Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi:
Á morgun veljum við framtíðina. Við veljum ekki aðeins ríkisstjórn næstu fjögurra ára, heldur þau gildi og þá stefnu sem munu móta samfélagið okkar til lengri tíma. Valkostir kjósenda eru skýrir: Annaðhvort fjölflokka vinstristjórn með augastað á Evrópusambandinu með tilheyrandi skattahækkunum og óvissu, eða Sjálfstæðisflokkinn sem stendur fyrir frelsi einstaklingsins, stöðugleika og öflugt atvinnulíf. Það er sú leið sem hefur skilað hvað mestum lífsgæðum í sögu þjóðarinnar.
Stefna sem skilar árangri
Undanfarin ár höfum við í Sjálfstæðisflokknum lagt grunn að öflugu samfélagi með ábyrgri efnahagsstefnu og traustri forystu. Þrátt fyrir miklar áskoranir hefur kaupmáttur aukist, skattar verið lækkaðir og atvinnuleysi haldist í lágmarki. Þetta eru ekki bara tölur á blaði – þetta eru lífsgæði sem fólk finnur fyrir.
Það skiptir máli hverjir fara með stjórn landsins. Við höfum sýnt að það er hægt að sýna aðhald í ríkisrekstri á sama tíma og við byggjum upp innviði og bætta þjónustu. Við höfum skapað skilyrði fyrir nýsköpun, fjárfestingu í atvinnulífi og grænni orku ásamt því að standa vörð um landamæri Íslands. Með áframhaldandi ábyrgri stjórn getum við haldið þessari vegferð áfram og tryggt að Ísland verði áfram í fremstu röð meðal þjóða.
Framtíðin er björt
Við horfum fram á veginn með bjartsýni. Við viljum gera gott samfélag enn betra með því að:
Halda áfram að lækka skatta og auðvelda fólki að láta enda ná saman.
Efla atvinnulífið með því að tryggja stöðugt rekstrarumhverfi þar sem fyrirtæki geta vaxið, skapað fleiri störf og borgað hærri laun.
Byggja upp heilbrigðiskerfið okkar með fjölbreyttu rekstrarformi og með áherslu á gæði og skilvirkni.
Tryggja stöðu Íslands sem leiðandi í grænni orku með því að nýta auðlindir okkar skynsamlega og skapa framtíðarmöguleika fyrir komandi kynslóðir.
Standa vörð um íslensk landamæri með skýrum aðgerðum og hertu regluverki sem tryggir öruggt, skilvirkt og mannúðlegt eftirlit.
Vinstristjórn eða frelsi einstaklingsins?
Vinstristjórn mun gera það sem vinstristjórnir hafa alltaf gert. Hún mun auka ríkisumsvif, hækka álögur og skuldsetja komandi kynslóðir með óábyrgu loforðaflóði. Það höfum við nú þegar séð í kosningabaráttunni. Þetta er stefna sem setur þungar byrðar, ekki bara á hin svokölluðu breiðu bök, heldur á venjulegar fjölskyldur og fyrirtæki. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn lítur á fólk og fyrirtæki sem drifkraft samfélagsins virðast vinstriflokkarnir trúa því að lausnirnar finnist í hærri sköttum og meiri ríkisafskiptum.
Tækifærið er ykkar
Á morgun stendur valið á milli áframhaldandi sóknar í átt að meiri lífsgæðum eða óvissu og auknar álögur. Valið stendur á milli frelsis eða afskipta. Vaxtar eða stöðnunar.
Sjálfstæðisflokkurinn er flokkurinn sem stendur með fólkinu í landinu. Við höfum sýnt að við getum tekið á vandamálum og breytt þeim í tækifæri. Með skýrri framtíðarsýn erum við tilbúin að leiða Ísland inn í enn betri tíma.
Kæru kjósendur, valið er ykkar. Með ykkar stuðningi tryggjum við Ísland þar sem einstaklingurinn nýtur frelsis og tækifærin eru óþrjótandi. Kjósum meiri árangur fyrir okkur öll. Kjósum Sjálfstæðisflokkinn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2024.