Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Rekstur Reykjavíkurborgar er ekki sjálfbær og stendur borgin frammi fyrir miklum og vaxandi skuldavanda. Þetta kemur fram í frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2025, sem lagt var fram í borgarstjórn sl þriðjudag, 5. nóvember. Frumvarpið sýnir að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar hefur ekki tök á fjármálum borgarinnar og að rekstur hennar er ósjálfbær.
Borgarsjóður mun skila 531 milljónar króna rekstrarafgangi árið 2024 samkvæmt útkomuspá. Er það mun betri árangur en á síðasta ári þegar borgarsjóður var gerður upp með næstum fimm milljarða króna tapi. Hins vegar hefur verið upplýst að væntanlegur rekstrarafgangur í ár standi og falli með því að sala Perlunnar verði að veruleika fyrir áramót. Það er sýnd veiði en ekki gefin.
Jákvæð rekstrarniðurstaða er vissulega fagnaðarefni út af fyrir sig. Hún er hins vegar ekki tilkomin vegna aðhalds og hagræðingar eins og borgarfulltrúar vinstri meirihlutans halda fram. Rekstur borgarsjóðs á að skila afgangi og hann á að standa undir skuldum og skuldbindingum á hverjum tíma án þess að gengið sé á eignir.
Skatttekjur standa ekki undir grunnrekstri borgarinnar eins og þær ættu að gera. Meintur rekstrarafgangur skýrist því annars vegar af mikilli tekjuaukningu og hins vegar af eignasölu og arðgreiðslum frá borgarfyrirtækjum.
Samkvæmt útkomuspá hækka rekstrartekjur borgarsjóðs um tólf milljarða króna á milli ára eða tæp 10%. Rekstrargjöld hækka hins vegar um tæpa ellefu milljarða eða 6,4%.
Mikil tekjuaukning samstæðu
Samstæða Reykjavíkurborgar mun samkvæmt útkomuspá auka rekstrartekjur sínar um tæpa 26 milljarða króna milli áranna 2023-2024 eða um 10%. Rekstrargjöld aukast hins vegar um 16 milljarða króna eða 7,8%.
Samkvæmt gildandi frumvarpi að fjárhagsáætlun átti samstæða Reykjavíkurborgar að skila 7.310 milljóna króna rekstrarafgangi á árinu 2024. Samkvæmt útkomuspá verður rekstrarafgangurinn 8.092 milljónir króna. Um fimm milljarðar af þessum rekstrarhagnaði samstæðunnar er tilkominn vegna matsbreytingar fjárfestingareigna. Það þýðir að aukið verðmæti félagslegra íbúða er bókað sem hagnaður í bækur borgarinnar. Er það froðuhagnaður, sem skapar í raun engar tekjur fyrir borgina en fegrar stöðu áætlana hennar og reikninga sem því nemur.
527 milljarða skuldir
Samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun 2024 áttu skuldir samstæðu borgarinnar að nema rúmlega 515 milljörðum í árslok 2024. Samkvæmt nýbirtri útkomuspá verða skuldir samstæðunnar hins vegar orðnar 527 milljarðar króna um næstu áramót. Frávik frá áætlun nemur þarna rúmum 11 milljörðum króna. Samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun munu skuldir samstæðunnar enn hækka á næsta ári og nema tæpum 558 milljörðum króna í árslok 2025.
Í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir því að skuldir borgarsjóðs næmu um 208 milljörðum króna í árslok 2024 en samkvæmt útkomuspá verða þær um einum milljarði lægri. Samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir því að skuldir borgarsjóðs haldi áfram að hækka á næsta ári og nemi tæpum 218 milljörðum króna í lok þess.
Sem fyrr er því aukin skuldsetning einkennandi fyrir fjármálastefnu vinstri meirihlutans í borgarstjórn. Ef skuldir Reykjavíkurborgar halda áfram að aukast um tugi milljarða á ári, stefnir borgin í greiðsluþrot innan nokkurra ára.
Áframhaldandi hækkun skulda
Samkvæmt frumvarpinu mun samstæða Reykjavíkurborgar auka skuldir sínar um rúma 62 milljarða króna á tveimur árum, 2024-2025 eða um 31 milljarð hvort ár.
Afar mikilvægt er að fjármál Reykjavíkurborgar verði tekin föstum tökum í því skyni að ná stjórn á fjármálunum og láta af skuldasöfnun. Til þess þarf að endurskoða allan rekstur og ráðast í víðtækan sparnað og hagræðingu. Sem fyrr eru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reiðubúnir til samvinnu við meirihlutann um raunverulegar aðgerðir að þessu leyti.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 2024.