Jón Þór Kristjánsson skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður:
Ég birti grein fyrir tveimur mánuðum undir yfirskriftinni „Að hjálpa fólki að standa á eigin fótum“ þar sem gagnrýnd voru áform um afnám séreignarsparnaðarleiðarinnar, það er heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst inn á húsnæðislán.
Áður hafði fjármálaráðherra Framsóknarmanna haldið því fram að úrræðið ætti ekki rétt á sér þar sem það gagnaðist helst efnuðu fólki sem þyrfti ekki stuðning. Heldur ætti að efla opinberan húsnæðismarkað og útvíkka hinar ýmsu bætur.
Ekki bjóst ég við slíkum viðbrögðum við umræddri grein, aðallega frá ungu fjölskyldufólki sem er í mörgum tilvikum að stíga fyrstu skrefin á fasteignamarkaðinum og munar verulega um þær upphæðir sem úrræðið býður upp á.
Við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár tókst sem betur fer að afstýra áformunum. Áfram verður hægt að ráðstafa séreignarsparnaði inn á húsnæðislán, út næsta ár hið minnsta. Þetta er einna helst fyrir tilstuðlan Sjálfstæðisflokksins sem átti frumkvæði að umræddu úrræði fyrir 10 árum og hefur alla tíð verið skjöldur þess og skjól.
Styðjum fólk til sjálfshjálpar
Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um séreignarstefnuna, enda hefur hún reynst flestum afar mikilvæg. Það að búa í öruggu húsnæði og skulda sem minnst við lok starfsævinnar eru mikil lífsgæði og einn besti sparnaður sem hægt er að hugsa sér. Vissulega er ekki auðvelt að kaupa fyrstu eign, hvorki á Íslandi né annars staðar, og hefur líklega aldrei verið. Stjórnvöld geta hins vegar gert ýmislegt til að liðka þar fyrir.
Lykilatriði nú er að verðbólgan hefur lækkað mikið og vextir eru á niðurleið. Nauðsyn er að byggja meira og til þess þurfa sveitarfélög að tryggja lóðaframboð. Sjálfstæðisflokkurinn vill einnig einfalda lög og reglur um nýbyggingar og hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts á byggingarstað. Einnig þarf að afnema stimpilgjald á kaupum einstaklinga á íbúðarhúsnæði, standa vörð um skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar og hækka fjárhæðarmörkin.
Augu stjórnvalda þurfa alltaf að vaka yfir bestu leiðum hverju sinni til að styðja við að sem flestir geti eignast húsnæði. Það er einmitt stefna Sjálfstæðisflokksins – að hjálpa fólki að standa á eigin fótum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. nóvember 2024.