„Verndum Grafarvoginn“
'}}

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Diljá Mist Einarsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, Grafarvogsbúar:

Málefni Grafarvogs eru komin rækilega á dagskrá en tilefnið er alvarlegt. Eftir áralangt afskiptaleysi af hálfu meirihluta borgarstjórnar, að undanskildum misheppnuðum skólasameiningum, er nú sótt að okkur úr þremur mismunandi áttum. Skilningsleysi meirihlutans gagnvart hverfinu kristallast í umræddum áformum. 

Borgarstjóri Reykjavíkur úr Framsókn og Viðreisn, Samfylking og Píratar hafa kynnt þéttingaráform um allt hverfið sem ganga út á að byggja 500 íbúðir á grænum svæðum. Fyrirhuguð byggð í Keldnalandi var kynnt á dögunum, en þar stendur til að koma um 15 þúsund manns fyrir á svæði sem er á stærð við Húsahverfi. Þá er stefnt að því að fara með Sundabraut í útboð á næsta ári á grundvelli 25 ára gamalla áætlana sem munu aukinheldur ekki leysa umferðarvanda borgarinnar. Þessar áætlanir fela í sér að nauðsynlegt verður að tvöfalda Hallsveg og mun Sundabraut að öllu óbreyttu skemma útsýni allra hverfa í norðanverðum Grafarvogi. Sundabraut mun auk þess liggja þvert í gegnum útivistarsvæðið í Gufunesbæ og í gegnum bíllausa hverfið í Gufunesi og klippa þannig Grafarvoginn í tvennt. 

Samtakamáttur Grafarvogsbúa 

Íbúar hverfisins og íbúasamtökin hafa látið til sín taka til þess að mótmæla þessum áformum. Það höfum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og íbúar í Grafarvogi til áratuga einnig gert. Það hefur verið gleðilegt að finna samtakamátt Grafarvogsbúa á fjölmennum fundum sem bæði við og íbúasamtökin hafa haldið um þessi áform um framtíð hverfisins. 

- Hvað geta þingmenn gert fyrir Reykvíkinga? 

Það skiptir máli að eiga Reykjavíkurþingmenn sem gæta hagsmuna hverfisins og kjósenda sinna í borginni. Þannig höfum við haldið opna fundi á kjörtímabilinu um málefni sem brenna á Reykvíkingum eins og samgöngumálin. Við höfum barist fyrir friðlýsingu Grafarvogsins, en tillaga um stækkun friðlýsingarjaðarsins frá vatnaskilum upp að veg hefur mætt harðri andstöðu meirihlutans í borginni. Þá höfum við tekið upp fjölmörg mál á vettvangi þingsins og ríkisstjórnar sem varða hagsmuni Reykvíkinga, m.a. samgöngusáttmálann, umferðarljósastýringu sem hefur verið að plaga Grafarvogsbúa, mikilvægi grænna svæða og dagvistunarmálin. 

Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um Grafarvoginn 

Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem stendur raunverulega vörð um hverfið okkar. Þingmenn flokksins sem búa í hverfinu þekkja það enda frá fyrstu hendi hversu mikilvægt það er að hafa íbúana með í ráðum varðandi skipulagsmál í þessu rótgróna hverfi sem hefur svipaðan íbúafjölda og Akureyrarbær. Það getur skaðað lífsgæði íbúanna verulega þegar ákvarðanatakan er í höndum fólks sem þekkir ekki samfélögin. Þétting byggðar, þetta aðalstefnumál Samfylkingar og Viðreisnar í Reykjavík, getur t.a.m. átt rétt á sér við ákveðnar aðstæður. Það er hins vegar mikilvægt að hún eigi sér ekki stað nema í samráði og sátt við íbúana hverfanna sem um ræðir. Þá skiptir lykilmáli að slíkar aðgerðir skerði ekki lífsgæði þeirra sem fyrir búa í hverfinu. Áhyggjur okkar snúa að því að þessir flokkar skilji ekki að fólk búi í Grafarvogi sem flutti þangað einmitt vegna gerðar og gæða hverfisins. 

Þola innviðir Grafarvogs meira en tvöföldun íbúafjöldans? 

Áformum meirihlutans í Reykjavík um 15 þúsund manna byggð í Keldnalandi, byggingu 500 íbúða á grænum svæðum í Grafavogi, og hundruð íbúða til viðbótar í Gufunesi, mun fylgja gríðarlegt álag á innviði. Við þekkjum það vel að heilsugæsla, skólar, þ.m.t. leikskólar, og frístund barna anna ekki slíku viðbótarálagi. Þá er ónefnt álag á samgöngur, en aðeins tvær leiðir eru inn og út úr hverfinu sem báðar eru nú þegar tepptar af umferðarþunga (og kolvitlausri ljósastýringu). 

Afskiptaleysið skárra 

Við erum hugsi yfir skilaboðum borgarstjóra til Grafarvogsbúa um verðbólguvandann sem lóðaskortur borgarinnar hefur orsakað, og ummælum um harmdauða vegna ófullnægjandi íbúðarskilyrða. Bera Grafarvogsbúar ábyrgð á stefnu meirihlutans í Reykjavík og þurfa nú að gjalda fyrir það með grænu svæðunum sínum? Þá er ljóst að aukið byggingarmagn í Keldnalandi, sem er breytt frá upphaflegum áformum, á að skila Reykjavíkurborg 50 milljörðum í tekjur í stað 15 milljarða. Við eigum því að þola þennan ágang á hverfið okkar til þess að fjármagna skýjaborgaverkefni meirihlutans, Borgarlínuna. 

Við Grafarvogsbúar höfum lengi kvartað yfir áhugaleysi borgarstjórnarmeirihlutans á hverfinu okkar. Af tvennu illu er afskiptaleysið þó skárra en þessi árás á friðinn, náttúruna og lífsgæðin sem við nú njótum. 

Við teljum að framangreindar fyrirætlanir um að umbreyta hverfinu séu í hróplegu ósamræmi við væntingar íbúanna um framtíð Grafarvogs og munum beita okkur af fullum þunga gegn þessum áformum. Við, frambjóðendur í efstu sætum hjá Sjálfstæðisflokknum í okkar kjördæmi, munum áfram verja hagsmuni hverfisins okkar. Það er mikilvægt að við gleymum ekki Grafarvogi.

Greinin birtist fyrst í Grafarvogsblaðinu í nóvember 2024