Einfaldar lausnir við flóknum vanda
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Und­an­farið hef ég aft­ur orðið vör við umræðu sem fel­ur í sér fegraða mynd af stöðu fólks í heimi evr­unn­ar. Þannig er reynt að telja fólki trú um að vext­irn­ir á hús­næðislán­un­um væru mun lægri með evr­unni og vísað til er­lendra for­dæma því til rök­stuðnings. Það eitt og sér er al­veg rétt, en það þarf þó í þessu sam­hengi að taka til­lit til annarra þátta í hag­kerf­inu, t.d. launaþró­un­ar og vinnu­markaðar. Þau ríki sem búa við lægri vexti búa líka við lægri laun, minni kaup­mátt, verri líf­eyri o.s.frv.

Þó marg­ir vilji draga upp ein­falda mynd af raun­veru­leik­an­um hafa þess­ir sömu aðilar þó ekki gengið svo langt að halda því fram að við get­um búið við evr­ópska vexti en ís­lensk laun – enda væri um ósvífna blekk­ingu að ræða. Þess í stað hafa menn bara sleppt því að tala um vinnu­markaðinn, at­vinnu­leysi og annað sem kann að kasta rýrð á þessa fögru mynd.

Það má ræða kosti og galla krón­unn­ar og það get­ur vel farið svo að ein­hvern dag­inn muni það henta okk­ur bet­ur að taka upp ann­an gjald­miðil. Sú umræða þarf þó að byggj­ast á raun­veru­leg­um gögn­um og þeim upp­lýs­ing­um sem fyr­ir liggja, ekki bara ósk­hyggju og alls ekki vill­andi fram­setn­ingu og óraun­hæf­um lof­orðum um betri kjör og betra líf.

Stjórn­mála­menn hafa í gegn­um tíðina oft reynt að varpa fram ein­föld­um lausn­um við flókn­um vanda­mál­um, yf­ir­leitt óraun­hæf­um en oft á tíðum vill­andi. Það má taka sem dæmi umræðu um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og upp­töku evru sem skýt­ur reglu­lega upp koll­in­um, þá sér­stak­lega þegar gef­ur á bát­inn í efna­hags­legu til­liti.

Ein af þeim bá­bilj­um sem lagðar hafa verið fram í þess­ari umræðu er sú að fram fari ein­hvers kon­ar samn­ingaviðræður við ESB. Raun­in er þó sú að um aðlög­un­ar­ferli er að ræða – þar sem ís­lenskt stjórn­kerfi er aðlagað reglu­verki ESB. Það var reynt í tíð vinstri­stjórn­ar­inn­ar sem sat á ár­un­um 2009-2013 en ís­lensk stjórn­völd gáf­ust sjálf upp í ferl­inu.

Annað sem hef­ur verið kynnt í þessu sam­hengi er að Ísland geti fengið und­anþágu til að flýta upp­töku evru. Það ligg­ur al­veg skýrt fyr­ir að upp­taka evru fel­ur í sér langt og strangt ferli og eft­ir það sem á und­an er gengið í hag­kerf­um Evr­ópu­sam­bands­ríkja er ekki gef­inn neinn af­slátt­ur af því.

Við eig­um að horfa til auk­inn­ar þátt­töku í alþjóðakerf­inu og nýta okk­ur kosti alþjóðaviðskipta, enda bygg­ist hag­sæld hins vest­ræna heims að miklu leyti á aukn­um og frjáls­ari alþjóðaviðskipt­um. Við eig­um líka að líta til þeirra hag­kerfa sem ganga vel, en það þarf ekki annað en að horfa í hag­töl­ur evru­ríkja síðustu ára til að sjá að það eru ekki endi­lega rík­in sem við vilj­um taka okk­ur til fyr­ir­mynd­ar.

Hvað sem því líður, þá eig­um við að koma fram við kjós­end­ur af þeirri virðingu sem þeir eiga skilið og segja hlut­ina eins og þeir eru – ekki eins og við höld­um að þeir verði kannski mögu­lega ein­hvern veg­inn ein­hvern tím­ann bara við það að taka upp evru.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember 2024.