Gunnar Örn Jóhannsson er framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar á Höfða og skipar 9. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður:
Öflugt opinbert heilbrigðiskerfi er sameiginleg sýn flestra Íslendinga en umræða um heilbrigðiskerfið er oft mjög villandi þar sem einkarekstri er blandað saman við einkavæðingu. Útfærsluatriðið hvort hið opinbera eigi að reka alla heilbrigðisþjónustu sjálft eða leggja traust sitt á einkaframtak heilbrigðisstarfsfólks virðist umdeildara þrátt fyrir jákvæða reynslu af því fyrirkomulagi.
Einkarekstur innan opinbers kerfis má finna víða og hefur verið hluti af því í áratugi. Einkarekin heilbrigðisfyrirtæki hafa veitt góða og hagkvæma þjónustu fyrir hið opinbera og sjúkratryggða einstaklinga á Íslandi. Sá hluti sem er með samninga við Sjúkratryggingar Íslands og tilheyrir opinberu heilbrigðiskerfi veitir þjónustu án kostnaðarauka fyrir þá sem sækja þjónustuna.
Rekstrarform á Norðurlöndum
Í Danmörku er heilsugæslan nánast öll einkarekin og allir hafa rétt á því að vera með skráðan heimilislækni. Í Noregi var fastlæknakerfi þar sem hver íbúi getur valið sér heimilislækni. Meirihluti heilsugæsluþjónustu varð í framhaldinu einkarekinn og áhrifin eru öflugt heilsugæslukerfi og stóraukin starfsánægja.
Í Svíþjóð var tekið upp valfrelsiskerfi sem felur í sér valfrelsi einstaklinga þegar kemur að heilsugæslustöðvum hvort sem þær eru opinberar eða einkareknar. Kerfið byggist á samkeppni og á að styðja við þróun og fjölbreytni, þetta leiddi af sér fjölgun heilsugæslustöðva og bætti aðgengi að þjónustu.
Frumkvöðlar í heilbrigðisþjónustu
Reynsla af einkarekstri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur verið jákvæð, einkareknar heilsugæslur mælast með mesta ánægju meðal þjónustunotenda, skilvirkni sjúkraþjálfunar og sérfræðilækna á stofum er mikil og aðgengi er afar gott.
En áhrifin ná mun lengra en bara til einstakra fyrirtækja. Við opnun tveggja nýrra einkarekinna heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu árið 2017 jókst framleiðni heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu um 19% fyrstu tvö árin án þess að fjölga starfsfólki. Samkeppni olli því að allir rekstraraðilar vildu bæta aðgengi og starfsumhverfi.
Við sem samfélag þurfum að skapa aðstæður þar sem heilbrigðisstarfsfólk hefur tækifæri til að starfa í umhverfi þar sem við fáum sem mest út úr gæðum þess. Sumir þrífast á því að skapa og taka þátt í rekstri, aðrir vilja starfa í áhyggjuminna umhverfi. Það er á okkar ábyrgð að skapa þetta umhverfi og gera það sem best til að tryggja að við fáum sem mest út úr þeim sem starfa í heilbrigðiskerfinu.
Samkeppni og betri þjónusta
Heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi er fjölbreyttur hópur einstaklinga með ólíkar þarfir og langanir. Þetta er hópur sem er með mikla sköpunargleði og er annt um velferð íbúa þessa lands. Í þessum hópi leynast víða miklir frumkvöðlar með frábærar hugmyndir. Grasrót heilbrigðiskerfisins er fólkið sem starfar á gólfinu, það þekkir þarfir, flöskuhálsa og tækifæri betur en aðrir.
Gæta þarf þó að samkeppnisumhverfi og tryggja jafna aðstöðu aðila til þess að mæla megi hagkvæmni, gæði og skilvirkni þjónustu óháð rekstrarformi.
Ég vil að við sköpum umhverfi þar sem á heilbrigðisstarfsfólk er hlustað og við sköpum jarðveg fyrir það að planta hugmyndum sínum og við styðjum við það að láta þær blómstra því það eru þessir einstaklingar sem eru grunnur nýsköpunar en ekki kerfið sjálft.
Treystum heilbrigðisstarfsfólki
Hið opinbera kaupir vörur og þjónustu af einstaklingum og fyrirtækjum fyrir tugi milljarða á hverju ári. Þessi fyrirtæki leggja vegina okkar, fljúga með sjúklinga, þau byggja spítala og hjúkrunarheimili, elda mat fyrir börnin okkar, flytja inn lyf og tæki sem við þurfum og svona mætti lengi telja.
Þessum fyrirtækjum er treyst fyrir því að starfa á ábyrgan og heiðarlegan hátt. En einhverra hluta vegna er það umdeilt hvort heilbrigðisstarfsfólki sé treystandi til að reka framúrskarandi heilbrigðisfyrirtæki.
Í mínum huga er það ekki umdeilt, ég treysti heilbrigðisstarfsfólki og vil stuðla að því að við sköpum umhverfi þar sem heilbrigðisstarfsfólki er treyst og það er hvatt til að nýta þekkingu sína og reynslu til að stofna, reka og eiga öflug heilbrigðisfyrirtæki sem styðja við öflugt opinbert heilbrigðiskerfi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. nóvember 2024.