Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Andvaraleysi í húsnæðismálum hefur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þróun efnahagslífsins. Yfir lengra tímabil hefur efnahagsstjórn landsins að miklu leyti snúið að baráttu við verðbólgu – en frá árinu 2014 hefur húsnæðisliðurinn, sem að mestu ræðst af fasteignaverði, verið helsti drifkraftur verðbólgu.
Sveitarfélög bera ábyrgð
Ríkjandi skortstefna í lóðamálum borgarinnar hefur leitt af sér viðvarandi framboðsskort á húsnæðismarkaði og gríðarlegar hækkanir fasteignaverðs. Á yfirstandandi kjörtímabil hefur heildarmat fasteigna hækkað milli áranna 2022 og 2025 um tæp 48%.
Uppsöfnuð húsnæðisþörf er nú talin samsvara 17 þúsund íbúðum og þörfin til framtíðar nema minnst 4.000 íbúðum árlega til ársins 2050.
Sveitarfélög gegna því mikilvæga hlutverki að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði með bæði nægu lóðaframboði og skipulagi hverfa sem mæta undirliggjandi íbúðaþörf. Fyrirliggjandi húsnæðisskortur og uppsöfnuð húsnæðisþörf eru bein afleiðing þess að sveitarfélög hafa brugðist þessu hlutverki. Hér gegnir höfuðborgin veigamiklu hlutverki en nú er þörf á stefnubreytingu.
Að hugsa í lausnum
Sjálfstæðisflokkurinn telur rétt að hugsa í lausnum og lagði því til á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag bráðaaðgerðir á húsnæðismarkaði – að ráðist yrði í uppbyggingu 2.000 íbúða á þegar deiliskipulögðum svæðum, þróunarsvæðum og framtíðarsvæðum í Úlfarsárdal og á Kjalarnesi strax á næsta ári.
Jafnframt yrðu fyrirliggjandi hugmyndir um þéttingu byggðar í Grafarvogi endurskoðaðar með hliðsjón af byggðarmynstri og anda hverfisins. Sjónum yrði sérstaklega beint að þróunarreitum sem styrkt gætu Staðahverfi og leitt til þess að Korpuskóli yrði aftur opnaður.
Meirihluti borgarstjórnar treysti sér ekki til að samþykkja tillögurnar en vísaði þeim heldur til hins svifaseina nefndakerfis borgarinnar. Það er gömul saga og ný.
Aukið lóðaframboð kjarabót
Ákvarðanir á sveitarstjórnarstiginu hafa gríðarleg áhrif á efnahagsþróun landsins og hagsmuni heimilanna. Stóraukið lóðaframboð og kraftmikil húsnæðisuppbygging geta falið í sér gríðarlega kjarabót fyrir almenning í landinu. Það er því löngu tímabært að láta af þröngsýnni nálgun meirihlutans á skipulagsmál Reykjavíkur. Viðfangsefnið þarf að nálgast af meiri víðsýni – en samhliða þéttingu byggðar þarf jafnframt að brjóta nýtt land, útvíkka vaxtarmörkin og horfa enn lengra til framtíðar. Öðruvísi svörum við ekki fyrirliggjandi þörf á húsnæðismarkaði.
Með því að koma jafnvægi á húsnæðismarkað má ná betri tökum á verðbólgu hérlendis og hafa jákvæð áhrif á heimilisbókhald allra landsmanna. Það er til mikils að vinna – fyrir okkur öll.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. nóvember 2024.