Umbúðir og gluggaskreytingar hinna frægu
'}}

Óli Björn Kára­son

Ég veit ekki hvort er verra, að sæmi­lega þekkt fólk sem af ein­hverj­um ástæðum vill hasla sér völl í stjórn­mál­um líti á stjórn­mála­flokka sem hillu­vöru sem best sé að velja út frá því hvar mestu mögu­leik­arn­ir eru á þing­mennsku eða að stjórn­mála­flokk­arn­ir telji það eft­ir­sókn­ar­vert að fá þekkt fólk á fram­boðslista óháð skoðunum þess eða hug­sjón­um. Fram­boðslist­ar verða eins kon­ar glugga­skreyt­ing­ar sem eiga að heilla kjós­end­ur. Hvort tveggja gref­ur und­an lýðræðinu, þurrk­ar út skil­in milli stjórn­mála­flokka, enda hug­sjón­ir sett­ar út í horn. Kerf­is­hugs­un­in nær yf­ir­hönd­inni.

Hætta er sú að stjórn­mála­maður­inn breyt­ist í emb­ætt­is­mann – tekn­ó­krata sem forðast sam­keppni hug­mynda og nálg­ast sam­fé­lagið eins og hvert annað verk­fræðilegt verk­efni. Allt er skil­greint sem úr­lausn­ar­verk­efni og nefnd­ir og ráð taka við. Áskor­un­um er mætt með auk­inni reglu­væðingu og laga­setn­ingu. Vanda­mál leyst með aukn­um fjár­mun­um sem sótt­ir eru í vasa launa­fólks og fyr­ir­tækja. Kerfið kæf­ir hug­mynda­auðgi og ný­sköp­un. Komið er bönd­um á fram­taks­semi.

Þegar grannt er skoðað er þetta aðeins önn­ur birt­ing­ar­mynd stjórn­lynd­is – vinstri póli­tík í dul­ar­gervi – í nýj­um umbúðum ímynd­ar­stjórn­mála og glugga­skreyt­inga.

Hug­mynda­fræðileg regn­hlíf

Stjórn­mála­flokki sem bygg­ir á skýrri hug­mynda­fræði ber skylda til að berj­ast gegn þess­ari þróun og það verður aðeins gert með því að hefja hug­mynda­fræðilega bar­áttu aft­ur til vegs og virðing­ar. Í kosn­inga­bar­átt­unni í aðdrag­anda alþing­is­kosn­inga 30. nóv­em­ber verða fram­bjóðend­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins að ganga fram af festu og tala skýrt. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er regn­hlíf allra þeirra sem vilja tak­marka völd rík­is­ins og tryggja frelsi borg­ar­anna þannig að hver fái notið hæfi­leika sinna og dugnaðar. Und­ir regn­hlíf­inni sam­ein­ast þeir sem standa vörð um full­veldi lands­ins, menn­ingu og sögu og skilja sam­hengið milli vel­ferðar og öfl­ugs at­vinnu­lífs.

Fram­bjóðend­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins eiga að vera óhrædd­ir við að taka sér stöðu með at­vinnu­líf­inu í bar­áttu sinni fyr­ir heil­brigðu og kröft­ugu sam­fé­lagi sam­hjálp­ar og ná­ungakær­leiks. Þeir eiga að vera ófeimn­ir að mæta tals­mönn­um eft­ir­lík­inga og kerf­is­flokka sem minna frem­ur á fé­lag emb­ætt­is­manna og fræga fólks­ins en sam­tök hug­sjóna­fólks sem brenn­ur fyr­ir því að taka þátt í að móta heil­brigt sam­fé­lag.

Með skýrri hug­mynda­fræði falla fram­bjóðend­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins ekki í gryfju ímynd­ar­stjórn­mála, þar sem umbúðir skipta mestu. Aðeins þannig er hægt að koma í veg fyr­ir að stjórn­lyndi og kerf­i­s­væðing festi ræt­ur og nái tök­um á sam­fé­lag­inu.

Víti til varnaðar

Orðskrúð, inni­halds­laus­ir fras­ar og glugga­skraut gefa kjós­end­um litla eða enga inn­sýn í það fyr­ir hvað viðkom­andi stjórn­mála­flokk­ur eða –maður stend­ur í raun (ef þá eitt­hvað). Orðin eru fal­leg og lof­orðin stór. Aðeins reynsl­an og sag­an sýn­ir hið rétta and­lit vinstri manna sem láta sig dreyma um að ná völd­um í land­stjórn­inni með svipuðum hætti og þeir hafa stjórnað höfuðborg­inni í ára­tugi.

