Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður:
Allir sem starfa í stjórnmálum vita að það borgar sig að vera þokkalega að sér í sögu og að minnsta kosti kannast við eigin verk. Það sanna dæmin undanfarna daga. Það er því sérkennilegt að fylgjast með vandræðum Miðflokksmannanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Gunnars Braga Sveinssonar þegar kemur að áherslum í loftslagsmálum. Sérkennilegast er þegar þeir taka til við að gagnrýna metnaðinn sem Ísland hefur sýnt í þeim málaflokki. Sérstaklega þegar rýnt er í söguna.
Parísarsamkomulagið
Íslendingar hafa tekið þátt í samstarfi um loftslagsmál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna frá upphafi eða árinu 1992 þegar fyrsti samningurinn var gerður. Til að gera langa sögu stutta tók Ísland sömuleiðis þátt í Kyoto-samkomulaginu frá árinu 1997. Straumhvörf urðu hins vegar með Parísarsamkomulaginu sem gert var 2015. Aldrei hafa fleiri ríki tekið þátt í og samþykkt jafn metnaðarfullt samkomulag á sviði loftslagsmála eða samtals 167 ríki.
Ísland tók ekki einungis þátt í fundinum í París heldur hafði Ísland aldrei áður verið jafn áberandi á vettvangi loftslagsmála og á þeim fundi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mættu til fundarins ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands. Allir ráðherrarnir voru í flokki forsætisráðherra, Framsóknarflokknum. Einnig mætti með þeim 70 manna sendinefnd. Segja má að þarna hafi verið sett nýtt Íslandsmet í áhuga og þátttöku ráðherra Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, ný lína dregin í sandinn til að undirstrika metnað og áhuga Íslands á loftslagsmálum.
En forsætisráðherra mætti ekki eingöngu til fundarins til þess að fylgjast með heldur hélt hann „eldræðu“ til að koma skýrum skilaboðum frá Íslandi til heimsbyggðarinnar. „Það er mín von að hér í París munum við ná samkomulagi sem mun koma í veg fyrir hamfarahlýnun; samkomulag vonar – sameini mannkyn í að takast á við þessa miklu sameiginlegu ógn.“
Hann fór sömuleiðis yfir þann mikla árangur sem Ísland hefur náð í orkuskiptum og bætti við: „En við verðum að gera meira. Ríkisstjórnin mín hefur ákveðið að fara í aðgerðir til að ná orkuskiptum í samgöngum, fiskveiðum og landbúnaði í samstarfi við atvinnulífið sem er nauðsynlegt til að ná árangri.“ Sömuleiðis lofaði hann fjárframlögum í Græna loftslagssjóðinn. Í lokin lýsti hann yfir von um að við værum einungis nokkra daga frá því að ná sögulegu samkomulagi. „Loftslagssamningi sem mun ná til yfir stærsta hluta losunar í heiminum og aðstoða aðlögun og græna framtíð fyrir þróunarríki.“
En forsætisráðherra og sendinefndin létu ekki duga að setja Íslandsmet í mætingu og halda stutta ræðu heldur var ákveðið að sýna enn meiri metnað. Á síðustu dögum fundarins var sett á fót svokallað metnaðarbandalag (e. High Ambition Coalition), sem setti fram ákveðnar kröfur um atriði sem ríkin þar töldu að þyrftu að vera inni í nýju samkomulagi, s.s að halda inni markmiði um að halda hlýnun innan við 1,5°C, en ekki bara 2°C. Marshall-eyjar voru í forystu þessa ríkjahóps en fjölmörg ríki tóku undir kröfu hans, þ. á m. Ísland. Ísland skrifaði upp á kröfurnar og ráðherra umhverfismála steig á svið og lýsti yfir stuðningi við áherslurnar.
