Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Í alþingiskosningunum 30. nóvember velur þjóðin fulltrúa til að stjórna sameiginlegum málum sínum næstu fjögur ár. Vonandi verða kosningarnar til þess að unnt verði að mynda trausta ríkisstjórn, sem vinni að stöðugleika í stjórnmálum og efnahagsmálum. Slíkt er þó alls ekki sjálfgefið.
Ríkjandi fyrirkomulag kosninga ýtir beinlínis undir fjölgun flokka og framboða. Átta flokkar eiga nú sæti á Alþingi en þeim gæti fjölgað í níu eða jafnvel tíu í komandi kosningum. Slíkt kraðak smáflokka myndi ekki auðvelda myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum, hvað þá traustrar stjórnar, sem tæki á viðfangsefnum næstu ára af festu og ábyrgð. Með eintómum smáflokkum og smákóngum á Alþingi er hætta á að upplausn komi í stað ábyrgðar.
Árangur á erfiðum tímum
Þrátt fyrir erfið stjórnarslit verður því ekki neitað að sjö ára samstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna hefur skilað margvíslegum árangri. Lífskjör þjóðarinnar hafa aldrei verið betri og hún stendur vel á flesta alþjóðlega mælikvarða.
Eftir kosningarnar 2017 og 2021 stóð valið á milli þriggja flokka stjórnar með aðild Sjálfstæðisflokksins eða fimm til sex flokka vinstri stjórnar. Sjálfstæðisflokkurinn axlaði ábyrgð og lagði sitt af mörkum svo að unnt yrði að mynda starfhæfa ríkisstjórn.
Stjórnarsamstarfið var lengst af traust en ekki án fórna. Ekki síst þurfti Sjálfstæðisflokkurinn að gera ýmsar málamiðlanir, t.d. í ríkisfjármálum, sem urðu umdeildar innan flokksins. Þingmenn samstarfsflokkanna þrýstu mjög á um aukin opinber útgjöld, sem ljóst var að yrðu til lengdar einungis fjármögnuð með lántökum eða skattahækkunum.
Reynslan sýnir að andstæðinga skattahækkana er helst að finna í Sjálfstæðisflokknum. Oft hafa þingmenn hans komið í veg fyrir að ófjármagnaðar útgjaldahugmyndir vinstri manna í stjórnarliðinu yrðu að veruleika.
Svo virðist einnig sem fylgismenn skattalækkana sé einungis hægt að finna í Sjálfstæðisflokknum. Þingmenn flokksins beittu sér fyrir afnámi tolla (800 talsins) og margvíslegum skattalækkunum. Án þeirra hefðu landsmenn greitt um 700 milljörðum hærri skatta en ella undanfarinn áratug.
Mikilvæg stefnumál
Sjálfstæðisflokkurinn þarf nú að setja fram skýra stefnu um hvernig lífskjör landsmanna verði sem best tryggð á komandi árum. Nokkur æskileg stefnumál skulu nefnd:
Skattbyrði verði ekki aukin frekar undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ráðist verði í átak við lækkun skatta, m.a. margvíslegra sérskatta.
Styrkja verður fullveldi þjóðarinnar.
Skerpa þarf á á lögum og reglugerðum varðandi heimildir útlendinga til að leita hér hælis, sækja heilbrigðisþjónustu og festa búsetu.
Umbætur verði gerðar í húsnæðismálum og sem flestum gert kleift að eignast eigið húsnæði.
Ráðist verði í löngu tímabærar samgöngubætur eins og Sundabraut og úrbætur á umferðarþungum gatnamótum í Reykjavík. Hætta skal fjáraustri í óraunhæfa hugmynd um flugvöll í Hvassahrauni en tryggt að Reykjavíkurflugvöllur gegni áfram margþættu hlutverki í þágu innanlandsflugs, sjúkraflugs og björgunarflugs.
Auka þarf orkuvinnslu. Rjúfa þarf kyrrstöðu og ryðja úr vegi hindrunum vegna náttúruvænna virkjanaframkvæmda.
Nýta þarf kosti einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu í auknum mæli með gæði og hagkvæmni að leiðarljósi.
Samræmd próf verði tekin upp að nýju í grunnskólum og þau nýtt með markvissum hætti til að bæta skólastarf.
Alþingi á að auðvelda og bæta daglegt líf fólks en ekki hneppa það í fjötra reglugerða og skattahækkana. Mynda þarf næstu ríkisstjórn á grundvelli sóknar í atvinnumálum og stöðugleika í efnahagsmálum. Þannig leggjum við góðan grunn að aukinni verðmætasköpun, bættum lífskjörum og öflugu velferðarkerfi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. október 2024.