Viljum við skapa eða vera í fjötrum?
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Eitt fyrsta verk Kristrún­ar Frosta­dótt­ur þegar hún tók við for­mennsku í Sam­fylk­ing­unni í októ­ber 2022 var að setja eitt aðal­bar­áttu­mál flokks­ins – aðild að Evr­ópu­sam­band­inu – í tíma­bundna geymslu. Tæp­um átta mánuðum áður hafði for­veri henn­ar í for­manns­stóli verið með ákall á flokks­stjórn­ar­fundi um að „end­ur­nýja sam­fé­lags­lega umræðu“ um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu [ESB]. „Um er að ræða grund­vall­ar­hags­muni þjóðar­inn­ar og það er tími til kom­inn að setja aðild­ar­um­sókn að Evr­ópu­sam­bandi aft­ur ræki­lega á dag­skrá,“ sagði Logi Ein­ars­son í ræðu.

Margt bend­ir til að það hafi verið rétt hjá Kristrúnu að gera hlé á bar­áttu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar fyr­ir aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Hún hef­ur reynst öfl­ug­ur stjórn­ar­and­stæðing­ur. Og hún hef­ur sýnt og sannað að hún er sann­trúaður vinstrimaður. Í aðdrag­anda kosn­inga boðar Sam­fylk­ing­in stór­auk­in rík­is­út­gjöld sem ekki verða fjár­mögnuð nema með um eða yfir 100 millj­arða hækk­un skatta og/​eða skulda­aukn­ingu.

Viðreisn hélt hins veg­ar bar­átt­unni fyr­ir aðild að Evr­ópu­sam­band­inu áfram. Varla var til það vanda­mál eða verk­efni sem þing­menn flokks­ins töldu að ekki væri hægt að leysa með aðild og upp­töku evru. En nú þegar nær dreg­ur kjör­degi er engu lík­ara en Viðreisn hafi farið að for­dæmi Kristrún­ar. Kraf­an um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu hljóm­ar að minnsta kosti ekki hátt.

Enn á að kíkja í pakk­ann

Í odd­vita­kynn­ingu á mbl.is fyr­ir nokkr­um dög­um sagðist Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dótt­ir, odd­viti Viðreisn­ar í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður, ekki vera í hópi þeirra sem litu á aðild að ESB sem ein­hverja töfra­lausn. Um leið tók hún fram að Viðreisn færi inn í hugs­an­leg­ar stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður með áherslu á að efnt yrði til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild­ar­viðræður „til að sjá hvað er í boði“.

Þannig held­ur blekk­ing­in frá tíma vinstri­stjórn­ar­inn­ar 2009-2013 áfram. Kíkja í pakk­ann var sagt. Enn á að reyna að telja al­menn­ingi trú um að Ísland geti átt sér­stak­ar samn­ingaviðræður við Evr­ópu­sam­bandið um breytt reglu­verk. Viðræður við sam­bandið verða aldrei annað en aðlög­un­ar­viðræður – samn­ing­ar um að fá tíma til aðlög­un­ar við að taka upp lög og stefnumið ESB. Evr­ópu­sam­bandið er ekki að laga sig að Íslandi.

En þótt Kristrún Frosta­dótt­ir hafi sett helsta bar­áttu­málið í geymslu fram yfir kosn­ing­ar er stefn­an óbreytt: „Sam­fylk­ing­in … stefn­ir að fullri aðild að Evr­ópu­sam­band­inu með upp­töku evru að und­an­geng­inni þjóðar­at­kvæðagreiðslu.“

Með sama hætti er stefna Viðreisn­ar skýr: „Ísland á að auka enn frek­ar þátt­töku sína í Evr­ópu­sam­starf­inu og ger­ast full­gild­ur aðili að Evr­ópu­sam­band­inu.“

Flest­ir sem fylgj­ast með ís­lensk­um stjórn­mál­um átta sig á því að fái ESB-flokk­arn­ir braut­ar­gengi í kosn­ing­um verður aft­ur lagt upp í ferðalag til Brus­sel. Feigðarför vinstri­stjórn­ar­inn­ar verður ekki höfð sem víti til varnaðar.

