Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra:
Ísland hefur um áratugaskeið verið metið öruggasta land í heimi. Það eru mikil lífsgæði fólgin í því að búa á Íslandi en þróun heimsmála sýnir að öryggi er ekki sjálfgefið. Að því þarf að vinna markvisst; horfa með raunsæjum hætti á stöðu og þróun mála og bregðast við af yfirvegun og festu.
Löggæslustofnanir eru lykilstofnanir í íslensku samfélagi til að verjast hvers kyns ógnum. Þær hafa mikilvægu hlutverki að gegna til að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglum í landinu. Við Íslendingar starfrækjum ekki her, líkt og önnur ríki gera, og er því mikilvægt að hér séu starfandi löggæsluyfirvöld sem hafa yfir að ráða öflugum og nægum mannafla, viðeigandi búnaði og nauðsynlegum valdheimildum.
Það hefur verið áherslumál Sjálfstæðisflokksins á liðnu kjörtímabili að styrkja lögregluna með fjölþættum aðgerðum svo hún geti áfram rækt hlutverk sitt, af festu.
Löggæslan styrkt til vinnu gegn skipulagðri brotastarfsemi
Það liggur fyrir samkvæmt greiningu Ríkislögreglustjóra að ógn hérlendis vegna skipulagðrar brotastarfsemi hefur aukist. Það hefur því verið forgangsmál að styrkja löggæsluyfirvöld til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi og ógn gegn öryggi ríkisins. Snemmsumars, með breytingu á lögreglulögum, voru lögreglu veittar auknar valdheimildir til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi og ógn gegn öryggi ríkisins. Enn fremur hefur lögreglan verið styrkt um allt land, þar á meðal almenn löggæsla. Var varanlegt fjármagn til lögreglunnar aukið um 1.250 milljónir til að efla aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Samfélagslöggæsla til að sporna við ofbeldi á meðal barna
Merki eru um að ákveðin ofbeldismenning sé að þróast á meðal barna hérlendis sem mikilvægt er að bregðast við með skýrum aðgerðum, þá sér í lagi eflingu samfélagslöggæslu, en jafnframt tryggja aukið viðbragð lögreglu og bætta málsmeðferð og eftirfylgni með þessum málaflokki innan lögreglu og ákæruvalds. Á næsta ári munu 624 milljónir króna fara til lögreglunnar til að sporna við ofbeldi á meðal barna og fer langstærsti hluti fjármagnsins í samfélagslöggæslu, sem kemur til viðbótar við þær 189 milljónir króna sem samþykktar voru í fjáraukalögum fyrir árið 2024. Með þessum breytingum margfaldast fjöldi samfélagslöggæslumanna sem um leið styrkir lögregluna.
Styrking almannavarnarstarfs lögreglunnar um allt land
Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum áskorunum þar sem öryggi okkar er ógnað, hvort heldur af völdum náttúruhamfara eða ytri aðstæðna. Á síðastliðnu ári höfum við fengið 10 eldgos auk annarra almannavarnaratburða. Almannavarnir gegna lykilhlutverki í því að bregðast við slíkum atburðum og styrkja viðnámsþrótt okkar.
Það er því ekki einungis mikilvægt, heldur nauðsynlegt, að efla og bæta almannavarnarkerfi okkar. Það hefur verið gert með því að styrkja almannavarnarstarf lögreglunnar um land allt auk þess að styrkja umtalsvert almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.
Þá eru drög að nýjum almannavarnarlögum á lokametrunum en þau er mikilvægt að afgreiða hið fyrsta, svo að hægt sé að ná enn frekari árangri og læra af þeim fjölmörgu atburðum sem komið hafa upp síðastliðin misseri og ár.
Fjölgun landamæravarða og bætt eftirlit á landamærum
Við stöndum frammi fyrir margvíslegum áskorunum á landamærum Íslands, vegna meðal annars vaxandi hryðjuverkaógnar innan Evrópu og alþjóðlegrar brotastarfsemi. Jafnframt hefur fjöldi ferðamanna um landamærin, sérstaklega sjólandamæri, aukist umtalsvert og fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur aldrei verið meiri en á síðustu þremur árum. Því hefur verið lögð áhersla á að styrkja betur landamæri Íslands. Landamæravörðum hefur verið fjölgað og eftirlit á landamærum hefur verið bætt, meðal annars með bættri farþegagreiningu. Við þurfum að gera enn betur og verður það gert með því að ráðast í þær aðgerðir sem finna má í nýbirtri stefnu í málefnum landamæra.
Fjölgun nemenda í lögreglufræðum
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að halda áfram að styrkja lögregluna og fjölga lögreglumönnum. Svo unnt sé að ná því markmiði þarf að fjölga menntuðum lögreglumönnum og þar með stöðugildum lögreglunnar til frambúðar. Mikilvægt skref í þá átt var tvöföldun nema í lögreglufræðum sem nú eru 80 í stað 40, líkt og áður var.
Lögreglan er burðarás í öryggi íslensks samfélags og leikur stórt hlutverk í að tryggja að við búum í einu öruggasta landi heims. Verkefni hennar eru margþætt og síbreytileg, og mikilvægi hennar fyrir íslenskan almenning óumdeilt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið, og mun ávallt standa, vörð um lögregluna – með fjárfestingum, stuðningi og nauðsynlegum umbótum. Með markvissum aðgerðum, þar á meðal enn frekari fjölgun lögreglumanna og styrkingu landamæra, tryggjum við að lögreglan hafi burði til að halda áfram að sinna hlutverki sínu af fagmennsku um leið og við styrkjum stoðir íslensks réttarríkis.
Þannig leggur Sjálfstæðisflokkurinn sitt lóð á vogarskálarnar til að tryggja að Ísland haldi áfram að vera öruggasta land í heimi.