Skýrt loforð Samfylkingarinnar: Hærri skattar
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Engu er lík­ara en að formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar forðist fjöl­miðla og op­in­bera umræðu í aðdrag­anda kosn­inga. Kannski í þeirri von að hægt sé að kom­ast hjá því að svara óþægi­leg­um spurn­ing­um (s.s. um stór­aukna skatt­heimtu, Dag B. Eggerts­son eða fjár­hags­stöðu og þjón­ustu Reykja­vík­ur­borg­ar und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar) eða segja eitt­hvað sem fær kjós­end­ur til að hugsa sig tvisvar um hvort rétt sé að veðja á vinstri­flokk sem legg­ur meira upp úr því að hækka skatta en stækka þjóðar­kök­una og sneið launa­fólks í henni.

Mun­ur­inn á hug­mynda­fræði sam­fylk­ing­ar- og sjálf­stæðismanna kom ágæt­lega fram í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­um á þingi 11. mars síðastliðinn. Þá gagn­rýndi Kristrún Frosta­dótt­ir formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar rík­is­stjórn­ina fyr­ir „sárs­auka­full­an“ niður­skurð und­ir lok liðins árs og ófjár­mögnuð áform um út­gjöld vegna kjara­samn­inga á al­menn­um vinnu­markaði. Kristrún krafði fjár­málaráðherra svara við því hvort ráðist yrði „í niður­skurð, til að mynda hjá op­in­ber­um aðilum sem bitn­ar á þeim aðilum sem eiga eft­ir að sækja kjör sín“. Hún vildi einnig fá að vita hvort fjár­málaráðherra hefði „skoðað til­lög­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar varðandi fjár­mögn­un, hvort sem það er hækk­un fjár­magn­s­tekju­skatts, veiðigjalds eða aft­ur­köll­un á banka­skatti, að hluta til eða öllu leyti“.

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins var fjár­málaráðherra á þess­um tíma. Svar henn­ar gef­ur góða inn­sýn í hvernig sjálf­stæðis­menn nálg­ast rík­is­rekst­ur­inn og skatt­heimtu­vald: „Mig lang­ar að vita hvort hátt­virt­ur þingmaður sér eng­in tæki­færi til að spara hjá hinu op­in­bera vegna þess að ég geri það. Ég sé mik­il tæki­færi til að fara bet­ur með al­manna­fé.“

Þór­dís Kol­brún bætti við: „Mér þykir eðli­leg krafa af hálfu fjár­veit­inga­valds­ins og stjórn­valda að skoða það á hverj­um degi hvort farið er eins vel með annarra manna pen­inga og kost­ur er. Svar við því núna er að það eru tæki­færi og þess vegna segi ég: Það er sú leið sem við för­um og hún þarf ekki að vera sárs­auka­full.“

„Tekju­lækk­un­ar­hrina“

Sam­fylk­ing­in und­ir for­ystu Kristrún­ar Frosta­dótt­ur með Dag B. Eggerts­son sem auka­leik­ara (en þó ör­ugg­lega aðeins til að byrja með) hef­ur gefið út eitt skýrt kosn­ingalof­orð: Skatt­ar verða hækkaðir kom­ist flokk­ur­inn til valda.

Viðhorf Sam­fylk­ing­ar til skatt­heimtu hef­ur lengi legið skýrt fyr­ir. Skatta­lækk­an­ir sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur beitt sér fyr­ir á und­an­förn­um árum eru eit­ur í bein­um þeirra. Í októ­ber 2023 gagn­rýndi Kristrún Sjálf­stæðis­flokk­inn fyr­ir að „hafa á tíu árum tekið 95 millj­arða út úr ár­leg­um tekju­stofni hins op­in­bera“. Formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar kallaði skatta­lækk­an­ir frá 2013 tekju­lækk­un­ar­hrinu og hélt því fram að tug­ir millj­arða hefðu verið fjar­lægðir úr „tekju­grunni“ rík­is­sjóðs.

