Varist vinstri slysin! – Veljum XD
'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Samkeppnin um athygli kjósenda er hörð þegar rúm vika er til alþingiskosninga enda margir flokkar á atkvæðaveiðum. Margir frambjóðendur telja það vænlegast til vinnings að lofa lausn á hvers manns vanda með auknum opinberum útgjöldum.

Slíkur málflutningur er ábyrgðarlaus og í engu samræmi við stöðu ríkisfjármála. Áætlað er að halli á rekstri ríkissjóðs verði um 75 milljarðar króna í ár eða 1,7% af vergri landsframleiðslu. Áætlað er að hallarekstur ríkissjóð muni nema um 59 milljörðum á árinu 2025 eða um 1,2% af VLF.

Ríkissjóður var tímabundið rekinn með miklum halla vegna kórónukreppunnar. Þótt mjög hafi dregið úr hallanum undanfarin ár er hann enn fyrir hendi. Slíkur halli má ekki verða varanlegur, en það gæti hann orðið ef vinstri stjórn tekur við völdum eftir kosningar.

Aðhald í stað eyðslu

Kosningaloforð ættu að snúast um hvernig jafnvægi verði sem best náð í ríkisrekstri. Slíkur árangur næst ekki með aukinni eyðslu heldur með víðtæku aðhaldi og sparnaði.

Öll kosningaloforð vinstri flokkanna um aukin ríkisútgjöld eru um leið loforð um nýjar skattahækkanir. Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki þátt í slíkum yfirboðum á skattfé enda yrðu þau ætið fjármögnuð með skattahækkunum.

Íslendingar axla nú næsthæstu skattbyrðina innan OECD. Taki vinstri stjórn við völdum eftir kosningar er líklegt að hún muni hækka skatta og koma þjóðinni í efsta sæti skattbyrðar á heimsvísu.

Ekki vantar útgjaldaloforðin hjá frambjóðendum vinstri flokkanna. Mikið vantar hins vegar upp á að stjórnendur umræðuþátta krefji þá um skýr svör við því hvernig eigi að fjármagna loforðin. Verður það gert með skattahækkunum, lántökum, óðaverðbólgu eða jafnvel þessu öllu? Og hvernig á að ná jafnvægi í ríkisútgjöldum, sem er ærið verkefni án þess að nokkur ný útgjöld bætist við?

Verðbólga og vextir á niðurleið

Skýrt hefur komið fram hjá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins að óskynsamlegt sé að hækka skatta frekar. Með því að örva hagvöxt verður unnt að auka verðmætasköpun og skapa ríkinu þannig skilyrði til að ná jafnvægi í rekstri og hefja lækkun skulda. Auka þarf ráðdeild og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Afar óábyrgt væri að reka ríkissjóð áfram með halla og vísa vandanum þannig til komandi kynslóða.

Jákvæð teikn eru nú á lofti í efnahagslífinu. Verðbólgan er á niðurleið. Hún er nú um 5%, og því er spáð að hún verði jafnvel komin niður í 3,5% í febrúar. Þá er vaxtalækkunarferli hafið og mikilvægt er að næsta ríkisstjórn haldi áfram á sömu braut.

Hins vegar er mikil hætta á að vinstri stjórn myndi kasta þessum árangri í efnahagsmálum á glæ með stórauknum ríkisútgjöldum og hærri sköttum.

Er vinstri stjórn í kortunum?

Miðað við nýjustu skoðanakannanir er mikil hætta á myndun vinstri stjórnar að loknum kosningum. Fyrir nokkrum dögum gaf formaður Viðreisnar skýrt til kynna að hann vilji ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum á landsvísu heldur mynda stjórn til vinstri. Atkvæði greitt Viðreisn eykur þannig líkur á myndun vinstri stjórnar. Það ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart þar sem Viðreisn hefur í borgarstjórn rækilega sannað sig sem enn einn vinstri flokkurinn.

Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram leggja áherslu á stöðugleika í efnahagsmálum og traustan rekstur ríkissjóðs. Þá mun flokkurinn beita sér fyrir áframhaldandi sókn í atvinnumálum og lækkun skatta, fái hann til þess fylgi í komandi kosningum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember 2024.