Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:
Samkvæmt skoðanakönnunum er mikil hætta á því að vinstristjórn verði mynduð að loknum alþingiskosningum á laugardag. Kjósendur mættu velta því fyrir sér hvaða reynslu þjóðin hefur af fyrri vinstristjórnum. Hvaða afleiðingar mun það hafa ef slík stjórn verður mynduð á ný?
Meiri eða minni ríkisafskipti?
Stundum heyrist að hægri og vinstri séu úrelt hugtök í pólitík og komi ekki lengur að gagni við að skilgreina stjórnmálaflokka. Hér skal ekki dæmt um það en til er annar mælikvarði, sem vel má styðjast við. Hann er sá hvort viðkomandi flokkur vilji auka ríkisafskipti eða draga úr þeim.
Ríkisafskipti eru mikil hérlendis og talið er að Íslendingar axli nú næsthæstu skattbyrðina innan OECD. Ekki vantar mikið upp á að þjóðin komist í efsta sæti á listanum yfir þyngstu skattbyrðina, sem yrði óneitanlega vafasamur heiður.
Síðasta vinstristjórn, sem sat frá 2009-2013, jók opinber afskipti sannarlega svo um munaði. Sú stjórn beitti sér fyrir rúmlega eitt hundrað skattahækkunum og flækti mjög regluverk.
Í yfirstandandi kosningabaráttu hafa frambjóðendur vinstriflokkanna sýnt mikið hugmyndaflug þegar kemur að auknum útgjöldum ríkisins. Enn og aftur tala þeir eins og alþingismenn hafi aðgang að ótæmandi sjóðum og að leysa megi hvers manns vanda með því að ausa fé úr þeim í allar áttir. Rætt er um hækkun ríkisútgjalda og ný verkefni upp á hundruð milljarða króna. Ríkissjóður á að borga, sem þýðir að þjarma á enn frekar að skattpíndum almenningi. Ljóst er því að skattar verða hækkaðir verulega ef vinstristjórn kemst til valda eftir kosningarnar.
Skattaglöð Samfylking
Ef tækist að mynda vinstristjórn eftir kosningar myndu verk hennar líklega byggjast á efnahagsstefnu Samfylkingarinnar. Frá stofnun hefur stefna hennar í skattamálum verið skýr. Samfylkingin vill hækka skatta og er á móti lækkun þeirra. Fyrir um ári gagnrýndi núverandi formaður Samfylkingarinnar Sjálfstæðisflokkinn harðlega fyrir að hafa lækkað skatta á undanförnum árum og þannig minnkað tekjustofna hins opinbera.
Þar sem Samfylkingin hefur náð völdum hafa skattahækkanir verið í fyrirrúmi. Um það vitna fyrri verk hennar á vettvangi borgarstjórnar og ríkisstjórnar.
Í borgarstjórn heldur Samfylkingin skattheimtu í hámarki og hafa samstarfsflokkar hennar þar stutt slíka vinstristefnu dyggilega, þ.e. Framsóknarflokkur, Píratar og Viðreisn. Ljóst er að þessir flokkar gætu vel hugsað sér að vinna einnig með Samfylkingunni í ríkisstjórn og taka þar til óspilltra málanna við að hækka frekar skatta á landsmenn.
Málsvari skattgreiðenda
Sjálfstæðisflokkurinn er helsta mótvægið við vinstriflokkana og berst gegn óhóflegri útþenslu hins opinbera og stóraukinni skattheimtu. Þingmenn flokksins beittu sér fyrir afnámi tolla (800 talsins) og margvíslegum skattalækkunum. Án þeirra hefðu landsmenn greitt um 700 milljarða króna í hærri skatta undanfarinn áratug.
Í kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins er áhersla lögð á ábyrga efnahagsstjórn og skynsamleg ríkisfjármál. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki hækka skatta og tekur ekki þátt í því yfirboði á skattfé sem nær allir aðrir flokkar stunda nú í aðdraganda kosninga.
Skýrir kostir
Kostirnir eru skýrir:
Atkvæði greitt Samfylkingunni, Viðreisn eða öðrum vinstriflokkum er ávísun á frekari útþenslu ríkisins og stórfelldar skattahækkanir.
Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum eykur líkur á myndun stjórnar sem leggur áherslu á ábyrga stjórn efnahagsmála og hlífir almenningi við skattahækkunum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2024.