25. október 2024

Snagasafarí

Reykjavíkurborg varði nýverið tæpum 12 milljónum króna í fatahengi í Álftamýrarskóla. Um svipað leyti var ákveðið að skera niður bókakaup til skólabókasafna um 10 milljónir króna, í miðri umræðu um læsisvanda barna.

Sannarlega þarf að búa skólabörnum vandað umhverfi, en sveitarfélag í sífelldum hallarekstri þarf að sýna skynsemi í allri ákvarðanatöku. Þegar 12 milljónum króna er sólundað í hönnunarsnaga og tilheyrandi prjál í erfiðu rekstrarumhverfi veltir maður fyrir sér hvort innan borgarkerfisins sé nægileg meðvitund um raunstöðuna í rekstrinum.

Pennavinur borgarstjórnar

Þann 1. október sl. sendi eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga erindi á borgarstjórn þar sem áhyggjur voru viðraðar af því að borgin stæðist aðeins tvö af sex lágmarksviðmiðum nefndarinnar fyrir rekstur sveitarfélaga. Lýsti nefndin áhyggjum af neikvæðri rekstrarniðurstöðu borgarinnar, lágri framlegð, háu skuldahlutfalli og háu skuldaviðmiði. Undirstrikaði nefndin ábyrgð borgarstjórnar á fjárhag sveitarfélagsins og sagði mikilvægt að uppfylla öll lágmarksviðmiðin í rekstrinum fyrir árið 2026.

Segja má að eftirlitsnefndin sé nú sérlegur pennavinur borgarinnar, en um er að ræða þriðja bréf nefndarinnar til borgarstjórnar á kjörtímabilinu.

Vasar skattgreiðenda

Á haustdögum skilaði borgin jákvæðri rekstrarniðurstöðu í sex mánaða uppgjöri sínu. Þrátt fyrir það reyndist niðurstaðan raunar 1,7 milljörðum lakari en áætlun gerði ráð fyrir. Þessi jákvæða rekstrarniðurstaða væri sannarlega fagnaðarefni hefði hún náðst með hagræðingu og aðhaldi. Raunin er hins vegar sú að rekstrargjöld hafa aukist um ríflega sex milljarða milli ára og farið nærri 2,5 milljarða umfram áætlun fyrstu sex mánuði ársins, þrátt fyrir boðaðar hagræðingaraðgerðir.

Skatttekjur borgarinnar hafa hins vegar aukist um 5,1 milljarð milli ára og fara 1,1 milljarð umfram áætlun fyrstu sex mánuði ársins. Jákvæðar breytingar í rekstri borgarinnar voru því sóttar beint í vasa skattgreiðenda.

Má þar aðallega vísa til þess hvernig meirihlutinn sætti færis þegar gríðarlegar hækkanir fasteignamats leiddu til samsvarandi hækkana á krónutölu fasteignaskatta síðustu ár. Nágrannasveitarfélög brugðust við hækkunum fasteignamats með lækkun álagningarhlutfalla á sína íbúa. Meirihlutinn í Reykjavík felldi hins vegar tillögur okkar sjálfstæðismanna um samsvarandi skattalækkanir.

Með því að halda sköttum í Reykjavík hærri en í Kópavogi sækir borgin um 2,4 milljarða árlega í auknar skatttekjur – beint úr vösum fólks og fyrirtækja í Reykjavík.

Ónauðsynleg verkefni

Fyrr á þessu kjörtímabili einsetti borgin sér að ráða ekki lengur í ónauðsynleg störf. Óráðsían í rekstrinum var slík að um þetta sjálfsagða mál þurfti að móta sérstaka stefnu.

Með sama hætti mætti meirihlutinn setja sér þá stefnu að ráðast ekki í ónauðsynleg verkefni. Fyrrnefnt 12 milljóna snagasafarí getur ekki talist nauðsynlegt verkefni meðan skólakerfið er í stöðugri hnignun. Við rekum dýrasta skólakerfið innan OECD en skilum hvað lökustum árangri. Við þurfum að láta af stöðugum fjárútlátum í umbúðir og færa allan þunga í aukið innihald. Við þurfum að tryggja börnum bækur en láta hönnunarsnaga mæta afgangi.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. október 2024.