Sérstaða Íslands
Þeir Miðflokksmenn hafa talað um að ekki hafi verið tekið tillit til íslenskra staðhátta þegar markmið í loftslagsmálum voru sett fram. Í Kyoto-samkomulaginu, sem var fyrirrennari Parísarsamkomulagsins, var hið svokallaða „íslenska ákvæði“ við lýði á fyrra tímabili þess (2008-2012), þar sem tekið var tillit til sérstöðu Íslands hvað varðaði stóriðjuna. Þar fékk Ísland heimild til losunar frá nýrri stóriðju upp að ákveðnu þaki og með skilyrðum. Þegar kom að seinna tímabilinu (2013-2020) var farin önnur leið, sem tryggði að losun stóriðju var utan landsmarkmiða Íslands, án þaks, þar sem sú losun fór inn í samevrópskt viðskiptakerfi, ETS. Í París ákvað Ísland að halda áfram á þeirri leið til að ná sömu markmiðum. Sú ákvörðun var tekin í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs.
Ákveðið var í kjölfar Parísarfundarins að Ísland færi í samstarf með ESB og Noregi. Eftir því samkomulagi hefur verið unnið. Það felur m.a. í sér að stóriðjan, alþjóðaflugið og alþjóðasiglingar eru inni í ETS-kerfinu með sambærilegum fyrirtækjum sem starfa í ESB og Noregi.
Fráleit hugmynd Sigmundar Davíðs um sæstreng
Fyrsti forsætisráðherra Breta sem heimsótti Ísland frá því að Winston Churchill kom hingað árið 1941 var David Cameron, en hann kom hingað í október 2016. Á fundi Sigmundar Davíðs og Camerons var ákveðið að setja af stað vinnu við að kanna mögulega raforkutengingu á milli landanna í gegnum sæstreng til Bretlands. Slík áform eru fráleit, enda þurfum við Íslendingar á allri okkar orku að halda fyrir okkar eigin orkuskipti.
Kostnaður og tekjur vegna loftslagsmála
Þingmönnum Miðflokksins verður tíðrætt um mikinn kostnað við loftslagsaðgerðir Á kjörtímabilinu hefur verið lögð áhersla á hagræðingu, einföldun regluverks og skilvirkni stjórnsýslunnar í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu m.a. með sameiningum stofnana sem undir það heyra. Kyrrstaðan var rofin í orkumálum með afgreiðslu Alþingis á rammaáætlun og ferlið einfaldað að því leyti að nú þarf ekki að fara með stækkun núverandi virkjana í gegnum rammaáætlun.
Framlög ríkissjóðs til loftslagsmála lækkuðu um 6 milljarða á milli áranna 2023 og 2024. Að auki hafa verið seldar losunarheimildir fyrir um 16 milljarða, einkum til stóriðju, sem renna í ríkiskassann. Tekjur orkufyrirtækjanna af sölu upprunaábyrgða hafa numið um 20 milljörðum króna á síðustu árum. Talið er að tekjur af þeim muni nema 17 milljörðum króna á hverju ári á meðan það fyrirkomulag er enn við lýði. Það er bein niðurgreiðsla á hreinni íslenskri orkuframleiðslu.
Tillögur Miðflokksins í dag
Það er erfitt að átta sig á því hvað Miðflokkurinn vill og að hverju hann stefnir. Það er ekki af mörgu að taka þegar kemur að þingmálum Miðflokksins. En þeir hafa þó á hverju þingi lagt fram þingsályktun um: stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu. Samkvæmt henni á að „stórauka“ stuðning við landbúnað og auka fjárframlög til greinarinnar. Þar er m.a. tilgreind loðdýrarækt og hrossarækt sem hingað til hefur ekki verið gert. En það vekur athygli að stuðningur er að mjög stórum hluta nokkuð sem hægt er að skilgreina sem loftslagsaðgerðir. Styðja á lífræna framleiðslu, hringrásarhagkerfið, innlenda orkugjafa til framleiðslu, nýta orkuauðlindirnar, innlent eldsneyti, skógrækt á að stórauka, o.s.frv. Með öðrum orðum eru þeir að leggja til hækkun á framlögum til loftslagsmála!
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. nóvember 2024.