Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Við ætlum að afstýra neyðarástandi í skólakerfinu með kraftmiklum aðgerðum. Um helmingur drengja og þriðjungur stúlkna eru ekki með grunnfærni í lesskilningi. Það er óviðunandi.
Við stöndum því á tímamótum. Við getum látið reka á reiðanum eða skapað samfélag þar sem hvert barn blómstrar í skóla. Miklu fjármagni er varið í grunnskólakerfið en árangurinn er ekki eftir því. Í samfélagi sem byggist á jöfnum tækifærum er það óviðunandi að stór hluti barna hafi ekki grunnfærni í lesskilningi eftir tíu ára skyldunám.
Afleiðingar slaks námsárangurs eru alvarlegar og m.a. þær að börn njóta ekki jafnra tækifæra. Smám saman molnar undan lýðræðinu og samkeppnishæfni okkar Íslendinga dalar – sem rýrir lífsgæði okkar allra. Þjóðir sem ná árangri í menntamálum búa við bestu lífskjörin – þar viljum við Íslendingar vera og þar getum við verið. Þess vegna boðar Sjálfstæðisflokkurinn stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu.
Snúum vörn í sókn
Markmiðið er skýrt: að snúa vörn í sókn. Allir nemendur eiga að geta lesið og skilið texta við hæfi eftir yngsta stig grunnskólans í stað þess að stór hluti ráði ekki við það. Til að árangur náist þarf að bæta íslenskt málumhverfi í leikskólum landsins og tryggja starfsfólki sem þarf íslenskukennslu. Við verðum að fylgjast betur með lestrarkunnáttu, mæla hana og grípa fyrr inn ef þess gerist þörf til þess að missa ekki af nemendum sem hafa ekki náð tökum á lestri og ritun. Gera þarf nýja aðalnámskrá sem er skýr og góður leiðarvísir. Leggja niður námsmat byggt á bókstöfum og gera það skiljanlegt fyrir nemendur og foreldra. Við ætlum að taka aftur upp samræmd próf og tryggja stórbætt námsgögn. Einnig leggjum við til að skólar verði símalausir og hreyfing verði hluti af hverjum degi.
Endurskilgreinum skóla án aðgreiningar
Þá þarf að endurskilgreina hugmyndina um skóla án aðgreiningar til að auka val foreldra og tryggja að allir nemendur sem mögulega þurfa aukinn stuðning fái hann. Ljóst er að hluta nemenda getur farnast betur í sérúrræðum og því mikilvægt að meta hvernig og hvort skóli án aðgreiningar nái markmiðum um að tryggja velsæld og árangur allra barna í skólum landsins. Foreldrar barna eiga að hafa frelsi til þess að velja en sú er ekki raunin í dag.
Staða grunnskólans er í forgangi en aðgerðirnar fjalla þó líka um önnur skólastig og kveða m.a. á um mikilvægi virðingar fyrir kennarastarfinu og öðru starfsfólki, að endurskoða kennaramenntun, fleiri komist í iðnnám, að gervigreind sé innleidd í allt háskólanám, að komið verði á fót móttökuskólum og/eða deildum til að mæta þörfum hvers barns betur, að minnka brotthvarf og auka geðheilbrigðisþjónustu.
Kjósum um menntun og framtíðina
Með aðgerðum okkar í Sjálfstæðisflokknum ætlum við að snúa vörn í sókn. Við getum horft fram á bjartari tíma í menntamálum. Með þessum aðgerðum stuðlum við að jafnari tækifærum nemenda, betri líðan barna og fjölgun möguleika þeirra. Betur menntuð þjóð getur skapað fleiri tækifæri og öflugri fyrirtæki sem auka lífsgæði allra. Til þess þurfum við að styrkja grunninn, tryggja að allir geti lesið sér til gagns.
Við ætlum að setja skýr markmið um árangur og koma íslensku menntakerfi á þann stað sem það á heima: í flokk þeirra þjóða sem skara fram úr. Börnin okkar eru það mikilvægasta í lífi okkar allra og þau eiga skilið að fá fólk við stjórnvölinn sem setur þau í fyrsta sæti, bæði í orði og á borði. Tökum höndum saman, foreldrar, afar, ömmur og aðrir, látum verkin tala og styðjum raunverulegan árangur í menntamálum.
Kjósum Sjálfstæðisflokkinn.
Hægt er að kynna sér tillögurnar í heild á www.xd.is/menntamal
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 2024.