Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi:
Sjálfstæðisflokkurinn vill að það sé eftirsóknarvert að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi. Verðmæti verða til hjá atvinnulífinu og verðmætasköpun er nauðsynleg forsenda þess að hér getum við byggt upp öflugt og gott samfélag. Við þurfum fjölbreyttan atvinnurekstur þar sem nýsköpun á sem flestum sviðum samfélagsins er leiðandi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja hóflega skattheimtu á atvinnulífið, frekari álögur og skattheimta á atvinnugreinar geta dregið úr verðmætasköpun. Við Sjálfstæðismenn trúum á mikilvægi þess að ýta undir verðmætasköpun, hjálpa fyrirtækjunum að skapa meiri verðmæti og þannig greiða meira til samfélagsins.
Við viljum tryggja stöðugleika í rekstrarumhverfi og einfalt regluverk, við viljum tryggja samkeppnishæfni nýsköpunarfyrirtækja. Flokkurinn virðir frelsi og sjálfsákvörðunarrétt bænda og vill hvetja til aukinnar nýsköpunar og fjölbreytni í matvælaframleiðslu á Íslandi.
Ferðaþjónustan er undirstöðuatvinnugrein hér á landi og hefur sýnt mikilvægi sitt á síðustu misserum. Stuðlum áfram að samkeppnishæfni greinarinnar, aukum gæði og tryggjum jákvæða upplifun ferðamanna með því að stýra álagi á ferðamannastaði og dreifum heimsóknum þeirra um land allt.
Við viljum styrkja stoðir menningar og skapandi greina og byggja enn frekar undir nýtingu íslensks hugvits.
Sjálfstæðisflokkurinn mun stórauka græna orkuöflun og tryggja næga orku til heimila og fyrirtækja. Íslensk græn orka er hornsteinn efnahagslegs árangurs íslensku þjóðarinnar. Með frekari orkuöflun tryggjum við orkuöryggi þjóðarinnar og áframhaldandi lífskjaravöxt.
Sjálfstæðisflokkurinn vill verja fullveldi, sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar og tryggja enn frekar efnahagslegt sjálfstæði landsins með frjálsum viðskiptum og greiðum aðgangi að alþjóðamörkuðum.
Þannig tryggjum við meiri árangur fyrir okkur öll.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2024.