Kjartan Magnússon borgarfulltrúi:
Eðlilegt er að húsnæðisskorturinn sé eitt helsta mál kosningabaráttunnar. Vegna mikillar hækkunar á húsnæðisverði hefur margt fólk ekki efni á að eignast eigin íbúð þótt það helst vildi. Þess í stað neyðist það til að leigja á afarkjörum eða búa í foreldrahúsum lengur en góðu hófi gegnir.
Samspil framboðs og eftirspurnar er eitt af grundvallarlögmálum hagfræðinnar. Ef eftirspurn eftir húsnæði er meiri en sem nemur framboði á því hækkar verðið.
Á undanförnum fimm árum hefur vísitala húsnæðisverðs hækkað um rúmlega 70%. Slíkar hækkanir eru vitnisburður um mikla öfugþróun á húsnæðismarkaði, ekki síst gagnvart ungu fólki.
Framboð og eftirspurn
Stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði í Reykjavík má rekja til húsnæðisstefnu Samfylkingarinnar, sem síðustu ár hefur verið studd dyggilega af Framsóknarflokknum, Pírötum og Viðreisn. Hækkanir á húsnæðisverði eru knúnar fram með lóðaskortstefnu, lóðauppboði, auknu flækjustigi í stjórnsýslu, hækkun gjalda og álagningu nýrra gjalda, t.d. innviðagjalda.
Uppbygging nýrra íbúða takmarkast að mestu við dýr og þröng þéttingarsvæði. Íbúðir á þessum svæðum eru dýrar og varla á færi fólks með meðaltekjur, hvað þá efnalítils fólks.
Eign fyrir alla
Ódýrum byggingarlóðum var úthlutað milliliðalaust til einstaklinga og samtaka þeirra í stórum stíl á valdatíma Sjálfstæðisflokksins 1982-1994. Þá var algengt að lóðaverð (gatnagerðargjald) næmi um 4% af byggingarkostnaði nýrrar íbúðar. Með þessari stefnu Sjálfstæðisflokksins var tugþúsundum borgarbúa gert kleift að eignast húsnæði enda var það markmiðið. Með miklu og stöðugu framboði á ódýrum lóðum var eftirspurninni fullnægt. Alsiða var að fólk fjárfesti í sinni fyrstu íbúð um tvítugt, gjarnan á meðan það var í háskóla eða framhaldsskóla. Skapa þarf það ástand á ný að auðvelt sé fyrir sem flesta að eignast eigin húsnæði.
Frelsi í stað miðstýringar
Húsnæðisskorturinn er í eðli sínu framboðsvandi, sem verður ekki leystur með miðstýringu vinstriflokkanna heldur með stórauknu lóðaframboði. Hægt er að úthluta þúsundum lóða í Úlfarsárdal, Keldnalandi og á Kjalarnesi með skömmum fyrirvara. Einnig þarf að hefja undirbúning að íbúabyggð í Geldinganesi.
Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum hvað eftir annað lagt til að lóðaframboð verði stóraukið í Reykjavík. Það er besta leiðin til að svara mikilli eftirspurn og lækka húsnæðisverð til almennings.
Tillögur Sjálfstæðisflokksins um að hefja undirbúning að íbúabyggð í Geldinganesi hafa tvívegis verið felldar á kjörtímabilinu af vinstri meirihlutanum. Afstaða meirihlutans er sú að ekki megi bjóða of margar lóðir til sölu í borginni á sama tíma til að tryggja hámarksafrakstur af fyrirhugaðri lóðasölu í Keldnalandi vegna borgarlínu. Slíkt viðhorf afhjúpar miðstýringaráráttu vinstriflokkanna og andstöðu þeirra við að eðlilegar markaðslausnir séu nýttar til að tryggja ungu fólki ódýrt húsnæði.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu einnig til í mars sl. að hafist yrði handa við skipulagningu Halla- og Hamrahlíðarlanda í Úlfarsárdal. Tillögunni var vísað til átakshóps um húsnæðisuppbyggingu í borginni en borgarstjóri tók um leið fram að málið yrði ekki haft í neinum forgangi í þeirri vinnu.
Rjúfum vítahringinn – XD
Lóðaskortstefna vinstri meirihlutans í borgarstjórn á mestan þátt í að viðhalda þeim vítahring, sem umlykur húsnæðismálin. Sjálfstæðisflokkurinn vill rjúfa þennan vítahring með því að hverfa frá skortstefnunni og tryggja nægt framboð lóða í borginni á mun lægra verði en nú tíðkast. Slík stefnubreyting kæmi öllum almenningi til góða, ekki síst ungu fólki, sem vill eignast eigið húsnæði þrátt fyrir að hafa lítið fé handa á milli.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember 2024.