Brynjar Níelsson skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður:
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu árum tekið skýra forystu í málefnum eldri borgara með aðgerðum sem hafa bætt lífskjör þeirra og aukið fjárhagslegt öryggi. Sjálfstæðisflokkurinn vill þó ganga enn lengra í að tryggja að eldri borgarar njóti þess sem þeir hafa unnið fyrir, með skattalækkunum, auknum frítekjumörkum og kerfisumbótum sem miða að því að bæta hag þeirra sem verst standa.
Framfarir í þjónustu og lægri skattar
Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt mikilvægu átaki í uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustu við eldra fólk. Fjöldi hjúkrunarrýma hefur aukist um 881 frá 2017, þar af 622 ný rými, og aðstaða í 259 eldri rýmum hefur verið stórbætt. Með því að aðskilja byggingu og rekstur húsnæðis frá þjónustunni sjálfri hefur verið tryggt að eldri borgarar fái þjónustu sem byggir á faglegum forsendum, sem flýtt hefur fyrir uppbyggingu og aukið rekstrarhagkvæmni.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett fram skýrar áherslur um að auka ráðstöfunartekjur eldri borgara með því að lækka skatta og rýmka frítekjumörk:
Sjálfstæðisflokkurinn vill að frítekjumark atvinnutekna hækki í 350 þúsund krónur á mánuði. Þetta eykur frelsi eldri borgara til að afla tekna án þess að lenda í tekjuskerðingum frá almannatryggingum. Þá vill flokkurinn hækka frítekjumark fjármagnstekna í 500 þúsund krónur og gefa eldri borgurum tækifæri til að njóta ávöxtunar á sparnaði sínum án þess að greiða skatt af verðbólgu. Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema helming erfðafjárskatts og fjórfalda frítekjumarkið í 20 milljónir króna, sem gerir fjölskyldum kleift að varðveita fjármuni fyrir komandi kynslóðir.
Þessar breytingar tryggja að fjárhagslegt öryggi eldri borgara verði aukið verulega.
Róttækar umbætur á lífeyriskerfinu
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið leiðandi í umbótum á almannatryggingakerfinu. Frá 2017 hefur grunnlífeyrir hækkað um rúmlega 45%, og sérstakt frítekjumark atvinnutekna var tekið upp árið 2018. Þrátt fyrir þessar framfarir er ljóst að betur má gera. Grunnlífeyrir almannatrygginga stendur í dag í um 330 þúsund krónum á mánuði, á meðan lágmarkslaun Starfsgreinasambandsins eru 425 þúsund krónur. Flokkurinn mun beita sér fyrir því að brú á milli þessara fjárhæða verði brúuð. Að sama skapi leggur flokkurinn áherslu á að afnema þær 45% skerðingar sem nú eiga sér stað fyrir hverja krónu sem aflað er umfram grunnlífeyri.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur innleitt stefnumótandi áætlunina „Gott að eldast“, sem tryggir að þjónusta við eldri borgara verði veitt á réttum tíma, á réttum stað og á forsendum þeirra sjálfra. Áhersla er lögð á að samþætta heimaþjónustu sveitarfélaga og heilbrigðisþjónustu, þannig að enginn falli milli kerfa.
Skýr valkostur fyrir öruggt ævikvöld
Sjálfstæðisflokkurinn stendur með eldri borgurum og boðar aðgerðir sem miða að bættum lífskjörum þeirra. Þetta er skýr andstæða við vinstriflokkana, sem leggja áherslu á skattahækkanir og aukin útgjöld.
Til að breytingarnar komist í gegn þarf Sjálfstæðisflokkurinn að fá sterka kosningu í komandi kosningum. Með áframhaldandi forystu flokksins verður tryggt að eldri borgarar njóti þeirrar virðingar, frelsis og réttinda sem þeir eiga skilið.
Valið er einfalt: Auka frelsi og kjör eldri borgara – eða láta skattahækkanir tefja framfarirnar. Sjálfstæðisflokkurinn stendur með eldri borgurum.
Greinin birtist á visir.is 29. nóvember 2024.