Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður:
Stjórnmálaumræðan á það til að snúast um hluti sem í stóru samhengi hlutanna skipta ekki öllu máli í okkar daglega lífi. Sjálfsagt getum við öll upphugsað nokkur þannig mál. Það sem skiptir okkur þó öll mestu er að rétt sé haldið á spöðunum í efnahagsmálum. Hagstæðir vextir eru eitt mikilvægasta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Fyrir okkur öll er það keppikefli að forsendur fyrir enn frekari lækkun vaxta skapist. Það gerum við meðal annars með því að taka skynsamlegar ákvarðanir í ríkisfjármálum, tryggja það að hinn frjálsi markaður fái að vera frjáls, styðja við okkar helstu atvinnugreinar og huga að því að hagkerfið vaxi með sjálfbærum hætti. Þetta eru, alla jafna, þættir sem við getum stjórnað.
Það var vissulega jákvætt þegar Seðlabankinn lækkaði vexti í október og hann mun tilkynna vaxtaákvörðun sína í dag. Eðli málsins samkvæmt liggur ákvörðun bankans ekki fyrir þegar þessi pistill er skrifaður. Ferli vaxtalækkunar er þó hafið. Hver sem ákvörðun bankans verður í dag, þá eru aðstæður að skapast þar sem við getum gert ráð fyrir enn frekari lækkum vaxta.
Það má gróflega áætla að afborganir af 50 m.kr. láni, með óverðtryggðum vöxtum, lækki um það bil um 25 þús. kr. á mánuði fyrir hverja 50 punkta lækkun vaxta. Vextir af slíku láni eru í dag í flestum tilvikum rétt rúmlega 10%, sem er óboðlegt. Fari vextirnir niður í 8% eykur það ráðstöfunarfé viðkomandi um 100 þús. kr. á mánuði. Það munar um minna.
Það er hægt að leika sér með tölur út frá mismunandi forsendum, það breytir ekki þeirri staðreynd að við höfum öll hagsmuni af því að sjá vexti lækka hratt. Engar töfralausnir eru í boði aðrar en þær að taka skynsamlegar ákvarðanir og lofa ekki upp í ermina á sér þegar kemur að ríkisútgjöldum. Eitt stærsta og mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna er ekki að lofa heimilum og fyrirtækjum einhverju sem kannski verður að veruleika ef það tekst að skattleggja aðra hópa til að standa undir því – heldur skapa þannig aðstæður að hægt sé að lækka vexti og ná þannig fram raunverulegum árangri fyrir heimili og fyrirtæki.
Við vitum að vinstristjórn mun auka ríkisútgjöld, hækka skatta og ýta undir frekari verðbólguþrýsting – ýmist með aðgerðum eða aðgerðaleysi. Við sjáum þróunina hjá vinstriflokkunum í Reykjavík, þar sem misheppnuð skipulagsstefna hefur ýtt undir gífurlegar hækkanir á húsnæðisverði, með tilheyrandi kostnaði fyrir fjölskyldur. Þess vegna þurfum við hægrisinnaða borgaralega stjórn, sem sinnir efnahagsstjórninni af ábyrgð og festu. Það er ekki nóg að tala í frösum um það, heldur þarf að sýna það í verki án þess að senda skattgreiðendum reikninginn eins og Samfylkingin ætlar að gera. Við höfum tækifæri til að búa þannig í haginn að hér skapist skilyrði fyrir stöðugleika og hagstæða vexti. Við skulum ekki glata því tækifæri.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. nóvember 2024.