Óli Björn Kárason alþingismaður:
Eitt fyrsta verk Kristrúnar Frostadóttur þegar hún tók við formennsku í Samfylkingunni í október 2022 var að setja eitt aðalbaráttumál flokksins – aðild að Evrópusambandinu – í tímabundna geymslu. Tæpum átta mánuðum áður hafði forveri hennar í formannsstóli verið með ákall á flokksstjórnarfundi um að „endurnýja samfélagslega umræðu“ um aðild að Evrópusambandinu [ESB]. „Um er að ræða grundvallarhagsmuni þjóðarinnar og það er tími til kominn að setja aðildarumsókn að Evrópusambandi aftur rækilega á dagskrá,“ sagði Logi Einarsson í ræðu.
Margt bendir til að það hafi verið rétt hjá Kristrúnu að gera hlé á baráttu Samfylkingarinnar fyrir aðild að Evrópusambandinu. Hún hefur reynst öflugur stjórnarandstæðingur. Og hún hefur sýnt og sannað að hún er sanntrúaður vinstrimaður. Í aðdraganda kosninga boðar Samfylkingin stóraukin ríkisútgjöld sem ekki verða fjármögnuð nema með um eða yfir 100 milljarða hækkun skatta og/eða skuldaaukningu.
Viðreisn hélt hins vegar baráttunni fyrir aðild að Evrópusambandinu áfram. Varla var til það vandamál eða verkefni sem þingmenn flokksins töldu að ekki væri hægt að leysa með aðild og upptöku evru. En nú þegar nær dregur kjördegi er engu líkara en Viðreisn hafi farið að fordæmi Kristrúnar. Krafan um aðild að Evrópusambandinu hljómar að minnsta kosti ekki hátt.
Enn á að kíkja í pakkann
Í oddvitakynningu á mbl.is fyrir nokkrum dögum sagðist Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, ekki vera í hópi þeirra sem litu á aðild að ESB sem einhverja töfralausn. Um leið tók hún fram að Viðreisn færi inn í hugsanlegar stjórnarmyndunarviðræður með áherslu á að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður „til að sjá hvað er í boði“.
Þannig heldur blekkingin frá tíma vinstristjórnarinnar 2009-2013 áfram. Kíkja í pakkann var sagt. Enn á að reyna að telja almenningi trú um að Ísland geti átt sérstakar samningaviðræður við Evrópusambandið um breytt regluverk. Viðræður við sambandið verða aldrei annað en aðlögunarviðræður – samningar um að fá tíma til aðlögunar við að taka upp lög og stefnumið ESB. Evrópusambandið er ekki að laga sig að Íslandi.
En þótt Kristrún Frostadóttir hafi sett helsta baráttumálið í geymslu fram yfir kosningar er stefnan óbreytt: „Samfylkingin … stefnir að fullri aðild að Evrópusambandinu með upptöku evru að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Með sama hætti er stefna Viðreisnar skýr: „Ísland á að auka enn frekar þátttöku sína í Evrópusamstarfinu og gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu.“
Flestir sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum átta sig á því að fái ESB-flokkarnir brautargengi í kosningum verður aftur lagt upp í ferðalag til Brussel. Feigðarför vinstristjórnarinnar verður ekki höfð sem víti til varnaðar.
Ný vinstristjórn
Samfylkingin hefur alltaf sveiflast fram og til baka í leit að pólitískum tilgangi og nýjum umbúðum. Einu sinni tók flokkurinn sér stöðu með nokkrum stórfyrirtækjum og umsvifamiklum kaupsýslumönnum en varð síðan róttækur vinstriflokkur ríkisafskipta og þungrar skattheimtu með einfalda lausn í farteskinu – aðild að Evrópusambandinu. Einu sinni létu forystumenn Samfylkingarinnar sig dreyma um að flokkurinn yrði eitthvað sem kallað var vettvangur „nýsköpunar“ í stjórnmálum. Þá tóku vinstrisinnaðir menntamenn völdin og rætur gamla Alþýðuflokksins í verkalýðshreyfingunni slitnuðu. Nú er Samfylkingin einfaldlega flokkurinn með „plan“; aukin útgjöld og hærri skatta. Hugmyndafræðin er gömul. Íslendingar fengu að kynnast henni þegar Samfylkingin var í forsæti fyrir samsteypustjórn með Vinstri-grænum.
Miðað við skoðanakannanir er ekki ólíklegt að Samfylkingu og Viðreisn takist að mynda nýja vinstristjórn að loknum kosningum með einu eða fleiri varadekkjum. Enginn kann betur til verka á pólitísku hjólbarðaverkstæði en Dagur B. Eggertsson, sem formaður Samfylkingarinnar segir að sé í aukahlutverki. Óhætt er að ganga út frá því að aukahlutverkið sé tímabundið og breytist í aðalhlutverk innan skamms.
Gamla baráttumálið verður dregið út úr geymslunni. Saman munu Samfylkingin og Viðreisn róa í áttina að Brussel. Jafnvel þegar hnignun blasir við Evrópusambandinu er aðild heillandi fyrir þessa flokka.
Fjötrar eða sköpun?
Undirstöður Þýskalands sem efnahagslegs stórveldis eru jafn traustar og brauðlappir. Gamla stórveldið Frakkland er því miður í raun gjaldþrota. Skortur er á orku og lönd sambandsins glíma við minnkandi samkeppnishæfni á flestum sviðum, allt frá menntun til tækni og nýsköpunar. Óttinn við að brautin til efnahagslegrar hnignunar sé mörkuð er ekki ástæðulaus.
Fyrir tveimur árum hélt Josep Borell utanríkismálastjóri ESB því fram að efnahagsleg velsæld aðildarríkjanna yrði ekki lengur byggð á Rússlandi og Kína. Orka frá Rússlandi væri hvorki ódýr né örugg. Aðgangur að Kína yrði sífellt erfiðari. Í nýlegri skýrslu viðurkennir Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri Evrópu, þann mikla vanda sem lönd Evrópusambandsins glíma við. Lausnir sem hann boðar eru í besta falli umdeilanlegar.
Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu hefur lýst því hvernig Evrópa er að verða undir í samkeppni þjóðanna: „Bandaríkin skapa, Kína afritar, en Evrópa regluvæðir.“
Viljum við Íslendingar ekki miklu fremur vera í hópi þeirra landa sem skapa en vera í fjötrum reglugerða frá Brussel?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. nóvember 2024.