Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:
Loksins er vaxtalækkunarferlið komið á flug. Verðbólga fer minnkandi og stefnir nálægt verðbólgumarkmiði innan nokkurra mánaða. Gangi það eftir munum við sjá ítrekaðar og ríflegar vaxtalækkanir á næsta ári. En það er hægt að klúðra þessu plani.
Þessar gjörbreyttu horfur eru afleiðing af traustri hagstjórn síðustu ár, í gegnum áföll og afbrigðilega tíma. Síðasta vetur lögðum við mikið undir með stuðningi við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Það virðist hafa skilað sér því verðlag hefur hækkað um rétt ríflega 1% síðan þeir kjarasamningar voru undirritaðir. Í fjármálaáætlun 2025-29 var dregið allverulega úr útgjaldavexti og áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum tryggt þótt meira þurfi til.
Þetta skiptir máli og hefur Seðlabankinn bent á það aðhald. Allt hefur þetta tekist á meðan við höfum stutt myndarlega við Grindvíkinga eftir þær hörmungar sem á þeim dynja.
Þó að árangurinn tali sínu máli eru flokkar sem tala óljóst um aðhald og hærri skatta að fljúga hátt í skoðanakönnunum. Flokkarnir, Samfylkingin og Viðreisn, hafa í Reykjavík haldið fast aftur af íbúðabyggingu sem allir sjá afleiðingarnar af; hærra íbúðaverð og meiri verðbólga. Þá er lausnin og kjarninn í stefnuskrá beggja flokka að ganga í ESB, þar sem nú er varað við efnahagserfiðleikum og skuldakreppu. Þetta plan skilar ekki árangri.
Við þurfum aukið aðhald, einfaldari efnahagsreikning ríkisins, ekki bankarekstur, einokunarverslun og 160 stofnanir svo dæmi sé tekið. Við þurfum alvöru forgangsröðun, lægri skatta, enn meira húsnæði og skilvirkari þjónustu við almenning.
Við kunnum þetta – en við þurfum sterkt umboð til að framkvæma. Munum það 30. nóvember.
Þórdís Kolbrún skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember 2024.