Léleg lánskjör eru ekki fagnaðarefni
'}}

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Reykjavíkurborg aflýsti skuldabréfaútboði, sem hún áformaði að halda í gær, miðvikudaginn 30. október 2024. Er þetta fjórða útboðið, sem borgin fellir niður á árinu. Tíð niðurfelling útboða endurspeglar versnandi lánskjör borgarinnar og minnkandi áhuga fjárfesta á skuldabréfum hennar í fyrri útboðum. Erfiður fjárhagur borgarinnar og slök áætlanagerð hefur þau áhrif að markaðurinn býst við miklu framboði af borgarbréfum og álagið er eftir því.

Undanfarin ár hafa skuldabréfaútboð og aðrar lántökur verið mikilvirkasta úrræði meirihluta borgarstjórnar til að fjármagna gífurlegan hallarekstur Reykjavíkurborgar. Frá árinu 2020 hefur borgin sótt um 65 milljarða króna á innlendan skuldabréfamarkað en einnig tekið um tólf milljarða króna langtímalán hjá viðskiptabönkum.

Áætlað er að borgarsjóður taki lán fyrir allt að 16.500 milljónir króna að markaðsvirði á yfirstandandi ári samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun. Síðasta skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar fór fram í september en þremur útboðum, sem halda átti þar á undan, í maí, júní og ágúst, var aflýst.

Í septemberútboðinu seldi Reykjavíkurborg verðtryggð skuldabréf með lokagjalddaga árið 2044 fyrir samtals 4.130 milljónir króna að nafnvirði með ávöxtunarkröfunni 3,90%.. Í næsta útboði á undan, í apríl sl., tók borgin tilboðum í verðtryggð skuldabréf með lokagjalddaga 2053 á ávöxtunarkröfunni 3,45%.

Lélegum lánskjörum fagnað

Þegar verðbólga er 5-6% verður ekki fram hjá því litið að Reykjavíkurborg er að fjármagna sig á afar háum vöxtum þar sem um verðtryggð skuldabréf er að ræða. Það eru afarkjör fyrir stóran opinberan aðila eins og Reykjavíkurborg og síður en svo fagnaðarefni. Takmarkaður áhugi fjárfesta á skuldabréfum borgarinnar er helsta ástæðan fyrir þeim afarkjörum, sem hún verður að sætta sig við.

Við afgreiðslu skuldabréfaútboðsins í september, sáu fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar ástæðu til að lýsa yfir ánægju sinni í borgarráði með góðar viðtökur markaðarins við nýjum skuldabréfaflokki og lækkandi markaðsálagi. Það vekur athygli að vinstri meirihlutinn skuli sjá ástæðu til að fagna svo slökum lánskjörum. Fögnuðinn má líklega rekja til þess að fulltrúar meirihlutans hrósa happi yfir því að borgin sé enn fær um að ná í nokkra milljarða króna með útgáfu skuldabréfa þótt á afarkjörum sé.

Miklar skuldir

Reykjavíkurborg er orðin mjög berskjölduð fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Gífurlegar skuldir og há verðbólga gerir að verkum að fjármagnsgjöld eru orðin ein helsta stærðin í bókhaldinu.

Skuldir borgarsjóðs námu 198 milljörðum króna um síðustu áramót og höfðu þá hækkað um tæpa 24 milljarða á milli ára. Samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun eiga skuldirnar að nema tæpum 209 milljörðum króna í lok ársins. Um mitt ár voru skuldirnar orðnar tæpir 205 milljarðar.

Heildarskuldir samstæðu borgarinnar námu 495 milljörðum króna um síðustu áramót og höfðu þá hækkað um rúma fimmtíu milljarða á milli ára. Samkvæmt fjárhagsáætlun var áætlað að skuldirnar næmu 516,5 milljörðum króna í árslok. Þegar árið var hálfnað voru skuldirnar orðnar 511,6 milljarðar.

Áhyggjur eftirlitsnefndar

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi borgarstjórn áminningarbréf nú í október vegna ársreiknings 2023. Í bréfinu kemur fram að á því ári hafi borgin aðeins fullnægt tveimur af sex lágmarksviðmiðum nefndarinnar varðandi rekstur sveitarfélaga. Skuldir séu yfir skuldaviðmiði, skuldahlutfall of hátt, rekstrarniðurstaða neikvæð og framlegð of lítil m.v. rekstrartekjur.

Háar skuldir og versnandi lánskjör Reykjavíkurborgar eru uggvænleg vísbending um fjárhagsstöðu hennar. Vandinn verður ekki leystur með áframhaldandi hallarekstri og skuldasöfnun.

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 verður lagt fram í borgarstjórn þriðjudaginn 5. nóvember nk. Vonandi tekst að binda enda á langt tímabil taprekstrar og skuldasöfnunar hjá Reykjavíkurborg á komandi ári.

Greinin birtist 31. október 2024.