Birna Bragadóttir skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður:
Þegar Kristrún Frostadóttir var kjörin formaður Samfylkingarinnar setti hún áralanga baráttu flokksins fyrir aðild Íslands að ESB á ís.
Sú ákvörðun var augljóslega tekin í því skyni að auka vinsældir Samfylkingarinnar og gera flokkinn meira aðlaðandi fyrir kjósendur, enda hafa hugmyndir um ESB-aðild Íslands ekki fengið mikinn hljómgrunn á Íslandi. Ákvörðunin fól hins vegar ekki í sér efnislega stefnubreytingu Samfylkingarinnar í Evrópumálum eins og komið hefur fram nú í aðdraganda kosninga.
Aðild Íslands að ESB er enn eitt helsta stefnumál Samfylkingarinnar þótt frambjóðendur hennar hafi reynt að tala sem minnst um það í kosningabaráttunni og aðdraganda hennar.
Viðreisn gerir aðildarviðræður við ESB að skilyrði
Viðreisn gekk ekki jafn langt í því að reyna að fela sitt helsta stefnumál fyrir kjósendum á síðasta kjörtímabili, enda flokkurinn beinlínis stofnaður um baráttuna fyrir aðild Íslands að ESB.
Framan af þessari kosningabaráttu fór Viðreisn samt eins og köttur í kringum heitan graut í umræðum um þetta helsta baráttumál sitt. Frambjóðendur Viðreisnar létu eins og ESB-málið væri léttvægt í þeirra huga og sögðu að stefna þeirra væri sú sama og annarra flokka, Viðreisn vildi eins og aðrir að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um hvort Ísland ætti að sækja um aðild að ESB.
Slíkur málflutningur stenst ekki og er settur fram til að villa um fyrir kjósendum. Allir sem til þekkja ættu að vita að aðeins stjórnmálamenn sem vilja að þjóðin gangi í ESB efna til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnmálamenn og flokkar sem telja ekki skynsamlegt fyrir þjóðina að ganga í ESB efna ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu. Þetta segir sig sjálft.
En nú hefur Viðreisn loks sýnt sitt rétta andlit. Leiðtogi Viðreisnar í Suðurkjördæmi lýsti því nýverið yfir á kosningafundi í Vestmannaeyjum að áframhald viðræðna um aðild Íslands að ESB, sem vinstristjórn Samfylkingar og VG hóf árið 2010, væri ófrávíkjanlegt skilyrði Viðreisnar fyrir ríkisstjórnarsamstarfi við aðra flokka.
Krafan um aðild Íslands að ESB verður ekki skýrari en þetta.
Stefna Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn og frambjóðendur hans telja hagsmunum Íslands best borgið utan ESB. Það segir sig sjálft og leiðir raunar af nafni flokksins. Íslendingum hefur farnast vel utan ESB og mun gera það áfram, enda horfur hér bjartari en þar. Við höfum trú á stöðu okkar og styrk og þeim tækifærum sem fram undan eru. Við viljum ekki afsala okkur fullveldi okkar heldur verja yfirráð okkar yfir auðlindunum.
Hins vegar hefur nú teiknast upp sú skýra mynd í þessari kosningabaráttu að atkvæði greidd Viðreisn eða Samfylkingu eru atkvæði greidd með aðildarumsókn Íslands að ESB.
Það er mikilvægt að hafa í huga í komandi kosningum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2024.