Glötum ekki tækifærinu
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður:

Stjórn­má­laum­ræðan á það til að snú­ast um hluti sem í stóru sam­hengi hlut­anna skipta ekki öllu máli í okk­ar dag­lega lífi. Sjálfsagt get­um við öll upp­hugsað nokk­ur þannig mál. Það sem skipt­ir okk­ur þó öll mestu er að rétt sé haldið á spöðunum í efna­hags­mál­um. Hag­stæðir vext­ir eru eitt mik­il­væg­asta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja. Fyr­ir okk­ur öll er það keppikefli að for­send­ur fyr­ir enn frek­ari lækk­un vaxta skap­ist. Það ger­um við meðal ann­ars með því að taka skyn­sam­leg­ar ákv­arðanir í rík­is­fjár­mál­um, tryggja það að hinn frjálsi markaður fái að vera frjáls, styðja við okk­ar helstu at­vinnu­grein­ar og huga að því að hag­kerfið vaxi með sjálf­bær­um hætti. Þetta eru, alla jafna, þætt­ir sem við get­um stjórnað.

Það var vissu­lega já­kvætt þegar Seðlabank­inn lækkaði vexti í októ­ber og hann mun til­kynna vaxta­ákvörðun sína í dag. Eðli máls­ins sam­kvæmt ligg­ur ákvörðun bank­ans ekki fyr­ir þegar þessi pist­ill er skrifaður. Ferli vaxta­lækk­un­ar er þó hafið. Hver sem ákvörðun bank­ans verður í dag, þá eru aðstæður að skap­ast þar sem við get­um gert ráð fyr­ir enn frek­ari lækk­um vaxta.

Það má gróf­lega áætla að af­borg­an­ir af 50 m.kr. láni, með óverðtryggðum vöxt­um, lækki um það bil um 25 þús. kr. á mánuði fyr­ir hverja 50 punkta lækk­un vaxta. Vext­ir af slíku láni eru í dag í flest­um til­vik­um rétt rúm­lega 10%, sem er óboðlegt. Fari vext­irn­ir niður í 8% eyk­ur það ráðstöf­un­ar­fé viðkom­andi um 100 þús. kr. á mánuði. Það mun­ar um minna.

Það er hægt að leika sér með töl­ur út frá mis­mun­andi for­send­um, það breyt­ir ekki þeirri staðreynd að við höf­um öll hags­muni af því að sjá vexti lækka hratt. Eng­ar töfra­lausn­ir eru í boði aðrar en þær að taka skyn­sam­leg­ar ákv­arðanir og lofa ekki upp í erm­ina á sér þegar kem­ur að rík­is­út­gjöld­um. Eitt stærsta og mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­mála­manna er ekki að lofa heim­il­um og fyr­ir­tækj­um ein­hverju sem kannski verður að veru­leika ef það tekst að skatt­leggja aðra hópa til að standa und­ir því – held­ur skapa þannig aðstæður að hægt sé að lækka vexti og ná þannig fram raun­veru­leg­um ár­angri fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki.

Við vit­um að vinstri­stjórn mun auka rík­is­út­gjöld, hækka skatta og ýta und­ir frek­ari verðbólguþrýst­ing – ým­ist með aðgerðum eða aðgerðal­eysi. Við sjá­um þró­un­ina hjá vinstri­flokk­un­um í Reykja­vík, þar sem mis­heppnuð skipu­lags­stefna hef­ur ýtt und­ir gíf­ur­leg­ar hækk­an­ir á hús­næðis­verði, með til­heyr­andi kostnaði fyr­ir fjöl­skyld­ur. Þess vegna þurf­um við hægris­innaða borg­ara­lega stjórn, sem sinn­ir efna­hags­stjórn­inni af ábyrgð og festu. Það er ekki nóg að tala í frös­um um það, held­ur þarf að sýna það í verki án þess að senda skatt­greiðend­um reikn­ing­inn eins og Sam­fylk­ing­in ætl­ar að gera. Við höf­um tæki­færi til að búa þannig í hag­inn að hér skap­ist skil­yrði fyr­ir stöðug­leika og hag­stæða vexti. Við skul­um ekki glata því tæki­færi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. nóvember 2024.