Óli Björn Kárason alþingismaður:
Eftir því sem nær dregur kosningum verða valkostir kjósenda skýrari. Slíkt er heilbrigt og nauðsynlegt. Næstkomandi laugardag taka kjósendur ákvörðun um hvort hér komist til valda vinstri ríkisstjórn eða borgaraleg ríkisstjórn með öflugum Sjálfstæðisflokki.
Skoðanakannanir benda til að fyrri kosturinn verði niðurstaðan þar sem Samfylking og Viðreisn taka höndum saman og skjóta einhverju varadekki undir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er ánægð með samstarfið við Samfylkinguna í Reykjavík. Hún hefur lýst því yfir að flokkarnir eigi góða samleið í landsmálum. Undir þetta hefur Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, tekið.
Þótt Þorgerður Katrín og Kristrún fari að dæmi kattanna í kringum heitan graut, má öllum vera ljóst hvert hugur þeirra stefnir. Þær eru með plan: Vinstri stjórn Samfylkingar og Viðreisnar. Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi, lætur sig dreyma um að Píratar verði varadekkið en útilokar ekki Framsóknarflokkinn enda sé ESB-taug í þeim flokki.
Rússíbanareið vinstri flokkanna
Við vitum af reynslunni að vinstri stjórn býður alltaf upp á rússíbanareið fyrir fólk og fyrirtæki. Atlaga verður gerð að einyrkjum og sjálfstæðum atvinnurekendum undir því yfirskini að verið sé að loka „ehf.-gatinu“. Hugmyndafræðin um útþenslu ríkisins og hærri skatta liggur fyrir enda byggist allt „planið“ á henni.
Þegar síðasta vinstri stjórn hrökklaðist frá völdum var lægsta þrep tekjuskattsins komið í 37,32% en þar af var meðalútsvar 14,42%. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins er lægsta þrepið 31,48% en meðalútsvarið er 14,93%. Með öðrum orðum lægsta þrep tekjuskattsins hefur lækkað um 6,35%. Milliþrepið hefur einnig lækkað og það efsta lítillega.
Vinstri stjórnin lækkaði heimild til frádráttar iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar um helming. Sjálfstæðisflokkurinn leiðrétti þennan gjörning og gerði gott betur. Skattfrjáls úttekt séreignarsparnaðar hefur gert þúsundum Íslendinga kleift að eignast eigið heimili. Og ekki má gleyma auðlegðarskattinum sem lagðist sérstaklega þungt á eldra fólk. Það hefur lengi verið draumur vinstri manna að endurvekja hann. Vinstri stjórnin hækkaði virðisaukaskatt úr 24,5% í 25,5%. Sjálfstæðisflokkurinn sneri þessu við og lækkaði almenna virðisaukaskattsþrepið í 24%.
Millistéttin tekur skellinn
Þótt vinstri flokkarnir reyni að pakka hugmyndum sínum um stórfelldar skattahækkanir í huggulegar umbúðir – þar sem allir aðrir en kjósendur eiga að greiða hærri skatta – þá endar leikurinn alltaf á einn veg; millistéttin þarf að bera þyngstu byrðarnar.
Það er rótgróin sannfæring meðal vinstri flokka og raunar miðjuflokka einnig, að tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga séu vannýttir ef skattar og gjöld eru ekki í hæstu hæðum. Hið opinbera sé að „afsala“ sér tekjum með því að þyngja ekki álögur á heimili og fyrirtæki. Að styrkja tekjustofna ríkisins þýðir ekki að ýta undir aukna verðmætasköpun heldur taka stærri sneið af þjóðarkökunni. Hækkun skatta heitir í kokkabókum vinstri manna að auka aðhald á tekjuhlið ríkisfjármála. Aðhald hljómar betur en hækkun skatta og gjalda. Þegar stjórnmálamenn líta á fyrirtæki og heimili sem tekjuhlaðborð hins opinbera, verður hungrið öllu öðru yfirsterkara.
Með hliðsjón af sögunni og reynslunni af vinstri stjórnum eiga allir kjósendur að vita hvað bíður þeirra á komandi kjörtímabili, ef niðurstaða kosninganna verður í takt við skoðanakannanir:
- Hærri skattar heimilanna
- Lægri ráðstöfunartekjur launafólks
- Hærri skattar fyrirtækja
- Atlaga að einyrkjum og sjálfstæðum atvinnurekendum
- Stóraukin ríkisútgjöld
- Auknar millifærslur
- Stærra og flóknara bákn
- Endurtekinn ESB-skollaleikur síðustu vinstri stjórnar
- Samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu
- Minni hagvöxtur
- Hærri verðbólga
- Hærri vextir
Tveir valkostir
Allt frá 2013 hefur Sjálfstæðisflokkurinn unnið markvisst að því að lækka álögur á heimili og fyrirtæki og skapa frjóan jarðveg fyrir verðmætasköpun og bætt lífskjör. Tekjuskattur einstaklinga hefur lækkað, tryggingagjald einnig sem og virðisaukaskattur, almenn vörugjöld felld niður og tollar heyra að mestu sögunni til. Skattalegir hvatar innleiddir sem gert hafa Ísland að einu besta landi í heimi fyrir nýsköpun. Og þannig má lengi telja. En það er enn verk að vinna. Erfðafjárskattur er of hár og fjármagnstekjuskatt þarf að lækka. Tekjuskatt fyrirtækja og einstaklinga verður að lækka. Draga úr skerðingum almannatrygginga og hækka frítekjumörk.
Eitt helsta verkefni stjórnvalda á komandi árum er að horfast í augu við þá staðreynd að þrátt fyrir skattalækkanir síðustu ára er Ísland enn háskattaland. Skattar og samkeppnishæfni tengjast órjúfandi böndum.
Það er undir kjósendum komið næstkomandi laugardag hvort planið um vinstri stjórn nær fram að ganga. Í sjálfu sér skiptir litlu hvort þeir kjósa Samfylkingu, Viðreisn, Pírata eða aðra flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn. Niðurstaðan verður sú sama. Unnið verður út frá þeirri sannfæringu að hið opinbera glími við tekjuvanda en ekki útgjaldavanda. Þess vegna verða skattar hækkaðir í stað þess að tryggja skilvirkari rekstur og betri meðferð sameiginlegra fjármuna.
Kostirnir sem kjósendur standa frammi fyrir næsta laugardag eru því skýrir. Sjálfstæðisflokkur eða vinstri stjórn Samfylkingar og Viðreisnar með einu eða fleiri varadekkjum – fyrirmyndina eiga allir að þekkja.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. nóvember 2024.