Diljá Mist Einarsdóttir formaður efnahagsnefndar Alþingis:
Við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á heilbrigðiskerfi sem þjónar sjúklingum út frá þörfum þeirra. Heilbrigðisþjónusta á að vera veitt tímanlega og öllum aðgengileg óháð efnahag. Til þess að ná þessum markmiðum vill Sjálfstæðisflokkurinn auka nýsköpun í heilbrigðiskerfinu og nýta fjölbreytt rekstrarform.
Höfnum tvöföldu heilbrigðiskerfi
Þrátt fyrir gríðarlega aukningu fjármuna til heilbrigðismála hefur bið eftir ýmissi heilbrigðisþjónustu verið gersamlega óviðunandi. Viðvarandi biðlistavandi hefur verið m.a. eftir liðskiptum, og tíðkast hefur að sjúklingar séu sendir út fyrir landsteinana í aðgerðir og margfaldur kostnaður greiddur af ríkinu. Aðrir hafa farið á eigin vegum og sjálfir greitt fyrir aðgerðir, jafnt erlendis og hérlendis. Augljós lausn á útbreiddum biðlistavanda heilbrigðiskerfisins er að ríkið semji við aðra um heilbrigðisþjónustu sem eftirspurn er eftir. Að öðrum kosti verður til tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem þeir sem efni hafa á (eða ekki!) greiða fyrir þjónustuna úr eigin vasa og fara þannig fram fyrir langar biðraðir. Um þetta þekkjum við öll mýmörg dæmi.
Landlæknir brýtur gegn reglum
Þegar gríðarleg útgjaldaaukning til heilbrigðismála er skoðuð í samhengi við brotalamir kerfisins blasa sömuleiðis við fjölmörg tækifæri til úrbóta. Lausn á áskorunum í heilbrigðiskerfinu getur ekki einungis falist í stórauknum fjárframlögum, eins og raunin hefur verið. Við þurfum að fara betur með fé og nýta tækninýjungar og nýsköpun. Það hefur verið sorglegt að fylgjast með framgangi og viðhorfi embættis landlæknis, undir forystu Ölmu Möller, til þessa. Ég hef ítrekað tekið upp baráttu nýsköpunarfyrirtækisins Kara Connect við embættið þar sem landlæknisembættið hefur gerst sekt um ólögmæta framkvæmd við innkaup á hugbúnaðarlausnum á kostnað fyrirtækisins. Það er vond meðferð opinberra fjármuna að vanda ekki opinber innkaup. Reglur um opinber innkaup eru nefnilega settar til hagsbóta fyrir atvinnulífið, neytendur – já, og skattgreiðendur. Landlæknir hefur hins vegar bitið höfuðið af skömminni með því að lögsækja Kara Connect fyrir að koma upp um athæfið í von um að fá niðurstöðunni hnekkt.
Gamaldags hugsun og fordómar
Þá hef ég sömuleiðis tekið upp fordóma hins opinbera í garð fjarheilbrigðisþjónustu til að bæta aðgengi og vinna á geðheilbrigðisvandanum. Fjarheilbrigðisþjónusta hefur verið veitt með góðum árangri í dreifbýlum löndum í áratugi. Enda eykur tæknin gríðarlega aðgengi þeirra sem búa í dreifbýli. Hins vegar hefur opinbera kerfið (með landlækni í broddi fylkingar) staðið í vegi fyrir víðtækri innleiðingu á fjarlausnum til að bæta þjónustuna.
Það er ótækt að gamaldags hugsun – fordómar og kreddur – komi í veg fyrir skynsamlega uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu og góða meðferð opinbers fjár. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum öflugt heilbrigðiskerfi og nýjar lausnir. Atkvæði greitt okkur er þungt lóð á vogarskálina. Þeir sem vilja betrumbæta heilbrigðiskerfið geta ekki greitt gamaldags stefnu Samfylkingarinnar atkvæði sitt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember 2024.