Óli Björn Kárason
Ég veit ekki hvort er verra, að sæmilega þekkt fólk sem af einhverjum ástæðum vill hasla sér völl í stjórnmálum líti á stjórnmálaflokka sem hilluvöru sem best sé að velja út frá því hvar mestu möguleikarnir eru á þingmennsku eða að stjórnmálaflokkarnir telji það eftirsóknarvert að fá þekkt fólk á framboðslista óháð skoðunum þess eða hugsjónum. Framboðslistar verða eins konar gluggaskreytingar sem eiga að heilla kjósendur. Hvort tveggja grefur undan lýðræðinu, þurrkar út skilin milli stjórnmálaflokka, enda hugsjónir settar út í horn. Kerfishugsunin nær yfirhöndinni.
Hætta er sú að stjórnmálamaðurinn breytist í embættismann – teknókrata sem forðast samkeppni hugmynda og nálgast samfélagið eins og hvert annað verkfræðilegt verkefni. Allt er skilgreint sem úrlausnarverkefni og nefndir og ráð taka við. Áskorunum er mætt með aukinni regluvæðingu og lagasetningu. Vandamál leyst með auknum fjármunum sem sóttir eru í vasa launafólks og fyrirtækja. Kerfið kæfir hugmyndaauðgi og nýsköpun. Komið er böndum á framtakssemi.
Þegar grannt er skoðað er þetta aðeins önnur birtingarmynd stjórnlyndis – vinstri pólitík í dulargervi – í nýjum umbúðum ímyndarstjórnmála og gluggaskreytinga.
Hugmyndafræðileg regnhlíf
Stjórnmálaflokki sem byggir á skýrri hugmyndafræði ber skylda til að berjast gegn þessari þróun og það verður aðeins gert með því að hefja hugmyndafræðilega baráttu aftur til vegs og virðingar. Í kosningabaráttunni í aðdraganda alþingiskosninga 30. nóvember verða frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins að ganga fram af festu og tala skýrt. Sjálfstæðisflokkurinn er regnhlíf allra þeirra sem vilja takmarka völd ríkisins og tryggja frelsi borgaranna þannig að hver fái notið hæfileika sinna og dugnaðar. Undir regnhlífinni sameinast þeir sem standa vörð um fullveldi landsins, menningu og sögu og skilja samhengið milli velferðar og öflugs atvinnulífs.
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins eiga að vera óhræddir við að taka sér stöðu með atvinnulífinu í baráttu sinni fyrir heilbrigðu og kröftugu samfélagi samhjálpar og náungakærleiks. Þeir eiga að vera ófeimnir að mæta talsmönnum eftirlíkinga og kerfisflokka sem minna fremur á félag embættismanna og fræga fólksins en samtök hugsjónafólks sem brennur fyrir því að taka þátt í að móta heilbrigt samfélag.
Með skýrri hugmyndafræði falla frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins ekki í gryfju ímyndarstjórnmála, þar sem umbúðir skipta mestu. Aðeins þannig er hægt að koma í veg fyrir að stjórnlyndi og kerfisvæðing festi rætur og nái tökum á samfélaginu.
Víti til varnaðar
Orðskrúð, innihaldslausir frasar og gluggaskraut gefa kjósendum litla eða enga innsýn í það fyrir hvað viðkomandi stjórnmálaflokkur eða –maður stendur í raun (ef þá eitthvað). Orðin eru falleg og loforðin stór. Aðeins reynslan og sagan sýnir hið rétta andlit vinstri manna sem láta sig dreyma um að ná völdum í landstjórninni með svipuðum hætti og þeir hafa stjórnað höfuðborginni í áratugi.
Samgöngur eru í ólestri, grunnskólar eru í krísu, börn fá ekki leikskólapláss, stjórnsýsla þenst út og seinagangur eykst, óstjórn einkennir skipulagsmál með tilheyrandi lóðaskorti. Fjárhagsstaða borgarinnar, sem ætti að vera fyrirmynd annarra sveitarfélaga, er í besta falli veikburða. Sitjandi borgarstjóri hefur viðurkennt að fjárhagsstaðan sé verri en hann bjóst við þegar hann tók við embætti í janúar síðastliðnum. Forveri hans, sem nú ætlar að koma sér fyrir í landsmálum sem einn af leiðtogum Samfylkingarinnar, hafði aldrei áhyggjur. Árið 2016 skýrði Dagur B. Eggertsson erfiða fjárhagsstöðu Reykjavíkur með því að segja einfaldlega að tekjur hefðu „hækkað hægar en gjöldin“. Það er með þessu hugarfari sem Samfylkingin mun takast á við ríkisfjármálin. Vandinn verður aldrei útgjaldavandi heldur tekjuvandi. Lausnin alltaf að auka tekjurnar – hækka skatta og gjöld. Að venju ber millistéttin þyngstu byrðarnar.
Það er gegn þessum hugsunarhætti – kerfishyggju vinstri manna – sem Sjálfstæðisflokkurinn berst. Hvorki gluggaskreytingar eða eftirlíkingar hafa burði til að veita nauðsynlegt viðnám. Aðeins sterkur Sjálfstæðisflokkur getur skapað vörn fyrir borgaraleg gildi og tryggt hófsemd í skattheimtu.
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins eiga að varpa ljósi á afleiðingar rangrar stefnu meirihluta borgarstjórnar undir forystu Samfylkingarinnar í skipulagsmálum. Rífa umbúðirnar utan af stefnu flokks sem innleitt hefur skort sem allir landsmenn líða fyrir með einum eða öðrum hætti. Kostnaðurinn af skortstefnu Samfylkingarinnar og fylgitungla hennar í borgarstjórn er borinn af einstaklingum og fjölskyldum í formi hærra fasteignaverðs sem hittir íbúðaeigendur og leigjendur aftur með hærri fasteignagjöldum og leigu, að ekki sé talað um þau áhrif sem hærra fasteignaverð hefur á kaupmátt launa og skuldastöðu heimila vegna hærri verðbólgu. En auðvitað kannast Samfylkingin ekkert við ábyrgð sína og eins og alltaf er öðrum kennt um.
Bjartsýni
Sjálfstæðisflokkurinn vill að hver og einn hafi tækifæri til þess að leita að innri styrkleika til að lifa farsælu lífi á eigin forsendum, en ekki samkvæmt forskrift kerfisins eða stjórnlyndra stjórnmálamanna. Frambjóðendur flokksins eiga að blása bjartsýni í brjóst allra, enda byggir hugsjón þeirra á trúnni á framtíðina og hæfileika frjálsra einstaklinga.
Ég er sannfærður um að tækifærin til að sækja fram séu til staðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ef frambjóðendur og við sem skipum bakvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins tölum skorinort, setjum stefnumálin fram með afdráttarlausum hætti og mætum pólitískum keppinautum með sjálfstrausti þarf ekki að óttast dóm kjósenda 30. nóvember næstkomandi. Þegar frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa stigið fram á vígvöll stjórnmálanna með hugmyndafræði að vopni hefur niðurstaðan alltaf verið hagfelld fyrir land og þjóð.