Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Undanfarið hef ég aftur orðið vör við umræðu sem felur í sér fegraða mynd af stöðu fólks í heimi evrunnar. Þannig er reynt að telja fólki trú um að vextirnir á húsnæðislánunum væru mun lægri með evrunni og vísað til erlendra fordæma því til rökstuðnings. Það eitt og sér er alveg rétt, en það þarf þó í þessu samhengi að taka tillit til annarra þátta í hagkerfinu, t.d. launaþróunar og vinnumarkaðar. Þau ríki sem búa við lægri vexti búa líka við lægri laun, minni kaupmátt, verri lífeyri o.s.frv.
Þó margir vilji draga upp einfalda mynd af raunveruleikanum hafa þessir sömu aðilar þó ekki gengið svo langt að halda því fram að við getum búið við evrópska vexti en íslensk laun – enda væri um ósvífna blekkingu að ræða. Þess í stað hafa menn bara sleppt því að tala um vinnumarkaðinn, atvinnuleysi og annað sem kann að kasta rýrð á þessa fögru mynd.
Það má ræða kosti og galla krónunnar og það getur vel farið svo að einhvern daginn muni það henta okkur betur að taka upp annan gjaldmiðil. Sú umræða þarf þó að byggjast á raunverulegum gögnum og þeim upplýsingum sem fyrir liggja, ekki bara óskhyggju og alls ekki villandi framsetningu og óraunhæfum loforðum um betri kjör og betra líf.
Stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina oft reynt að varpa fram einföldum lausnum við flóknum vandamálum, yfirleitt óraunhæfum en oft á tíðum villandi. Það má taka sem dæmi umræðu um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru sem skýtur reglulega upp kollinum, þá sérstaklega þegar gefur á bátinn í efnahagslegu tilliti.
Ein af þeim bábiljum sem lagðar hafa verið fram í þessari umræðu er sú að fram fari einhvers konar samningaviðræður við ESB. Raunin er þó sú að um aðlögunarferli er að ræða – þar sem íslenskt stjórnkerfi er aðlagað regluverki ESB. Það var reynt í tíð vinstristjórnarinnar sem sat á árunum 2009-2013 en íslensk stjórnvöld gáfust sjálf upp í ferlinu.
Annað sem hefur verið kynnt í þessu samhengi er að Ísland geti fengið undanþágu til að flýta upptöku evru. Það liggur alveg skýrt fyrir að upptaka evru felur í sér langt og strangt ferli og eftir það sem á undan er gengið í hagkerfum Evrópusambandsríkja er ekki gefinn neinn afsláttur af því.
Við eigum að horfa til aukinnar þátttöku í alþjóðakerfinu og nýta okkur kosti alþjóðaviðskipta, enda byggist hagsæld hins vestræna heims að miklu leyti á auknum og frjálsari alþjóðaviðskiptum. Við eigum líka að líta til þeirra hagkerfa sem ganga vel, en það þarf ekki annað en að horfa í hagtölur evruríkja síðustu ára til að sjá að það eru ekki endilega ríkin sem við viljum taka okkur til fyrirmyndar.
Hvað sem því líður, þá eigum við að koma fram við kjósendur af þeirri virðingu sem þeir eiga skilið og segja hlutina eins og þeir eru – ekki eins og við höldum að þeir verði kannski mögulega einhvern veginn einhvern tímann bara við það að taka upp evru.