Ný vinstri­stjórn

Sam­fylk­ing­in hef­ur alltaf sveifl­ast fram og til baka í leit að póli­tísk­um til­gangi og nýj­um umbúðum. Einu sinni tók flokk­ur­inn sér stöðu með nokkr­um stór­fyr­ir­tækj­um og um­svifa­mikl­um kaup­sýslu­mönn­um en varð síðan rót­tæk­ur vinstri­flokk­ur rík­is­af­skipta og þungr­ar skatt­heimtu með ein­falda lausn í fartesk­inu – aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Einu sinni létu for­ystu­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sig dreyma um að flokk­ur­inn yrði eitt­hvað sem kallað var vett­vang­ur „ný­sköp­un­ar“ í stjórn­mál­um. Þá tóku vinst­ris­innaðir mennta­menn völd­in og ræt­ur gamla Alþýðuflokks­ins í verka­lýðshreyf­ing­unni slitnuðu. Nú er Sam­fylk­ing­in ein­fald­lega flokk­ur­inn með „plan“; auk­in út­gjöld og hærri skatta. Hug­mynda­fræðin er göm­ul. Íslend­ing­ar fengu að kynn­ast henni þegar Sam­fylk­ing­in var í for­sæti fyr­ir sam­steypu­stjórn með Vinstri-græn­um.

Miðað við skoðanakann­an­ir er ekki ólík­legt að Sam­fylk­ingu og Viðreisn tak­ist að mynda nýja vinstri­stjórn að lokn­um kosn­ing­um með einu eða fleiri vara­dekkj­um. Eng­inn kann bet­ur til verka á póli­tísku hjól­b­arðaverk­stæði en Dag­ur B. Eggerts­son, sem formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar seg­ir að sé í auka­hlut­verki. Óhætt er að ganga út frá því að auka­hlut­verkið sé tíma­bundið og breyt­ist í aðal­hlut­verk inn­an skamms.

Gamla bar­áttu­málið verður dregið út úr geymsl­unni. Sam­an munu Sam­fylk­ing­in og Viðreisn róa í átt­ina að Brus­sel. Jafn­vel þegar hnign­un blas­ir við Evr­ópu­sam­band­inu er aðild heill­andi fyr­ir þessa flokka.

Fjötr­ar eða sköp­un?

Und­ir­stöður Þýska­lands sem efna­hags­legs stór­veld­is eru jafn traust­ar og brauðlapp­ir. Gamla stór­veldið Frakk­land er því miður í raun gjaldþrota. Skort­ur er á orku og lönd sam­bands­ins glíma við minnk­andi sam­keppn­is­hæfni á flest­um sviðum, allt frá mennt­un til tækni og ný­sköp­un­ar. Ótt­inn við að braut­in til efna­hags­legr­ar hnign­un­ar sé mörkuð er ekki ástæðulaus.

Fyr­ir tveim­ur árum hélt Josep Bor­ell ut­an­rík­is­mála­stjóri ESB því fram að efna­hags­leg vel­sæld aðild­ar­ríkj­anna yrði ekki leng­ur byggð á Rússlandi og Kína. Orka frá Rússlandi væri hvorki ódýr né ör­ugg. Aðgang­ur að Kína yrði sí­fellt erfiðari. Í ný­legri skýrslu viður­kenn­ir Mario Drag­hi, fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Evr­ópu, þann mikla vanda sem lönd Evr­ópu­sam­bands­ins glíma við. Lausn­ir sem hann boðar eru í besta falli um­deil­an­leg­ar.

Gi­orgia Meloni for­sæt­is­ráðherra Ítal­íu hef­ur lýst því hvernig Evr­ópa er að verða und­ir í sam­keppni þjóðanna: „Banda­rík­in skapa, Kína af­rit­ar, en Evr­ópa reglu­væðir.“

Vilj­um við Íslend­ing­ar ekki miklu frem­ur vera í hópi þeirra landa sem skapa en vera í fjötr­um reglu­gerða frá Brus­sel?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. nóvember 2024.