Kosningar á örlagatímum
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra skipar 2. sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi:

Umræða um stjórn­mál virðist byggj­ast á þeirri for­sendu að það séu nán­ast eng­in vanda­mál sem stjórn­mála­menn geti ekki leyst. Alls kon­ar hlut­ir eru sett­ir í sam­hengi við aðgerðir stjórn­mála­manna sem við nán­ari skoðun eru ekki svo mikið á þeirra valdsviði.

Þetta er ákveðin hugs­ana­villa sem ger­ir lýðræðið flókið. Áhrif stjórn­mála­manna á hvað ger­ist til skamms tíma eru oft frek­ar lít­il. En til langs tíma skipt­ir sam­fé­lags­gerðin gríðarlega miklu máli, og þar skipta áhrif stjórn­mál­anna miklu. Kosn­ingalof­orð snú­ast um að leysa aðsteðjandi vanda. En það sem mark­ar vel­gengni sam­fé­laga er miklu dýpra.

Þau sem kos­in verða til þing­setu næsta laug­ar­dag munu taka við ábyrgð á ís­lensku sam­fé­lagi á ör­laga­tím­um. Hraðar og ískyggi­leg­ar vend­ing­ar á alþjóðavett­vangi geta í einni svip­hend­ingu koll­varpað ýms­um af þeim for­send­um sem liggja til grund­vall­ar okk­ar framúrsk­ar­andi góða sam­fé­lagi. Einnig blas­ir við að áhrif öldrun­ar þjóðar­inn­ar vaxa frá ári til árs, þannig að færri vinn­andi hend­ur verða til þess að standa und­ir verðmæta­sköp­un og þjón­ustu. Þessu til viðbót­ar er hin gríðarlega hraða þróun í tækni og gervi­greind sem hef­ur nú þegar gjör­breytt hvers­dags­lífi okk­ar allra, til bæði góðs og ills, og eng­inn veit hvert stefn­ir.

Þetta eru al­var­leg viðfangs­efni. Kannski al­var­legri en þjóðin hef­ur staðið frammi fyr­ir um langt ára­bil og þau kalla á að al­vöru­gefið fólk sé við stjórn­völ lands­mál­anna. Það er hins veg­ar til marks um mikla nær­sýni að halda að Ísland sé á ein­hvern hátt ólíkt öðrum vest­ræn­um ríkj­um hvað þetta varðar. Þvert á móti; sömu vanda­mál blasa við úti um allt í kring­um okk­ur.

Í góðri stöðu fyr­ir framtíðina

En það er þó sá mun­ur á Íslandi og flest­um ríkj­um í kring­um okk­ur að við erum um þess­ar mund­ir í ákaf­lega góðri aðstöðu til þess að mæta framtíðinni. Skipt­ir þar ekki minnstu máli fyr­ir­hyggja í skipu­lagi líf­eyr­is­mála og góð skuld­astaða rík­is­sjóðs.

Mál­efni eins og þau tvö of­an­töldu eru lang­tíma­mál, en eðli kosn­inga­bar­áttu er áhersla á eitt­hvað sem er ný­skeð eða bráðan vanda sem þarf að leysa. Það er skilj­an­legt, en það eru yf­ir­leitt ekki kosn­inga­mál­in sem ráða mestu um lang­tíma­ár­ang­ur þjóðar­inn­ar held­ur mun djúp­stæðari eig­in­leik­ar. Við get­um kallað það menn­ingu, hug­ar­far, hefðir og venj­ur.

Það hvernig svona hug­ar­far, eða menn­ing, verður ráðandi í sam­fé­lag­inu er lang­tíma­mál og skipt­ir miklu meira máli til lengri tíma held­ur en ein­staka ákv­arðanir eða deilu­mál í dæg­urþrasi póli­tík­ur­inn­ar. Þegar við þurf­um að taka ákv­arðanir eða setja lög um þetta og hitt ætt­um við ekki bara að vera að hugsa um áhrif­in til skamms tíma held­ur hvernig þau geta haft áhrif á menn­ingu þjóðar­inn­ar. Þetta er hug­ar­far sem er orðið erfiðara að viðhalda í sam­fé­lagi þar sem reglu­setn­ing, eft­ir­lit og skriffinnska eru alls­ráðandi. Fólk get­ur jafn­vel orðið smeykt við að bregðast við, sækja fram, láta reyna á nýj­ar hug­mynd­ir, finna lausn­ir, prófa sig áfram.

Vilj­um við sam­fé­lag þar sem sjálfs­bjarg­ar­viðleitni er ríkj­andi?

Vilj­um við sam­fé­lag þar sem frum­kvæði er verðlaunað?

Vilj­um við sam­fé­lag þar sem fólk þorir að skora ríkj­andi viðhorf á hólm?

Ef svör kjós­enda við þess­um spurn­ing­um eru já, já og já – þá er ekki nokk­ur vafi á því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er rétti val­kost­ur­inn.

En þetta eru ekki spurn­ing­ar sem eru al­geng­ar í kosn­inga­bar­áttu. Þó ráða svör­in við þeim einna mestu um hvernig og hvort okk­ur mun tak­ast að viðhalda þeirri ótrú­legu stöðu sem Ísland hef­ur, að geta boðið upp á þau framúrsk­ar­andi lífs­kjör sem við höf­um náð að gera.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur verið kjöl­fest­an í ís­lensk­um stjórn­mál­um frá stofn­un hans fyr­ir 95 árum. Óum­deilt er að Íslend­ing­ar hafa á þeim tíma mótað eitt glæsi­leg­asta vel­ferðarsam­fé­lag ver­ald­ar. Við, sem erum í for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins, get­um ekki leyft okk­ur að spila með þá arf­leifð til þess að skora ódýr stig í lof­orðakapp­hlaupi eða po­púl­isma. Þegar á móti blæs í skoðana­könn­un­um verður það verk­efni okk­ar að breyta vindátt­inni, ekki að haga segl­um eft­ir vindi.

Mik­il­væg­asta kosn­ingalof­orðið

Stjórn­mála­menn þurfa að vita hvert þeir stefna til lengri tíma. Ef við vit­um ekki hvernig við vilj­um sjá sam­fé­lagið þró­ast á löng­um tíma þá eru öll viðbrögð okk­ar við nýj­um vanda­mál­um handa­hófs­kennd. Þetta þýðir að það er ekki bara mik­il­vægt að geta svarað því hvernig eigi að svara aðkallandi viðfangs­efn­um held­ur þurfa lands­menn að geta treyst því að stjórn­mála­menn og flokk­ar hafi burði, þekk­ingu og reynslu til þess að tak­ast á við óvissu. Og hafi kjark til að taka um­deild­ar ákv­arðanir, jafn­vel þótt maður sjái vel að það séu ekki vin­sæl­ar ákv­arðanir til skamms tíma.

Mik­il­væg­asta kosn­ingalof­orðið sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn, og ég per­sónu­lega, gef­ur kjós­end­um snýr því ekki aðeins að til­tekn­um mála­flokk­um, held­ur ein­fald­lega því að vinna af yf­ir­veg­un og al­vöru að stjórn lands­mála á grund­velli traustra gilda sem þjónað hafa þjóðinni vel og munu gera áfram.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 24. nóvember 2024.