Sam­göng­ur eru í ólestri, grunn­skól­ar eru í krísu, börn fá ekki leik­skóla­pláss, stjórn­sýsla þenst út og seina­gang­ur eykst, óstjórn ein­kenn­ir skipu­lags­mál með til­heyr­andi lóðaskorti. Fjár­hags­staða borg­ar­inn­ar, sem ætti að vera fyr­ir­mynd annarra sveit­ar­fé­laga, er í besta falli veik­b­urða. Sitj­andi borg­ar­stjóri hef­ur viður­kennt að fjár­hags­staðan sé verri en hann bjóst við þegar hann tók við embætti í janú­ar síðastliðnum. For­veri hans, sem nú ætl­ar að koma sér fyr­ir í lands­mál­um sem einn af leiðtog­um Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, hafði aldrei áhyggj­ur. Árið 2016 skýrði Dag­ur B. Eggerts­son erfiða fjár­hags­stöðu Reykja­vík­ur með því að segja ein­fald­lega að tekj­ur hefðu „hækkað hæg­ar en gjöld­in“. Það er með þessu hug­ar­fari sem Sam­fylk­ing­in mun tak­ast á við rík­is­fjár­mál­in. Vand­inn verður aldrei út­gjalda­vandi held­ur tekju­vandi. Lausn­in alltaf að auka tekj­urn­ar – hækka skatta og gjöld. Að venju ber millistétt­in þyngstu byrðarn­ar.

Það er gegn þess­um hugs­un­ar­hætti – kerf­is­hyggju vinstri manna – sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn berst. Hvorki glugga­skreyt­ing­ar eða eft­ir­lík­ing­ar hafa burði til að veita nauðsyn­legt viðnám. Aðeins sterk­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur get­ur skapað vörn fyr­ir borg­ara­leg gildi og tryggt hóf­semd í skatt­heimtu.

Fram­bjóðend­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins eiga að varpa ljósi á af­leiðing­ar rangr­ar stefnu meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í skipu­lags­mál­um. Rífa umbúðirn­ar utan af stefnu flokks sem inn­leitt hef­ur skort sem all­ir lands­menn líða fyr­ir með ein­um eða öðrum hætti. Kostnaður­inn af skort­stefnu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og fylgi­tungla henn­ar í borg­ar­stjórn er bor­inn af ein­stak­ling­um og fjöl­skyld­um í formi hærra fast­eigna­verðs sem hitt­ir íbúðaeig­end­ur og leigj­end­ur aft­ur með hærri fast­eigna­gjöld­um og leigu, að ekki sé talað um þau áhrif sem hærra fast­eigna­verð hef­ur á kaup­mátt launa og skulda­stöðu heim­ila vegna hærri verðbólgu. En auðvitað kann­ast Sam­fylk­ing­in ekk­ert við ábyrgð sína og eins og alltaf er öðrum kennt um.

Bjart­sýni

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn vill að hver og einn hafi tæki­færi til þess að leita að innri styrk­leika til að lifa far­sælu lífi á eig­in for­send­um, en ekki sam­kvæmt forskrift kerf­is­ins eða stjórn­lyndra stjórn­mála­manna. Fram­bjóðend­ur flokks­ins eiga að blása bjart­sýni í brjóst allra, enda bygg­ir hug­sjón þeirra á trúnni á framtíðina og hæfi­leika frjálsra ein­stak­linga.

Ég er sann­færður um að tæki­fær­in til að sækja fram séu til staðar fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn. Ef fram­bjóðend­ur og við sem skip­um bakv­arðarsveit Sjálf­stæðis­flokks­ins töl­um skor­in­ort, setj­um stefnu­mál­in fram með af­drátt­ar­laus­um hætti og mæt­um póli­tísk­um keppi­naut­um með sjálfs­trausti þarf ekki að ótt­ast dóm kjós­enda 30. nóv­em­ber næst­kom­andi. Þegar fram­bjóðend­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa stigið fram á víg­völl stjórn­mál­anna með hug­mynda­fræði að vopni hef­ur niðurstaðan alltaf verið hag­felld fyr­ir land og þjóð.