Hvaða flokkar standa vörð um kristna trú og íslenska menningu?
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður:

Krist­in trú er órjúf­an­leg­ur hluti ís­lenskr­ar sögu og menn­ing­ar. Það hefði því ekki átt að koma mér á óvart, sem það þó gerði, hversu mik­ill áhugi fólks er á að við þing­menn tök­um þessi mál upp. Þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins taka þessi mál reglu­lega upp í þing­inu og í op­in­berri umræðu og er þakkað vel og inni­lega fyr­ir af fjölda fólks.

Ég hef m.a. fjallað um rót­gróna, ára­tuga hefð fyr­ir aðventu­heim­sókn­um grunn­skóla­barna í kirkj­una. Und­an­far­in ár hef­ur verið sótt að krist­inni trú og kristnu fólki um all­an heim. Borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn í Reykja­vík­ur­borg hef­ur skipað sér í þann flokk. Þannig hef­ur hann alið á sund­ur­lyndi hjá þjóðinni með því að gera kirkju­heim­sókn­ir skóla­barna tor­tryggi­leg­ar, m.a. á aðvent­unni, og þrengt að trúfrelsi barna með sér­stök­um regl­um. Þess­ar sérreyk­vísku regl­ur eru á skjön við regl­ur stjórn­valda og eru til þess ætlaðar að sá fræj­um tor­tryggni í Reykja­vík um eðli­legt og heil­brigt sam­starf skóla og trú­fé­laga. Flokk­arn­ir sem nú stýra borg­inni virðast sam­mála um þessa ára­löngu fram­kvæmd Reykja­vík­ur­borg­ar, jafnt Pírat­ar, Sam­fylk­ing, Viðreisn og nú síðast jafn­vel Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn. Ný hjálp­ar­dekk Sam­fylk­ing­ar hafa ekki varið stjórn­ar­skrár­varið frelsi til trú­ariðkun­ar þar sem krist­in trú er sér­stak­lega sett á lág­an stall af þess­um flokk­um. Að ekki sé minnst á þá staðreynd að lög­um sam­kvæmt skal starf í grunn­skól­um á Íslandi mót­ast af krist­inni arf­leifð. Sjálf stjórn­ar­skrá­in vernd­ar þjóðkirkj­una á Íslandi.

Þing­menn Sjálf­stæðis­flokks hafa, fyr­ir for­göngu Birg­is Þór­ar­ins­son­ar, ít­rekað lagt fram frum­varp um að auka veg krist­in­fræðikennslu í grunn­skól­un­um. Breyt­ing­ar voru gerðar á grunn­skóla­lög­um í tíð Þor­gerðar Katrín­ar Gunn­ars­dótt­ur, þáver­andi mennta­málaráðherra, þess efn­is að krist­in­fræði yrði ekki leng­ur kennd sem sér­stakt fag. Í tíð Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur, þá mennta­málaráðherra, var dregið úr trú­ar­bragðakennslu og kristn­um fræðum. Þessu höf­um við sjálf­stæðis­menn viljað breyta, enda helg­ast áhersl­an á kristna trú ekki síst af menn­ingu okk­ar og tengsl­um henn­ar við sögu krist­inn­ar trú­ar í land­inu.

Sem formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is lagði ég mikla áherslu á að horfið yrði frá áform­um um lækk­un sókn­ar­gjalda. Söfnuðir þjóðkirkj­unn­ar hafa liðið fyr­ir skerðingu á sókn­ar­gjöld­um sem kem­ur niður á mik­il­vægu starfi kirkj­unn­ar og viðhaldi hús­næðis í eigu sókn­anna. Það var já­kvætt að hafa getað varið sókn­ar­gjöld­in og hækkað þau lít­il­lega við af­greiðslu fjár­laga og tengdra mála á dög­un­um. At­hygl­is­vert var þó að fylgj­ast með því hvernig flokk­arn­ir greiddu at­kvæði.

Mik­ill meiri­hluti Íslend­inga og annarra íbúa hér á landi er krist­inn­ar trú­ar. Við eig­um að vera óhrædd við að verja krist­in gildi og fræðslu um þau, enda eru þau grunn­gildi sam­fé­lags okk­ar. Með því er eng­an veg­inn vegið að öðrum trú­ar­brögðum; öðru nær. Kær­leik­ur, fyr­ir­gefn­ing, mis­kunn­semi og mann­v­irðing kristn­inn­ar eru gildi og boðskap­ur sem eiga sann­ar­lega er­indi í ís­lensku sam­fé­lagi um þess­ar mund­ir. Við sjálf­stæðis­menn mun­um halda því á loft á Alþingi og fáum von­andi stuðning skoðana­systkina okk­ar til þess.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember 2024.