Kristinn Karl Brynjarsson formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins:
Það er afar athyglisvert að fylgjast með Samfylkingunni búa þjóðina undir áform sín um skattahækkanir með því að benda á að skattbyrði launafólks hafi nú aukist frá 2013 í tíð Sjálfstæðisflokksins. Með því er svona undir kratarós verið að gefa í skyn að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hækkað skatta á launafólk frá árinu 2013.
Það er auðvitað alger fjarstæða að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hækkað skatta á launafólk þótt skattbyrðin hafi aukist. Reyndar er staðreyndin sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lækkað skatta á launafólk, síðast í tengslum við lífskjarasamningana sem gerðir voru árið 2019. Vandinn er bara sá, ef hægt er að tala um vanda, að á vakt Sjálfstæðisflokksins hafa laun hækkað gríðarlega og þá einkum og sér í lagi lægstu launin.
Hækkun launa
Frá árinu 2013 hafa lágmarkslaun hækkað um 100% og meðallaun um 85%. Stærsta synd Sjálfstæðisflokksins er því að hafa ekki hækkað persónuafsláttinn til samræmis við þessar launahækkanir svo að skattbyrðin héldist óbreytt. Samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar hefur verðlag hækkað um 57,2% frá árinu 2013. Þannig að einhver er nú kaupmáttaraukningin.
Áróðursbragð
Það má vel vera að Samfylkingin byggi þetta áróðursbragð sitt á gögnum Hagstofunnar og bara allt gott um það að segja. En það er ekki vænlegt til góðrar niðurstöðu að nýta bara hismið en henda kjarnanum.
Kjarninn er að sjálfsögðu sá, að þrátt fyrir allt og allt, farsótt af völdum kórónuveiru, stríð í Evrópu og náttúruhamfarir á Reykjanesskaga, þá tókst á vakt Sjálfstæðisflokksins að viðhalda hér miklum lífsgæðum, jafnvel gera þau meiri með góðri stígandi í kaupmætti launa og þá ekki síst þeirra lægst launuðu.
Það má því fullyrða að þetta áróðursbragð Samfylkingarnar sé í allra besta falli hálfsannleikur. Fólk getur svo fundið út hvað kalla má hinn helminginn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember 2024.