Óli Björn Kárason alþingismaður:
Formaður Samfylkingarinnar segist vera með „plan“ og heldur því raunar fram að Samfylkingin sé eini flokkurinn sem sé með „plan“. Það skal játað að það fara nokkur ónot um mig þegar stjórnmálamenn segjast vera með „plan“. Íbúar höfuðborgarinnar hafa fengið að kynnast alls konar „plönum“ undir forystu flokksins sem nú stefnir að því að færa Reykjavíkur-módelið yfir á landið allt.
Fáir eru betri en vinstri menn í að pakka hugmyndum og skoðunum sínum inn í fallegar umbúðir. Orðaskraut er þeim eðlislægt. Fólk sem byggir á hugmyndafræði stjórnlyndis og afskipta af lífi einstaklinga og fólks – er sannfært um að mannlegt samfélag sé lítið annað en samfélagsverkfræði – er alltaf tilbúið með lítil og stór „plön“ undir formerkjum jafnréttis og jöfnuðar.
Þegar umbúðirnar eru teknar utan af „planinu“ blasir hins vegar við gömul og úrelt hugmyndafræði vinstri manna; aukin útgjöld og hærri skattar. Í sinni einföldu mynd er formaður Samfylkingarinnar að boða yfir 100 milljarða króna í aukin ríkisútgjöld og a.m.k. sambærilega hækkun skatta. Og við vitum að þar verður fyrst og síðast farið í að hækka skatta á launafólk í formi tekjuskatta og virðisaukaskatts. Og um leið verður ráðist að og grafið undan einyrkjum og sjálfstætt starfandi atvinnurekendum.
Innihaldið breytist ekki
Þegar Samfylkingin tekur að sér forystu með aðstoð annarra, endar allt á sama veg. Möguleikar ungs fólks til að skapa sér eigin framtíð minnka og lífskjör millistéttarinnar verða lakari enda verður hún að bera þyngstu byrðarnar af skattagleði vinstri manna. Dreginn er máttur úr atvinnulífinu og þar með möguleikum okkar til að standa með sómasamlegum hætti undir velferðarkerfinu. Samfylkingar geta reynt að pakka „planinu“ í kjósendavænar umbúðir en innihaldið breytist ekkert.
Annars er merkilegt hve Samfylkingin er viðkvæm fyrir því að bent sé á að stóri draumurinn sé að yfirfæra Reykjavíkur-módelið yfir á landstjórnina. Svo viðkvæm að reynt er að fela fyrrverandi borgarstjóra og gera lítið úr hlutverki hans í komandi kosningum. Þó er ljóst að borgarstjórinn fyrrverandi er á leið á þing og verður áhrifamestur í þingflokki Samfylkingarinnar. Ef mál þróast svo að Samfylkingin geti myndað ríkisstjórn þá verður arkitektinn ekki formaðurinn heldur borgarstjórinn fyrrverandi. Enginn hefur meiri reynslu af því að draga aðra flokka til samstarfs. Það eru óneitanlega pólitískir hæfileikar að tapa hverjum kosningum á fætur öðrum en tryggja sér völdin með því að útvega sér varadekk annarra flokka.
Pólitísk klókindi borgarstjórans fyrrverandi hafa reynst borgarbúum dýrkeypt. Fjárhagur borgarinnar er í rúst og undir opinberu eftirliti, skipulagsmál eru í öngstræti og hafa leitt til lóðaskorts, hærra íbúðaverðs og hærri verðbólgu og samgöngur eru í ólestri. Eins og foreldrar leikskólabarna þekkja af eigin raun eru biðlistar meginregla í þjónustu borgarinnar en stjórnkerfið þenst út.
Ár glataðra tækifæra
Kjósendur þurfa ekki að líta til Reykjavíkurborgar til að átta sig á því hvað bíður ef Samfylkingin kemst til valda að loknum kosningum. Ár hinna glötuðu tækifæra – 2009 til 2013 – verða endurtekin undir forsæti Samfylkingarinnar. Enn og aftur verður lagt til atlögu að grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, allt sem hreyfist verður skattlagt, en fráleitt er í hugum vinstri menn annað en „fullnýta“ tekjustofna. Með dyggum stuðningi eins varadekksins úr vinstri meirihluta borgarstjórnar verður ESB-skollaleikurinn endurtekinn.
Ný vinstri stjórn Samfylkingarinnar sækir í kistur ríkisstjórnar hinna glötuðu tækifæra. „Planið“ verður í anda „you-ain’t-seen-nothing-yet“ og skattkerfinu verður umbylt. Í sælulandi vinstri manna er alltaf sótt sérstaklega að millistéttinni og atvinnulífinu. Eignarskattar – auðlegðarskattar – verða teknir upp að nýju og eldri borgarar verða fórnarlömbin. Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður hressilega og aftur verða eldri borgarar fyrir barðinu á skattmann og samhliða dragast fjárfestingar saman og sparnaður minnkar. Eina sem er óljóst er hvort fyrst verði gerð aðför að einyrkjum og sjálfstæðum atvinnurekendum eða hvort áhlaup á sjávarútveg komi á undan um leið og grafið er undan ferðaþjónustu með auknum álögum.
Við höfum reynslu af skattagleðinni frá tíma vinstri stjórnar hinna glötuðu tækifæra og frá Reykjavíkurborg. Að nýta sameiginlega fjármuni með skilvirkari hætti og endurskipuleggja ríkisreksturinn er fjarlæg hugmynd og ekki hluti af „planinu“ góða sem formaður Samfylkingarinnar boðar af sannfæringu. Atvinnulífið neyðist til að halda að sér höndum enda dregið skipulega úr þrótti þess. Laun lækka og störfum fækkar. Í stað sóknar verður stöðnun, svo samdráttur og lakari lífskjör. Öll fögru kosningaloforðin gufa upp eins og dögg fyrir sólu. Ríkissjóður verður rekinn með vaxandi halla, verðbólga eykst og skuldir hækka. Gamla vítisvélin fer aftur í gang og „planið“ verður illa lyktandi á skrifborðum kerfisins.
Í upphafi kosningabaráttunnar eru fulltrúar stjórnarandstöðunnar með Samfylkinguna í fararbroddi og varadekkin úr borgarstjórn í eftirdragi, uppteknir af því að mála upp dökka mynd af stöðu efnahagsmála. Neita að sjá ljósið eða viðurkenna að þrátt fyrir þung efnahagsleg áföll hefur tekist að verja lífskjör almennings og styrkja stoðir velferðarkerfisins. Eins og svo oft áður virðist vinstri mönnum vera fyrirmunað að sjá eða skynja tækifærin sem blasa við í íslensku efnahagslífi. Neita að trúa því að framtíðin sé björt ef rétt er staðið að málum og komið í veg fyrir að „plan“ vinstri stefnunnar og stjórnarhátta „you-ain‘t-seen-nothing-yet“ nái fram að ganga.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. nóvember 2024.