Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður:
Það er stundum sagt að ef maður sækir ekki fram sé maður í raun að færast aftur á bak. Valið sem við stöndum frammi fyrir þegar við göngum til kosninga á morgun er framfarir og framsækni eða afturför.
Fráfarandi ríkisstjórn gerði margt vel samhliða því að takast á við heimsfaraldur og áhrif af stríði og eldsumbrotum. Það var þó ljóst að erindi hennar var lokið og tími til kominn að taka mikilvægar hugmyndafræðilegar ákvarðanir fyrir framtíðina. Við í Sjálfstæðisflokknum komumst að þeirri niðurstöðu að eina leiðin fyrir okkur til að taka þátt í ríkisstjórn væri ef kjósendur gæfu okkur endurnýjað umboð til að taka þátt í stjórn með öðrum borgaralegum flokkum.
Við blasir að mynduð verður allt öðruvísi ríkisstjórn og tvennt er í boði.
Annar kosturinn er Reykjavíkurstjórn Samfylkingar og Viðreisnar með Pírata eða Framsóknarflokk sem þriðja og fjórða „aukaleikarann“. Þrátt fyrir að aðalleikararnir fari leynt með stefnu sína þá hafa þau misst út úr sér síðustu daga hvert raunverulega Planið er: Aðild að Evrópusambandinu með vaxandi atvinnuleysi og minni hagvexti. Stóraukin ríkisútgjöld og útblásið bákn. Atlaga að einyrkjum og sjálfstæðum atvinnurekendum. Hækkun skatta á vinnandi fólk og sögulegar skattahækkanir á ferðaþjónustu og sjávarútveg.
Ekkert sem kemur á óvart. Við höfum séð hvernig þessir flokkar stýra Reykjavík. Dæmin eru fleiri. Breski verkamannaflokkurinn, systurflokkur Samfylkingarinnar, fékk glæsilega kosningu fyrr í haust en um leið og flokkurinn tók við kynnti hann gríðarlegar skattahækkanir sem Englandsbanki segir nú að muni hægja á vaxtalækkunarferlinu. Þegar hulunni var svipt af falsboðum Verkamannaflokksins hrundu vinsældir ríkisstjórnarinnar en eftir sitja kjósendur með sárt ennið og tómt veskið.
Valið er skýrt og stendur um stjórn þar sem hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins nýtur sín eða ekki. Með Sjálfstæðisflokknum kjósum við framfarir, öflugt atvinnulíf sem leggur grunn að þeirri hagsæld sem við viljum búa við og styður við velferðarkerfið okkar, þannig lækka skattar svo að fólk og fyrirtæki fái að njóta árangurs af erfiði sínu, þannig byggjum við undir nýsköpun og fjölgun starfa og sækjum fram. Hinn kosturinn er að festast í hjólförum skattahækkana og íþyngjandi regluverks í boði vinstriflokkanna.
Einhverjum kann að finnast freistandi að gefa Sjálfstæðisflokknum frí næstu fjögur árin en hættan er sú að snúið verði að vinda ofan af þeim skaða sem Reykjavíkurstjórn getur unnið landi og þjóð á næsta kjörtímabili.
Ég er tilbúin fyrir ríkisstjórn á hægri væng stjórnmálanna. Ég er líka tilbúin til að lofa því að samhliða þátttöku í ríkisstjórn getum við byggt upp enn öflugri Sjálfstæðisflokk sem er að fara í gegnum heilbrigða nýliðun um allt land.
Kjósum meiri árangur fyrir okkur öll.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2024.