungu fólki áfram þykja spennandi að freista hér gæfunnar og stofna fjölskyldu.
Fái ég ykkar stuðning í dag mun ég leggja alla mína krafta í að skapa okkur enn betri framtíð á frjálsu, fullvalda og öruggu Íslandi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2024.