Óli Björn Kárason alþingismaður:
Engu er líkara en að formaður Samfylkingarinnar forðist fjölmiðla og opinbera umræðu í aðdraganda kosninga. Kannski í þeirri von að hægt sé að komast hjá því að svara óþægilegum spurningum (s.s. um stóraukna skattheimtu, Dag B. Eggertsson eða fjárhagsstöðu og þjónustu Reykjavíkurborgar undir forystu Samfylkingarinnar) eða segja eitthvað sem fær kjósendur til að hugsa sig tvisvar um hvort rétt sé að veðja á vinstriflokk sem leggur meira upp úr því að hækka skatta en stækka þjóðarkökuna og sneið launafólks í henni.
Munurinn á hugmyndafræði samfylkingar- og sjálfstæðismanna kom ágætlega fram í óundirbúnum fyrirspurnum á þingi 11. mars síðastliðinn. Þá gagnrýndi Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar ríkisstjórnina fyrir „sársaukafullan“ niðurskurð undir lok liðins árs og ófjármögnuð áform um útgjöld vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Kristrún krafði fjármálaráðherra svara við því hvort ráðist yrði „í niðurskurð, til að mynda hjá opinberum aðilum sem bitnar á þeim aðilum sem eiga eftir að sækja kjör sín“. Hún vildi einnig fá að vita hvort fjármálaráðherra hefði „skoðað tillögur Samfylkingarinnar varðandi fjármögnun, hvort sem það er hækkun fjármagnstekjuskatts, veiðigjalds eða afturköllun á bankaskatti, að hluta til eða öllu leyti“.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins var fjármálaráðherra á þessum tíma. Svar hennar gefur góða innsýn í hvernig sjálfstæðismenn nálgast ríkisreksturinn og skattheimtuvald: „Mig langar að vita hvort háttvirtur þingmaður sér engin tækifæri til að spara hjá hinu opinbera vegna þess að ég geri það. Ég sé mikil tækifæri til að fara betur með almannafé.“
Þórdís Kolbrún bætti við: „Mér þykir eðlileg krafa af hálfu fjárveitingavaldsins og stjórnvalda að skoða það á hverjum degi hvort farið er eins vel með annarra manna peninga og kostur er. Svar við því núna er að það eru tækifæri og þess vegna segi ég: Það er sú leið sem við förum og hún þarf ekki að vera sársaukafull.“
„Tekjulækkunarhrina“
Samfylkingin undir forystu Kristrúnar Frostadóttur með Dag B. Eggertsson sem aukaleikara (en þó örugglega aðeins til að byrja með) hefur gefið út eitt skýrt kosningaloforð: Skattar verða hækkaðir komist flokkurinn til valda.
Viðhorf Samfylkingar til skattheimtu hefur lengi legið skýrt fyrir. Skattalækkanir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum eru eitur í beinum þeirra. Í október 2023 gagnrýndi Kristrún Sjálfstæðisflokkinn fyrir að „hafa á tíu árum tekið 95 milljarða út úr árlegum tekjustofni hins opinbera“. Formaður Samfylkingarinnar kallaði skattalækkanir frá 2013 tekjulækkunarhrinu og hélt því fram að tugir milljarða hefðu verið fjarlægðir úr „tekjugrunni“ ríkissjóðs.
Kristrún er í góðum hópi skattaglaðra stjórnmálamanna sem líta svo á að verið sé að „veikja“ tekjustofna, „afsala“ ríkissjóði tekjum og „kasta“ tekjum frá ríkinu þegar slakað er á skattaklónni. Með lækkun skatta sé verið að „taka“ og „fjarlægja“ fjármuni úr tekjugrunni ríkisins. Sjálfsaflafé launafólks og eignir eru fyrst og síðast hluti af tekjugrunni ríkisins. Formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, Guðmundur Ari Sigurjónsson, endurvakti vondar minningar margra frá tíð vinstristjórnar 2009 til 2013 undir forsæti Samfylkingarinnar, í viðtali í Spursmálum mbl.is fyrir nokkrum dögum. Guðmundur Ari, sem skipar annað sæti flokksins í Suðvesturkjördæmi, var trúr formanni sínum. Hann var hreinskilinn í að boða umfangsmikla hækkun skatta.
Átakalínur stjórnmálanna
Ég hef haldið því fram að átakalínur stjórnmálanna markist ekki síst af viðhorfi til skattheimtu og virðingu eða virðingarleysi gagnvart launafólki og dugnaði framtaksmanna.
Skattaglaðir stjórnmálamenn, sem Kristrún Frostadóttir hefur tekið að sér að veita leiðsögn og forystu, trúa því í einlægni að hærri skattar séu ávísun á aukna velmegun. Þeir hafna því að hærri skattar letji einstaklinga til að afla meiri tekna og skapa eitthvað nýtt, taka áhættu og stofna fyrirtæki. Þeir telja ekki skynsamlegt að launafólk fái að halda meiru eftir í launaumslaginu en vilja fremur að það treysti á flókið millifærslukerfi stjórnmála- og embættismanna. Þessa vegna verður tekjuskattur hækkaður samhliða skatti á fjármagnstekjur um leið og gerð verður atlaga að einyrkjum og sjálfstæðum atvinnurekendum. Handan við hornið er sérstakur eignaskattur. Fátt fær að vera í friði í skattagleðinni.
Gegn þessari hugmyndafræði hefur Sjálfstæðisflokkurinn barist enda hefur reynslan sýnt að okkur vegnar best þegar hófsemdar er gætt í skattheimtu. Lægri skattar eru vítamín efnahagslífsins sem ríki og sveitarfélög njóta góðs af. Þrátt fyrir lækkun skatta frá 2013 hafa tekjur hins opinbera aukist verulega. Vandi í opinberum fjármálum er ekki tekjuvandi heldur útgjaldavandi.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var skýr í ræðu sinni á flokksráðsfundi í lok ágúst þegar hann benti á að það væri sanngjörn krafa að „samfélagið allt fái betri þjónustu fyrir þá skatta, sem nú þegar renna til ríkis og sveitarfélaga“. Í stað aukinnar skattheimtu og þyngri byrðar á launafólk og fyrirtæki leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á hagkvæmari nýtingu sameiginlegra fjármuna með aðhaldi, útvistun verkefna, fækkun stofnana, sparnaði í stjórnsýslu, sölu opinberra fyrirtækja og fjárfestingu í stafrænni stjórnsýslu og aukinni notkun gervigreindar.
Vonir Samfylkinga er að geta tekið forystu í ríkisstjórn eftir kosningar. Ekki er ólíklegt að þær vonir rætist en kjósendur eiga að vita hvað bíður: Hærri skattar á launafólk og fyrirtæki, stóraukin ríkisútgjöld, minni atvinnuvegafjárfesting, stöðnun efnahagslífsins, rýrnun kaupmáttar og verri lífskjör. Hvorki lýðhyggjuflokkar né eftirlíkingar, sem hafa gerst viljug varadekk í borgarstjórn Dags B. Eggertssonar og Samfylkingar, munu standast freistinguna að slást í för með Samfylkingunni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. október 2024.