Kristrún er í góðum hópi skattaglaðra stjórn­mála­manna sem líta svo á að verið sé að „veikja“ tekju­stofna, „af­sala“ rík­is­sjóði tekj­um og „kasta“ tekj­um frá rík­inu þegar slakað er á skattaklónni. Með lækk­un skatta sé verið að „taka“ og „fjar­lægja“ fjár­muni úr tekju­grunni rík­is­ins. Sjálfsafla­fé launa­fólks og eign­ir eru fyrst og síðast hluti af tekju­grunni rík­is­ins. Formaður fram­kvæmda­stjórn­ar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Guðmund­ur Ari Sig­ur­jóns­son, end­ur­vakti vond­ar minn­ing­ar margra frá tíð vinstri­stjórn­ar 2009 til 2013 und­ir for­sæti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, í viðtali í Spurs­mál­um mbl.is fyr­ir nokkr­um dög­um. Guðmund­ur Ari, sem skip­ar annað sæti flokks­ins í Suðvest­ur­kjör­dæmi, var trúr for­manni sín­um. Hann var hrein­skil­inn í að boða um­fangs­mikla hækk­un skatta.

Átakalín­ur stjórn­mál­anna

Ég hef haldið því fram að átakalín­ur stjórn­mál­anna markist ekki síst af viðhorfi til skatt­heimtu og virðingu eða virðing­ar­leysi gagn­vart launa­fólki og dugnaði fram­taks­manna.

Skattaglaðir stjórn­mála­menn, sem Kristrún Frosta­dótt­ir hef­ur tekið að sér að veita leiðsögn og for­ystu, trúa því í ein­lægni að hærri skatt­ar séu ávís­un á aukna vel­meg­un. Þeir hafna því að hærri skatt­ar letji ein­stak­linga til að afla meiri tekna og skapa eitt­hvað nýtt, taka áhættu og stofna fyr­ir­tæki. Þeir telja ekki skyn­sam­legt að launa­fólk fái að halda meiru eft­ir í launaum­slag­inu en vilja frem­ur að það treysti á flókið milli­færslu­kerfi stjórn­mála- og emb­ætt­is­manna. Þessa vegna verður tekju­skatt­ur hækkaður sam­hliða skatti á fjár­magn­s­tekj­ur um leið og gerð verður at­laga að ein­yrkj­um og sjálf­stæðum at­vinnu­rek­end­um. Hand­an við hornið er sér­stak­ur eigna­skatt­ur. Fátt fær að vera í friði í skattagleðinni.

Gegn þess­ari hug­mynda­fræði hef­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn bar­ist enda hef­ur reynsl­an sýnt að okk­ur vegn­ar best þegar hóf­semd­ar er gætt í skatt­heimtu. Lægri skatt­ar eru víta­mín efna­hags­lífs­ins sem ríki og sveit­ar­fé­lög njóta góðs af. Þrátt fyr­ir lækk­un skatta frá 2013 hafa tekj­ur hins op­in­bera auk­ist veru­lega. Vandi í op­in­ber­um fjár­mál­um er ekki tekju­vandi held­ur út­gjalda­vandi.

Bjarni Bene­dikts­son, for­sæt­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, var skýr í ræðu sinni á flokks­ráðsfundi í lok ág­úst þegar hann benti á að það væri sann­gjörn krafa að „sam­fé­lagið allt fái betri þjón­ustu fyr­ir þá skatta, sem nú þegar renna til rík­is og sveit­ar­fé­laga“. Í stað auk­inn­ar skatt­heimtu og þyngri byrðar á launa­fólk og fyr­ir­tæki legg­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn áherslu á hag­kvæm­ari nýt­ingu sam­eig­in­legra fjár­muna með aðhaldi, út­vist­un verk­efna, fækk­un stofn­ana, sparnaði í stjórn­sýslu, sölu op­in­berra fyr­ir­tækja og fjár­fest­ingu í sta­f­rænni stjórn­sýslu og auk­inni notk­un gervi­greind­ar.

Von­ir Sam­fylk­inga er að geta tekið for­ystu í rík­is­stjórn eft­ir kosn­ing­ar. Ekki er ólík­legt að þær von­ir ræt­ist en kjós­end­ur eiga að vita hvað bíður: Hærri skatt­ar á launa­fólk og fyr­ir­tæki, stór­auk­in rík­is­út­gjöld, minni at­vinnu­vega­fjár­fest­ing, stöðnun efna­hags­lífs­ins, rýrn­un kaup­mátt­ar og verri lífs­kjör. Hvorki lýðhyggju­flokk­ar né eft­ir­lík­ing­ar, sem hafa gerst vilj­ug vara­dekk í borg­ar­stjórn Dags B. Eggerts­son­ar og Sam­fylk­ing­ar, munu stand­ast freist­ing­una að slást í för með Sam­fylk­ing­unni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. október 2024.