Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður:
Kristin trú er órjúfanlegur hluti íslenskrar sögu og menningar. Það hefði því ekki átt að koma mér á óvart, sem það þó gerði, hversu mikill áhugi fólks er á að við þingmenn tökum þessi mál upp. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka þessi mál reglulega upp í þinginu og í opinberri umræðu og er þakkað vel og innilega fyrir af fjölda fólks.
Ég hef m.a. fjallað um rótgróna, áratuga hefð fyrir aðventuheimsóknum grunnskólabarna í kirkjuna. Undanfarin ár hefur verið sótt að kristinni trú og kristnu fólki um allan heim. Borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavíkurborg hefur skipað sér í þann flokk. Þannig hefur hann alið á sundurlyndi hjá þjóðinni með því að gera kirkjuheimsóknir skólabarna tortryggilegar, m.a. á aðventunni, og þrengt að trúfrelsi barna með sérstökum reglum. Þessar sérreykvísku reglur eru á skjön við reglur stjórnvalda og eru til þess ætlaðar að sá fræjum tortryggni í Reykjavík um eðlilegt og heilbrigt samstarf skóla og trúfélaga. Flokkarnir sem nú stýra borginni virðast sammála um þessa áralöngu framkvæmd Reykjavíkurborgar, jafnt Píratar, Samfylking, Viðreisn og nú síðast jafnvel Framsóknarflokkurinn. Ný hjálpardekk Samfylkingar hafa ekki varið stjórnarskrárvarið frelsi til trúariðkunar þar sem kristin trú er sérstaklega sett á lágan stall af þessum flokkum. Að ekki sé minnst á þá staðreynd að lögum samkvæmt skal starf í grunnskólum á Íslandi mótast af kristinni arfleifð. Sjálf stjórnarskráin verndar þjóðkirkjuna á Íslandi.
Þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa, fyrir forgöngu Birgis Þórarinssonar, ítrekað lagt fram frumvarp um að auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólunum. Breytingar voru gerðar á grunnskólalögum í tíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra, þess efnis að kristinfræði yrði ekki lengur kennd sem sérstakt fag. Í tíð Katrínar Jakobsdóttur, þá menntamálaráðherra, var dregið úr trúarbragðakennslu og kristnum fræðum. Þessu höfum við sjálfstæðismenn viljað breyta, enda helgast áherslan á kristna trú ekki síst af menningu okkar og tengslum hennar við sögu kristinnar trúar í landinu.
Sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis lagði ég mikla áherslu á að horfið yrði frá áformum um lækkun sóknargjalda. Söfnuðir þjóðkirkjunnar hafa liðið fyrir skerðingu á sóknargjöldum sem kemur niður á mikilvægu starfi kirkjunnar og viðhaldi húsnæðis í eigu sóknanna. Það var jákvætt að hafa getað varið sóknargjöldin og hækkað þau lítillega við afgreiðslu fjárlaga og tengdra mála á dögunum. Athyglisvert var þó að fylgjast með því hvernig flokkarnir greiddu atkvæði.
Mikill meirihluti Íslendinga og annarra íbúa hér á landi er kristinnar trúar. Við eigum að vera óhrædd við að verja kristin gildi og fræðslu um þau, enda eru þau grunngildi samfélags okkar. Með því er engan veginn vegið að öðrum trúarbrögðum; öðru nær. Kærleikur, fyrirgefning, miskunnsemi og mannvirðing kristninnar eru gildi og boðskapur sem eiga sannarlega erindi í íslensku samfélagi um þessar mundir. Við sjálfstæðismenn munum halda því á loft á Alþingi og fáum vonandi stuðning skoðanasystkina okkar til þess.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember 2024.