Meiri tækni, minni sóun – betri þjónusta
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir formaður efnahagsnefndar Alþingis:

Við sjálf­stæðis­menn leggj­um áherslu á heil­brigðis­kerfi sem þjón­ar sjúk­ling­um út frá þörf­um þeirra. Heil­brigðisþjón­usta á að vera veitt tím­an­lega og öll­um aðgengi­leg óháð efna­hag. Til þess að ná þess­um mark­miðum vill Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn auka ný­sköp­un í heil­brigðis­kerf­inu og nýta fjöl­breytt rekstr­ar­form.

Höfn­um tvö­földu heil­brigðis­kerfi

Þrátt fyr­ir gríðarlega aukn­ingu fjár­muna til heil­brigðismála hef­ur bið eft­ir ým­issi heil­brigðisþjón­ustu verið ger­sam­lega óviðun­andi. Viðvar­andi biðlista­vandi hef­ur verið m.a. eft­ir liðskipt­um, og tíðkast hef­ur að sjúk­ling­ar séu send­ir út fyr­ir land­stein­ana í aðgerðir og marg­fald­ur kostnaður greidd­ur af rík­inu. Aðrir hafa farið á eig­in veg­um og sjálf­ir greitt fyr­ir aðgerðir, jafnt er­lend­is og hér­lend­is. Aug­ljós lausn á út­breidd­um biðlista­vanda heil­brigðis­kerf­is­ins er að ríkið semji við aðra um heil­brigðisþjón­ustu sem eft­ir­spurn er eft­ir. Að öðrum kosti verður til tvö­falt heil­brigðis­kerfi þar sem þeir sem efni hafa á (eða ekki!) greiða fyr­ir þjón­ust­una úr eig­in vasa og fara þannig fram fyr­ir lang­ar biðraðir. Um þetta þekkj­um við öll mý­mörg dæmi.

Land­lækn­ir brýt­ur gegn regl­um

Þegar gríðarleg út­gjalda­aukn­ing til heil­brigðismála er skoðuð í sam­hengi við brota­lam­ir kerf­is­ins blasa sömu­leiðis við fjöl­mörg tæki­færi til úr­bóta. Lausn á áskor­un­um í heil­brigðis­kerf­inu get­ur ekki ein­ung­is fal­ist í stór­aukn­um fjár­fram­lög­um, eins og raun­in hef­ur verið. Við þurf­um að fara bet­ur með fé og nýta tækninýj­ung­ar og ný­sköp­un. Það hef­ur verið sorg­legt að fylgj­ast með fram­gangi og viðhorfi embætt­is land­lækn­is, und­ir for­ystu Ölmu Möller, til þessa. Ég hef ít­rekað tekið upp bar­áttu ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Kara Conn­ect við embættið þar sem land­læknisembættið hef­ur gerst sekt um ólög­mæta fram­kvæmd við inn­kaup á hug­búnaðarlausn­um á kostnað fyr­ir­tæk­is­ins. Það er vond meðferð op­in­berra fjár­muna að vanda ekki op­in­ber inn­kaup. Regl­ur um op­in­ber inn­kaup eru nefni­lega sett­ar til hags­bóta fyr­ir at­vinnu­lífið, neyt­end­ur – já, og skatt­greiðend­ur. Land­lækn­ir hef­ur hins veg­ar bitið höfuðið af skömm­inni með því að lög­sækja Kara Conn­ect fyr­ir að koma upp um at­hæfið í von um að fá niður­stöðunni hnekkt.

Gam­aldags hugs­un og for­dóm­ar

Þá hef ég sömu­leiðis tekið upp for­dóma hins op­in­bera í garð fjar­heil­brigðisþjón­ustu til að bæta aðgengi og vinna á geðheil­brigðis­vand­an­um. Fjar­heil­brigðisþjón­usta hef­ur verið veitt með góðum ár­angri í dreif­býl­um lönd­um í ára­tugi. Enda eyk­ur tækn­in gríðarlega aðgengi þeirra sem búa í dreif­býli. Hins veg­ar hef­ur op­in­bera kerfið (með land­lækni í broddi fylk­ing­ar) staðið í vegi fyr­ir víðtækri inn­leiðingu á fjar­lausn­um til að bæta þjón­ust­una.

Það er ótækt að gam­aldags hugs­un – for­dóm­ar og kredd­ur – komi í veg fyr­ir skyn­sam­lega upp­bygg­ingu á heil­brigðis­kerf­inu og góða meðferð op­in­bers fjár. Við í Sjálf­stæðis­flokkn­um vilj­um öfl­ugt heil­brigðis­kerfi og nýj­ar lausn­ir. At­kvæði greitt okk­ur er þungt lóð á vog­ar­skál­ina. Þeir sem vilja betr­um­bæta heil­brigðis­kerfið geta ekki greitt gam­aldags stefnu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar at­kvæði sitt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember 2024.