8. nóvember 2024

Tálsýn borgarstjóra

Í vikunni kynnti borgarstjóri þá tálsýn að borgin væri vel rekin. Sagði hann viðsnúning hafa orðið í rekstri borgarinnar í kjölfar umfangsmikilla hagræðingaraðgerða síðustu tveggja ára. Útkomuspá fyrir rekstur borgarsjóðs gerði nú ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu. Það sem borgarstjóri lét þó hjá líða að nefna var að allt hangir þetta á þeirri óskhyggju að Perlan seljist fyrir áramót.

Að hagræða sannleikanum

Þegar tölurnar eru rýndar kemur í ljós að launakostnaður jókst um 7,2 milljarða milli ára og rekstrarkostnaður sömuleiðis um 5,3 milljarða. Starfsfólki hélt jafnframt áfram að fjölga, einna helst í yfirbyggingunni. Hvergi eru yfirlýstar hagræðingar í sjónmáli.

Samhliða hækkuðu tekjur borgarinnar hins vegar um 17,3 milljarða. Vandi borgarinnar er því ekki tekjuvandi, heldur útgjaldavandi, enda hefur starfsmannafjöldi og rekstrarkostnaður aukist langt umfram lýðfræðilega þróun síðasta áratug. Fullyrðingar borgarstjóra um sögulegar hagræðingar eru sjónhverfingar sem standast enga skoðun. Hér hefur engu verið hagrætt nema sannleikanum.

Hvað myndir þú gera við peninginn?

Rekstrarvandi borgarinnar spannar langt skeið. Ef sérstaklega er skoðað tímabilið 2014 til 2023 má rýna hvernig reksturinn þróaðist í borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar.

Frá því borgarstjóri tók við árið 2014 og þar til hann færði sig í starf formanns borgarráðs jókst skattbyrði á hvert heimili með meðaltekjur um 675 þúsund krónur árlega, á föstu verðlagi. Útsvar í Reykjavík er nú í lögbundnu hámarki, og fasteignaskattar þeir hæstu á höfuðborgarsvæðinu. Síaukin skattheimta hefur síður en svo leitt til betri þjónustu enda mælast lífsgæði minnst í Reykjavík. Óráðsíðan í rekstri borgarinnar bitnar beint á heimilunum í Reykjavík.

Horfumst í augu við vandann

Arðgreiðslur, tekjur af sölu byggingarréttar og ætlaður hagnaður af sölu Perlunnar nema 12,4 milljörðum króna í útkomuspá fyrir 2024. Ef þessara tekna nyti ekki við væri niðurstaðan af rekstri borgarinnar um 11,8 milljarða halli! Það blasir við að rekstur borgarinnar er fullkomlega ósjálfbær.

Það er löngu tímabært að horfast í augu við vandann. Við þurfum að ráðast í hagræðingar, minnka yfirbygginguna og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Samhliða þarf að útvista fleiri verkefnum og láta af samkeppnisrekstri. Einungis þannig náum við árangri.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2024.